Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:52:03 (4656)


[21:52]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar í upphafi ræðu minnar að minnast á þessi síðustu orðaskipti sem fóru hérna fram. Ég verð að lýsa yfir undrun minni á viðbrögðum hæstv. sjútvrh. og það hvernig hann slítur úr samhengi það sem verið var að takast á um í þessari deilu, setur það fram á mjög einfaldan máta sem í raun og veru getur ekki gengið. Hann talaði hér um kröfuna um það að hækka fiskverð og hvort það hefði bjargað fyrirtækjum í Vestmannaeyjum ef það hefði orðið við þeirri kröfu. Hver var krafa sjómanna um hækkað fiskverð? Hún var krafa um að það fiskverð yrði reiknað sem raunverulega lægi á bak við þau viðskipti sem færu fram á milli kaupenda og seljenda, þ.e. að sjómenn yrðu ekki látnir borga í kvótakaupunum sjálfum. Það var ekki verið að fara fram á aðra hækkun fiskverðs heldur en þessa. Og það er útúrsnúningur og ekki sæmandi hæstv. sjútvrh. að koma hér inn í umræðuna með fullyrðingar af þessu tagi sem ég a.m.k. ímynda mér að einhver sem hefði verið að horfa á og hlusta á það sem hér er að fara fram hefði tekið þannig að sjómenn hefðu verið að gera kröfu um almenna hækkun fiskverðs en það var ekki.
    Síðan má auðvitað velta fyrir sér hinu sem hæstv. ráðherra var hér að nefna áðan, kröfunni um frjálsa framsalið, um að breyta því. Sjómenn fóru fram á það að annaðhvort yrði frjálsa framsalið tekið af eða með öðrum hætti komið í veg fyrir það að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum. Ríkisstjórnin tók að sér að leysa málið og ég verð nú að segja það eins og er að mér finnst umræðan hér í kvöld hafa verið mjög undarleg. Hér hafa hæstv. ráðherrar leyft sér að tala eins og þeir hafi í raun og veru engu lofað, yfirlýsingar þeirra hafi aldrei verið til neins marks. Þeir hafa meira að segja komið hér ferð eftir ferð í ræðustólinn til þess að segja að það sé nú aldeilis ekki nein þörf á því að tala við þingmenn stjórnarliðsins um þessi bráðabirgðalög, það hefði ekki verið nein ástæða til þess og verið nánast hneykslaðir yfir því að einhverjir þingmenn úr stjórnarandstöðunni væru að gagnrýna þá fyrir að hafa ekki talað við nema tvo af þingmönnum Sjálfstfl., hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa víst ekki gert það.
    Mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh. Fannst honum engin ástæða til þess að tryggja stuðning við þá lausn sem er verið að biðja þingið um að skrifa upp á með því að fara

fram á að þessi bráðabirgðalög verði samþykkt? Það er ekki bara verið að setja lög á verkfall sjómanna. Það er verið að lýsa því yfir í þessum lagatexta að það eigi að leysa vandamál sjómanna með tilteknum hætti. Og hæstv. ráðherrar hafa látið sig hafa það að mælta hér á Alþingi og halda því fram að það hafi ekki verið nein þörf á því að tala við hv. þm. annars stjórnarflokksins um það hvort þeir væru tilbúnir að standa með þessum hætti að þessari lagasetningu, hvort þeir væru tilbúnir að því að standa að lausn ríkisstjórnarinnar á því vandamáli sem þarna væri verið að takast á um.
    Ég verð nú að segja það alveg eins og er að mér finnst svona umræða ekki í lagi. Menn geta rifist endalaust um það hvort yfirleitt eigi að tryggja fullkominn meiri hluta fyrir þeim bráðabirgðalögum sem menn ætla að setja. En í þessu tilfelli tel ég að hafi verið á ferðinni þannig einstakt fyrirbrigði, þ.e. það stóð yfir verkfall sjómanna hér, það var búið að fara í gegnum málin, ríkisstjórnin var búin að eiga hlut í samningaviðræðum dögum saman og hún ákvað að leysa málin með tilteknum hætti og ég tel að henni hafi borið skylda til þess að tryggja stuðning við það sem hún ætlaði að gera í málinu.
    Hitt er svo annað mál að ég tel að það verði að ræða þessi mál í samhengi og það er ekki hægt að sleppa ríkisstjórninni við þá ábyrgð sem hún ber á þessari deilu. Ríkisstjórnin á alla sök á því að þetta verkfall varð í vetur, og hvers vegna? Það er vegna þess að þetta verkfall varð vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Sjómannasamtökin lýstu yfir fullri andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum á sl. vetri þegar skýrsla tvíhöfða nefndar var lögð fram. Þá lýstu sjómenn því yfir að þeir gætu ekki fallist á þessa stefnu og gerðu kröfur um breytingar á henni. Alveg frá þeim degi var það auðséð að það mundi stefna í þessi átök og það var ítrekað rætt í sölum Alþingis að það væri von á þessum átökum. Ríkisstjórnin kaus að láta málið danka og hún ætlaði greinilega að gera þá tilraun að brjóta sjómennina niður í verkfalli. Það var það sem hún ætlaði sér. Og þegar kom fram undir jól urðu umræður um þetta mál og þá kaus hæstv. forsrh. að láta eins og það stæði ekki til að gera neitt í málinu. En það var auðvitað fyrirséð þá að hverju stefndi. Og síðan gekk málið til enda og það er ekki ástæða til þess að rifja það upp í smáatriðum. Allir vita hvernig það gekk til. En að koma hér í ræðustól og tala eins og menn beri enga ábyrgð á þessu máli og tala líka eins og þessi deila hafi næstum því dottið ofan úr himninum og menn hafi bara ekkert vitað fyrr en svona var komið og þess vegna hafi þurft að setja bráðabirgðalög, það er ekki rétta myndin af þessu máli, einfaldlega vegna þess að við vissum það, allir sem höfum viljað hugsa um þessi mál alveg frá því í fyrravor að það kæmi að þessu. Og það var auðséð að það yrði um þetta verkfall að ræða um áramótin, það var nokkurn veginn vitað alveg í byrjun desember hvenær þessi dagur mundi renna upp. Síðan lýstu sjómenn yfir hvenær verkfall skyldi skella á.
    Ríkisstjórnin ákvað það á sömu dögum og þetta blasti við að lengja jólafrí þingmanna. Hvers vegna? Það kom aldrei skýring á því. Ég hef mína skýringu á því. Það var einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin taldi að það væri of þröngur tími frá því að verkfallið skylli á og þangað til þing ætti að koma saman til þess að það yrði hægt að setja bráðabirgðalög. Þeir vildu hafa svigrúm til bráðabirgðalagasetningarinnar því að það hefði varla verið tæknilega mögulegt að koma bráðabirgðalögunum á fyrr en verkfall væri búið að standa í hálfan mánuð. Og þingið átti að koma saman ef ég man rétt 17. jan. Þess vegna var ákveðið að lengja jólafrí þingmanna um eina viku svo að það yrði svigrúm að koma bráðabirgðalögunum á til þess að hér myndaðist lengri tími og til þess að brjóta niður baráttu sjómannanna. Þannig liggur þetta í mínum huga. Og ég verð að segja það alveg eins og er að ég trúi því að ýmsum sem eiga hlut að þessari deilu og líka öðrum landsmönnum sem fylgjast með því sem fer fram á Alþingi finnist undarlega að málum staðið að menn skuli hafa gengið fram með þessum hætti og það skuli ekki hafa verið meira á bak við það sem hæstv. ríkisstjórn var að gera þegar hún setti þessi bráðabirgðalög. Það hefur sem sagt komið í ljós að meiningin var ekkert nema þessi. Og ég verð að segja alveg eins og er að ég tel nú reyndar að hæstv. ríkisstjórn hafi ímyndað sér og hafi ætlað sér að gera það sem stendur hér í texta bráðabirgðalaganna og síðan hafi þær fyrirætlanir breyst því að bréfin sem hæstv. sjútvrh. skrifar sjútvn. benda eindregið til þess.

Það var nefnilega gert ráð fyrir því að þríhöfða nefndin skili lagatexta fyrir 1. febr. og síðan sendir hæstv. sjútvrh. sjútvn. þennan texta sem heitir að vísu minnisblað þegar það kemur til sjútvn. En hæstv. ráðherra endar bréf sitt með þessum orðum:
    ,,Var ákveðið að senda þær til umsagnar`` --- ég endurtek, ,,til umsagnar sjútvn. Alþingis og fylgja þær hér hjálagðar.``
    Fram að þessu hafa menn skilið þetta orð ,,til umsagnar`` þannig að þarna væri verið að fjalla um mál sem síðan ætti að vinna annars staðar.
    Sextán dögum seinna kemur annað bréf frá hæstv. sjútvrh. og þá lýsir hann því yfir að hann telji að það eigi að afgreiða út úr nefndinni þetta frv. eða þessi bráðabirgðalög og það eigi að taka til meðferðar við umfjöllun um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem hér liggja nú fyrir þinginu til úrlausnar akkúrat þessu málefni sem talað er um í bráðabirgðalögunum. Þarna hefur orðið sem sagt kúvending í þessu máli eins og svo oft áður hjá þessari hæstv. ríkisstjórn og hún hefur séð það þegar hún fór að kanna málið að það var ekki stuðningur við þessa hugmynd og það hefði kannski verið nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að kanna málið hjá sínum mönnum og öðrum áður en hún gekk frá þessum bráðabirgðalögunum þannig að þar væru á ferðinni einhverjar raunhæfar hugmyndir um lausn á þessum alvarlegu málum sem við erum hér að ræða um.
    Ýmislegt hefur blandast inn í þessa umræðu. Ég hef nú áhuga fyrir því að ræða pínulítið við hv. 5. þm. Austurl. um það sem hann sagði hér áðan. Mig langar til, hæstv. forseti, að biðja þig að athuga hvort hann er í húsinu.
    ( Forseti (StB): Forseti sér að hv. 5. þm. Austurl. er í salnum þessa stundina. Það er kannski rétt að geta þess að það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera þá kröfu að einstakir þingmenn séu við þessa umræðu en hv. 5. þm. Austurl. hefur verið við þessa umræðu alla.)
    Hæstv. forseti. Mér er það ljóst og nú hefur þennan hv. þm. borið fyrir augu mín um leið og hann gekk hér fyrir stólinn þannig að ég er ánægður með það. En það sem mig langaði til að tala um var að hv. 5. þm. Austurl. gagnrýndi það að menn væru hér að gagnrýna meðferð málsins og það hvernig farið hefði verið að í þinginu og eins hvernig ríkisstjórn hefði farið að í málinu, þ.e. að hafa ekki samband við alla þingmenn stjórnarflokkanna um málið og taldi að þessi gagnrýni hefði átt að koma fram og taka til umræðu í sjútvn. þar sem hann á sæti ásamt mér og fleiri þingmönnum. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég taldi ekki ástæðu til að ræða það mál í sjútvn. af þeirri einföldu ástæðu að ég taldi ekki að hæstv. forsrh. yrði kallaður inn á fund, t.d. til að ræða þetta mál. Það var að vísu rætt um það að fá hæstv. sjútvrh. til að mæta á fundi nefndarinnar en af því varð ekki. Hins vegar kom bréf frá honum eins og ég lýsti áðan. Og ráðuneytisstjórar eins og hv. þm. nefndi sem voru í þessari svokölluðu þríhöfða nefnd hefðu auðvitað engu getað svarað um það af hverju var ekki haft samband við þingmenn og ekki tryggður nægjanlegur stuðningur við þá hugmynd sem þarna var verið að fjalla um þannig að auðvitað var þetta út í hött hjá hv. 5. þm. Austurl. að halda því fram að það hefðu verið einhver mistök okkar að taka málið ekki upp í sjútvn.
    Hann leyfði sér að segja hér að hann efaðist um að alvara væri á bak við þá umræðu sem fer fram um þetta mál. Hvernig á að skilja þau orð? Ég skil þau þannig að hann telji að stjórnarandstaðan sé í raun sammála því að það hafi þurft að setja þessi bráðabirgðalög. Ég er á þveröfugri skoðun. Auðvitað þurfti ekki að setja þessi bráðabirgðalög. Það þurfti fyrst og fremst að vinna öðruvísi að málinu og viðurkenna að það þurfti að vinna að þessu vandamáli mikið fyrr. Ríkisstjórnin lét reka á reiðanum. Ég læt mér ekki detta það í hug eitt augnablik að það hafi ekki verið að yfirlögðu ráði. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ætlað að reka stefnu sína ofan í sjómenn á Íslandi. Hún ætlaði að brjóta þá niður í verkfalli. Hún ætlaði að gera það, ég er sannfærður um það. Það getur engin önnur skýring verið á því sem þarna gerðist. Og það eiga fleiri aðilar í þjóðfélaginu eftir að taka þátt í þeim átökum sem verða um kvótakerfið í framhaldinu. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér þótti ákaflega vænt um að heyra að meira að segja framsóknarmenn eru farnir að rísa upp gegn þessu kerfi því að ræða hv. 2. þm. Suðurl. bendir eindregið til þess að í Framsfl. séu menn nú farnir að efast um að þarna hafi menn verið á réttum brautum og ég er reyndar sannfærður um það og hef verið það síðan ég fór að velta þessum málum fyrir mér að akkúrat það sem hv. 2. þm. Suðurl. var að segja um það hvernig eigi að breyta þessari fiskveiðistefnu er rétt. Það er engin leið að komast út úr þessari vitleysu sem við höfum lent hér í með stjórnum fiskveiðanna öðruvísi en að skipta algerlega um kerfi. ( Gripið fram í: Hvaða kerfi?) Við eigum að afleggja aflamarkskerfið og þetta eignarhald á aðganginum að auðlindinni sem nú er í gildi, þ.e. kaupin og salan á aflaheimildunum. Við þurfum að komast út úr því. Og það hefur enginn bent á neina leið til þess aðra heldur en að setja á sóknarstýringarkerfið með einhverjum hætti aftur. ( StG: Með einhverjum hætti?) Með einhverjum hætti. Ég er alveg tilbúinn í þá umræðu, hv. 4. þm. Norðurl. v., (Gripið fram í.) og ég skal þess vegna tala um það í alla nótt, já. Ég ætla hins vegar ekki að gera það í þessari ræðu. Ég á aðra ræðu eftir ef á þarf að halda.
    Hæstv. sjútvrh. bauð okkur upp á það í umræðum hér fyrir nokkru að tala málefnalega um aðrar aðferðir við að stjórna fiskveiðum og ég er tilbúinn til þess að ræða það við hann og vonast til þess að það geti orðið sem allra fyrst. Ég held reyndar að þetta öngstræti sem umfjöllun um stjórn fiskveiða er komin í sé þinginu til mikillar minnkunar. Alþingi Íslendinga hefur sagt og segir í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða að þessi auðlind sé sameiginleg auðlind okkar allra og það megi ekki myndast eignarhald einhverra einstaklinga á henni. Alþingi Íslendinga hefur síðan samþykkt lög sem eru þannig að það er ígildi eignarréttar á fiskinum í sjónum sem þeir fá sem hafa þessa úthlutun í sínum höndum. Og það er vissulega ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að slíkt standist. Menn hafa verið að leiða fram hér ámátlegar hugmyndir um það eða réttara sagt, verið að reyna að rökstyðja það með ámátlegum hætti að mínu viti að þetta geti gengið upp, að einhver geti keypt og selt það sem þjóðin á. Ég hef sagt það áður og ég segi það enn, ég tel að við höfum verið svikin um þessa umræðu vegna óbilgirni þeirra manna sem hafa viljað halda í eignarhaldið á veiðiheimildunum. Og við hjá Alþb. höfum verið með klofning í okkar röðum um það hvernig ætti að taka á þessu máli og það hefur verið klofningur í öllum flokkum. En við höfum þó verið sammála um að það ætti að taka á þessu máli með sameiginlegum hætti og við lögðum fram þáltill. um það í fyrra. Ríkisstjórnin kaus þessa leið og hún er að uppskera. Hún hefur skorið upp verkfall sjómanna og hún á eftir að fá viðbrögð annars staðar af landinu, ekki bara frá sjómönnum allt í kring um þetta land heldur líka frá öðrum aðilum sem hafa farið illa út úr þessu fiskveiðistjórnunarkerfi.
    Ég held að það sé komið að því að menn eigi að viðurkenna að það hafi verið illa staðið að þessum málum og ef menn geta gert það einu sinni að brjóta odd af oflæti sínu og setja af stað almennilega umræðu um þetta mál þar sem menn myndu setja sér leiðarstjörnu, þ.e. þau grundvallaratriði sem eiga að vera bak við einhverja auðlind sem við eigum sameiginlega þá munum við auðvitað finna leið til að framfylgja þeim. En á meðan menn koma fram á óheiðarlegan hátt í þessari umræðu, sem ég vil meina að sé óheiðarlegt, ég ætla t.d. að taka þetta dæmi: Í þessum átökum sem fóru fram núna á milli sjómanna og viðsemjenda þeirra þá sögðu forustumenn LÍÚ annars vegar: Við skulum standa með ykkur í því að útgerðarmenn megi ekki láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. En þeir héldu því hins vegar fram að það mætti ekki ræða um fiskverð í þessu sambandi. Og hvað voru þeir að segja? Þeir voru að segja að það mætti ekki skipta sér af því þó að kaupandi og seljandi kæmu sér saman um fiskverð og tækju inn í þau viðskipti sölu á veiðiheimildum. Og þetta gat forustumaður LÍÚ t.d. látið hafa sig í að halda fram í þessum samningaviðræðum. Hvað var hann að segja með þessu? Hann var að segja að stefnumörkun hjá forustu LÍÚ væri sú að útgerðarmenn í landinu sem ekki tækju þátt í fiskvinnslu ættu ekki að eiga sömu möguleika til að eignast veiðiheimildir og þeir sem tækju þátt í fiskvinnslu. Þetta er það kerfi sem er í gildi núna og það kerfi sem verið er að reyna að verja. Og ég hef ekki heyrt menn tala nægilega skýrt um það hvað þeir eru að meina í þessu. Ég hef t.d. ekki heyrt hv. 4. þm. Norðurl. v., svo ég nefni nú framsóknarmann í þessu sambandi, segja það skýrt og skorinort að hann telji að með því að lögfesta það að

sjómenn megi ekki taka þátt í kvótakaupum þá sé hann þar með að segja að það megi ekki halda áfram viðskiptunum tonn á móti tonni. En inni í þeim viðskiptum er verslun með veiðiheimildir. Og ef menn ekki viðurkenna það þá eru þeir að bjóða upp á að það verði aldrei hægt að leysa þetta mál.
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði að hann vildi að fram kæmi skýr lagasetning þar sem kvótakaup yrðu bönnuð. Og ég óska eindregið eftir því að hann útskýri það fyrir okkur hérna hvort hann telji að eftir að sú lagasetning væri komin til gildis þá verði hægt að halda áfram verslun tonn á móti tonni með sams konar hætti og gert er núna. Ég held að þessi umræða verði að fá að fara hér fram. Og það þýðir auðvitað ekkert að sleppa Framsfl. út úr þessari umræðu. Hann verður að taka þátt í henni vegna þess að hann hefur talið sig bera mesta ábyrgð á þessu kerfi og hér hefur t.d. 1. þm. Norðurl. v. staðið í stólnum í kvöld og haldið því fram að það þurfi að sníða smávægilega agnúa af þessu kerfi. Ég held að við verðum þess vegna að halda þessari umræðu áfram. Hann talaði líka eins og það hefði verið aðalvandamál þessa kerfis að það væru smábátar sem veiddu svo mikið. Ja, sér er nú hvað. Á meðan menn komast ekki upp úr því farinu þá komast menn ekki langt í þessari umræðu.
    Hv. forsrh. hélt margar ræður í slagsmálunum í kvöld um það hvort það hefði verið staðið svona að málum áður. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér fannst þar tala maður sem er að reyna að réttlæta gerðir sínar sem hann er auðvitað óánægður með sjálfur eftir á, það getur ekki annað verið, því að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eru að renna út í sandinn. Það er ekkert sem bendir til þess að það verði hægt að klára þessi mál hér í vetur. Menn gætu staðið þess vegna frammi fyrir því hér þegar líður að vori að það verði engan veginn hægt að klára þessi sjávarútvegsmál. Það er ekkert smáverkefni sem er eftir til að leysa þessi mál, menn verða að gera sér grein fyrir því. Það hefur engin vinna farið fram. Öll vinna við þessi mál, sem hefur farið fram, hefur farið farið fram á vegum stjórnarflokkanna og innan þeirra. Það er fyrsti fundur sjútvn. þingsins í fyrramálið þar sem koma menn til að ræða um fiskveiðistjórnunarfrv., fyrsti fundurinn er í fyrramálið. Það eru að verða liðin þrjú ár síðan hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Hún er búin að nota þessi þrjú ár til þess að komast í þennan áfangastað sem nú er. Og halda menn síðan að það sé eitthvað augljóst og víst að það verði lokið við sjávarútvegsmálin fyrir vorið? Ég held að það sé mikil bjartsýni og barnalegt ef menn halda það. Það þarf að leggja a.m.k. mikla vinnu í það. Og ég tel að að þeirri vinnu þurfi að koma miklu fleiri en hafa komið að henni fram að þessu. Það þurfa að koma að þeirri vinnu sveitarstjórnarmenn í kringum landið, það þarf að koma að þeirri vinnu fólk sem vinnur við fiskiðnað og fólk sem býr í sjávarútvegsplássum sem eru að hrynja saman vegna þessa kvótakerfis. Og það þarf að ræða grundvallaratriði stjórnkerfisins sjálfs. Það er nefnilega ekki nóg að ná einhverjum hrossakaupum á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli. Ég er sannfærður um það. Það verður ekki friður um þá niðurstöðu sem núna liggur fyrir í gögnum hjá sjútvn. Og ég skora á hv. þm. stjórnarflokkanna og líka stjórnarandstöðunnar að taka þátt í þessari umræðu með opnum hug. Og ég býð fram liðsinni Alþb. með sama hætti og við buðum fram liðsinni okkar í fyrra til að fara í opna umræðu við aðra flokka þar sem við reyndum að vinna út frá þeim stefnumörkunargrundvelli sem raunverulega er lagður með því að Alþingi hefur orðið sammála um það að þetta væri sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Að mínu viti segir það bara eitt, að gera þarf stórkostlegar breytingar á því kerfi sem er núna við lýði því eignarhald á veiðiheimildum sem við búum við getur aldrei gengið upp við þetta grundvallarákvæði sem við höfum núna í lögunum um stjórn fiskveiða.