Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:25:54 (4660)



[22:25]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Jú, ég get endurtekið fullyrðingar mínar þar um. Og það er ekki bara það að jólafrí þingmanna var lengt sem bendir til þess að ríkisstjórnin ætlaði að brjóta sjómennina niður í verkfalli. Hvað gerðist hér rétt fyrir jólin? Það gerðist að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. sjútvrh. lagði fram frv. um stjórn fiskveiða og fylgifrumvörpin óbreytt þrátt fyrir að sjómannasamtökin væru búin að mótmæla þessum frv. eins og þau lágu fyrir þannig að það var enginn vafi á því að ríkisstjórnin var að lýsa sinni afstöðu með framlagningu frumvarpanna. Það hafði ekkert breyst. Sjómenn vissu að það var ekki til í þessu máli á sínum tíma annar skilningur á þessum bókunum sem hæstv. ráðherra var hér að lýsa heldur en sá sem þá viðgekkst, þ.e. að það væri hægt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum þó að þessi yfirlýsing væri í gildi. Þannig var þetta túlkað. Og hæstv. ráðherra getur ekkert skotið sér undan því. Það getur verið að hann sé búinn að skipta um skoðun á þessu máli núna og ég fagna því. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra er búinn að skipta um skoðun og er tilbúinn að ganga þannig frá lagatexta í þessu máli að að sé ekki með neinum hætti hægt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. En á þessum tíma þegar var verið að ræða um þessa yfirlýsingu þá var þetta nákvæmlega svona. Hún var túlkuð af atvinnurekendum í sjávarútvegi með þeim hætti að það væri hægt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum og það er gert enn.