Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:50:45 (4655)



[21:50]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er enginn ágreiningur um það að nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að sjómenn séu neyddir til að taka þátt í kaupum á aflaheimildum, það er enginn ágreiningur um það. En hv. þm. var að halda því fram að ríkisstjórnin hefði átt að leysa þessa deilu fyrir fram og hverjar voru kröfurnar? Krafan var sú að banna framsal sem hv. þm. hefur sagt að sé alveg nauðsynlegt og ég spyr: Hefði það verið útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum til framdráttar að verða við þessari kröfu fyrir fram? Og hv. þm. sagði svo að í annan stað hefði krafa sjómannasamtakanna verið sú að hækka fiskverð. Átti ríkisstjórnin að taka undir þá kröfu og lögfesta hækkun fiskverðs? Hefði það hjálpað fiskvinnslufyrirtækjunum í Vestmannaeyjum í þeirra vanda? Og vegna þess að hv. þm. vitnaði til þess bæjarfélags þá finnst mér eðlilegt að hv. þm. geri grein fyrir því hvort það hefði hjálpað sjávarútveginum og fiskvinnslufyrirtækjunum í Vestmannaeyjum að ríkisstjórnin hefði brugðist við eins og hv. þm. er að krefjast.