Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:40:07 (4652)


[21:40]
     Þuríður Bernódusdóttir :
    Virðulegur forseti. Fyrst svo ber til að þessi bráðabirgðalög á sjómenn eru til afgreiðslu á Alþingi þessa daga sem ég á sæti hér sem varamaður vildi ég nota tækifærið til þess að láta í ljós skoðun mína á þeim í nokkrum orðum.
    Það var ljóst löngu fyrir áramót að til verkfalls sjómanna kæmi strax í upphafi þessa árs, fiskiskipaflotinn mundi stöðvast og áhrifin á atvinnulífið í landinu yrðu gífurleg. Þrátt fyrir að þetta lægi ljóst fyrir var ekki að heyra á stjórnarherrunum að þeir hefðu tiltakanlegar áhyggjur. Fyrir byggðarlag eins og t.d. Vestmannaeyjar þar sem meginþorri fólksins vinnur við sjávarútveg beint eða óbeint gat þetta raunverulega orðið spurning um líf eða dauða fyrirtækjanna þar.
    Í upphafi verkfalls og eftir nokkrar samningalotur deiluaðila kom fljótlega í ljós að deilan snerist fyrst og fremst um meinta þátttöku sjómanna í kaupum á veiðiheimildum og svo um fiskverð vegna þess að fiskvinnslan og útgerð eru að mörgu leyti stærsti fiskkaupandinn í landinu.
    Eins og öllum er ljóst geta sjómenn engan veginn sætt sig við það brask sem á sér stað með kvótann. Allir gera sér grein fyrir að það er brot á samkomulagi sjómanna og útgerðarmanna að láta sjómenn taka þátt í kaupum á kvóta, og ekki bara sjómönnum, heldur öllum þorra fólks í þessu landi þykir það auðvitað siðlaust að selja kvótann af skipum og kaupa síðan nýjan kvóta með þátttöku sjómanna en þetta eru staðreyndir engu að síður.
    Og það er fleira sem mönnum finnst ekki til fyrirmyndar í þessum höfuðatvinnuvegi okkar. Þess eru dæmi að fiskvinnslan í landi ákveður lágt verð á fiski til sinna báta til þess beinlínis að skapa sér betra svigrúm á fiskmörkuðum og kaupir þar fyrir hærra verð sem svo auðvitað jafnast út í sæmilegu meðalverði yfir árið.
    Mér er það ljóst að leyfi til framsals á veiðiheimildum eða kvóta er nauðsynlegt í því kerfi fiskveiðistjórnunar sem nú er við lýði. Langflestir eru á því að öðruvísi gengi kerfið ekki upp og ég get alveg samþykkt það. En þá verðum við líka að viðurkenna að rætur þessa vanda, sem leiddu til þess að bráðabirgðalögin voru sett, er að finna í fiskveiðistjórnunarkerfinu, kvótakerfinu sjálfu. Vandinn, kvótabraskið, er með öðrum orðum afkvæmi ríkjandi stefnu í stjórn fiskveiða. Þess vegna finnst mér og mörgum öðrum sem hafa hugsað um þetta mál og starfa líka í þessari grein að stjórnvöld hafi vissar skyldur til þess að koma inn í þetta mál og leysa það. Af hverju má ekki bara banna kvótabraskið með lögum? Hvað er það sem kemur í veg fyrir það? Er það ekki einfaldast?
    Það kom fram hjá mörgum sjómönnum á opnum fundum að þeir hefðu stutt kvótakerfið á sínum tíma en aldrei órað fyrir því að það ætti eftir að hafa slíkar afleiðingar. Og margir hafa auðvitað áhyggjur af framtíðinni ef festa á aflamarkskerfið endanlega í sessi eins og það er núna. Verður nokkurn tíma friður um það nema lausn finnist á þessum vanda og reyndar ýmsu öðru í kerfinu? Fyrir mörgum blasir það við að fiskvinnslan geti á næstunni algerlega ráðið ein fiskverði á þeim kvóta sem hún eignast og skammtað sjómönnum að vild. Það ætti því engan að undra þótt samtök sjómanna skuli vera farin að tala um lágmarksverð. Viðsemjandi þeirra er orðinn stærsti fiskkaupandinn, hvort sem útgerðarmenn viðurkenna það eða ekki.
    Það kom fljótlega í ljós að erfitt yrði að leysa þessa verkfallsdeilu nema stjórnvöld kæmu inn í málið. Eðlilegast hefði verið að kalla Alþingi saman þegar allt var komið í hnút. Alþingi hefði getað afgreitt þetta mál á lýðræðislegan hátt á ekki löngum tíma. Stjórnarandstaðan hafði lýst því yfir að hún væri tilbúin til að mæta til þings.

    Það er líka spurning, sem ekki hefur fengist viðhlítandi svar við, hvort öll sund hafi verið lokuð þegar bráðabirgðalögin voru sett. Bráðabirgðalög eru alltaf slæmur kostur og þeim á ekki að beita nema í algerri neyð. Með þeim er verið að brjóta á rétti manna sem vilja verja kjör sín með frjálsum samningum.
    Lausnin, sem boðuð er í þeim bráðabirgðalögum sem hér eru til afgreiðslu, var að skipuð yrði nefnd þriggja manna sem kæmi með tillögur um hvernig mætti koma í veg fyrir þátttöku sjómanna í kaupum á aflaheimildum. Ég get ekki séð að þessi nefnd hafi komið með þær lausnir sem menn bundu vonir við. Kannski er það engin furða því fiskveiðistjórnunin er í þroti. Hún hefur ekki gengið upp. Óréttlætið í þessu kerfi, sem kemur svo glöggt fram í því máli sem varð tilefni þessara bráðabirgðalaga, er svo mikið að fólki blöskrar. Þetta kerfi dregur úr öllu frumkvæði og er að færa þröngum lokuðum hópi, sem jafnan eru kallaðir sægreifar, meginhluta kvótans, þ.e. auðlindir hafsins í kringum landið, allt í nafni hagræðingar, sem því miður fáir hafa komið auga á, nema kannski greifarnir sjálfir.
    Ég efast ekki um að í upphafi hafi mörg rök verið fyrir því að taka upp kvótakerfið og til þess þurfti mikið þrek og mikla dirfsku. Margt hefur tekist vel en á þessu kerfi eru brotalamir sem við verðum að takast á við. Það þýðir ekki að svara með bráðabirgðalögum þótt það sé svona við hæfi þegar menn eru að baksa með bráðabirgðalausnir í málefnum þessarar atvinnugreinar.
    Skuldir sjávarútvegsins eru jafnhá upphæð og fjárlög þessa lands í ár. Mér finnst það óhugnanlegt á sama tíma og draga á saman kvótann ár frá ári. Þótt einhverjir greifar séu vel bjargálna er hætt við því að fátækt sé að hellast yfir aðra í þessari atvinnugrein. Við þekkjum þjóðfélög sem þannig er og var ástatt með, þróunarlöndin og lönd Austur-Evrópu. Viljum við stefna í þá átt?
    Það er löngu kominn tími til að taka upp á ný sóknarmarkið sem gefur þeim möguleika sem eru duglegir og skilur þá eftir sem ekkert geta neitt nema verið vinir foringjans.
    Sóknarmarkið getur, ef því fylgir líka takmörkun veiðidaga, orðið mun virkara í verndun fiskstofnanna. Í þess konar kerfi kemur allur fiskur að landi, fiskvinnslan gæti mun betur samræmt veiðar og vinnslu. Nýsköpun í sjávarútvegi gæti þá fyrst orðið alvara.
    Virðulegi forseti. Það duga ekki lengur bráðabirgðalausnir. Nú eru tækifæri til nýrrar sóknar.