Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:21:25 (4658)


[22:21]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er kunnugt um það að þessi tillaga forsætisnefndar þingsins kom ekki frá fulltrúa Alþb. þar. Ég hef ekki upplýsingar um það hvaðan sú tillaga kom eða hverjum datt þetta fyrst í hug. Ég er eingöngu að segja mína skoðun á því hvers vegna jólaleyfi þingmanna var lengt. Mín skoðun er sú að það hafi verið lengt til þess að gefa þetta svigrúm. Það var engin ástæða til þess að hafa jólafrí þingmanna svona langt. Þó það hefði dregist í tvo, þrjá daga að komast heim í jólafríið þá gátu menn vel mætt til þings hér á þeim tíma sem áætlað var það var engin ástæða til þess að lengja fríið þess vegna.
    En því sem hæstv. ráðherra sagði hér um það að lögfesta yfirlýsingu sjómannasamtakanna vil ég mótmæla. Við vitum alveg nákvæmlega, bæði hæstv. ráðherra og ég, að þessi yfirlýsing sem hæstv. ráðherra er hér að tala um var túlkuð með þeim hætti af atvinnurekendum í sjávarútvegi að það væri hægt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Og að lögfesta þá yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra er hér að nefna var sama og lögfesting á því fyrirkomulagi sem nú hefur verið í gildi með því að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum.
    En það er kannski ástæða til þess að nefna það í þessu sambandi að það er líka til önnur yfirlýsing. Í þeirri yfirlýsingu er ekki þessi seinni hluti sem hefur orðið til þess að menn hafa túlkað þetta svona. Sú yfirýsing fylgir samningum Farmanna- og fiskimannasambandsins sem eru í gildi núna.