Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:48:45 (4653)


[21:48]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Suðurl. gat þess réttilega að verkfall sjómanna hefði alvarleg áhrif á atvinnulíf í Vestmannaeyjum eins og reyndar öðrum sjávarútvegsbæjum í landinu. Síðan tók hv. þm. fram að að sínu mati væri framsal aflaheimilda óhjákvæmilegt í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi en gerði kröfu til þess að ríkisstjórnin hefði leyst málið áður en til verkfalls kom. Átti að banna framsal eins og var krafa verkalýðshreyfinginnar? Átti ríkisstjórnin að ganga að því? Hefði það bætt stöðu útgerðar og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum? Er ekki rétt að hv. þm. svari því? Hefði það bætt stöðu útgerðar og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum að ríkisstjórnin hefði orðið við þeirri kröfu?
    Í annan stað sagði hv. þm. að það hefði verið krafa sjómannasamtakanna að hækka fiskverð. Vill hv. þm. svara því hér hvort það hefði bætt stöðu fiskvinnslufyrirtækjanna í Vestmannaeyjum að ríkisstjórnin hefði orðið við þeirri kröfu og lögleitt hana? Hefði það bætt aðstöðu fiskverkafólksins í Vestmannaeyjum, að ríkisstjórnin hefði orðið við þeirri kröfu og lögfest hana? Er ekki rétt að hv. þm. geri þinginu grein fyrir þessu?