Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:27:45 (4661)


[22:27]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl., Jóhann Ársælsson, vék spurningum að mér í þessari umræðu og mér finnst umræðan vera farin að fara nokkuð út um víðan völl. Ég verð nú að segja það. En við erum farnir að tala almennt um stjórnun fiskveiða og það er ekkert kannski úr veginum, vissulega grípur það inn á þetta ákvæði sem hér er deilt um. En hv. þm. spurði mig um hvort ég teldi það að setja þessi lög sem ættu að staðfesta yfirlýsinguna sem ég hef hér margvitnað til ættu að nægja til þess að koma í veg fyrir viðskipti með afla eða þátttöku sjómanna í kaupum á afla. Ég segi enn og aftur að ég tel að svo muni verða. Ef það væri gert (Gripið fram í.) bíddu við, ég tel að svo muni verða og ég vildi fá að auki fram álit nefndarinnar.
    Af því að hv. þm. spurði einnig um það hvort ég teldi að það ætti þá að banna líka þau viðskipti sem menn hafa kallað tonn á móti tonni þá tel ég enga þörf á því. Ég tel að það sé alveg þar fyrir utan og ég er auðvitað fylgjandi framsali á aflarétti til að menn nái þeirri hagræðingu sem þarf.
    Það hefur líka verið vikið hér að ræðu hv. 2. þm. Suðurl., það sem hún sagði um

stjórnun fiskveiða. Það er mikið rými í Framsfl., og það er alveg ljóst að það eru ekki allir framsóknarmenn endilega sammála nákvæmlega frá orði til orðs því sem stendur í stjórnun fiskveiða. Og við framsóknarmenn biðjumst ekkert afsökunar á því. Ég hef verið mikill talsmaður þessarar stjórnunaraðferðar sem nú er í frammi. En mér er það ljóst og ég sagði það hér í kvöld að þar eru ákveðnir annmarkar á. Og ég tel miklu nær að sníða þá annmarka af og laga kerfið heldur en að kasta því eins og Alþb. vill og enginn veit hvað á að taka við annað en það að Alþb. hefur boðið að taka upp eitthvert annað kerfi og taka upp afnotagjald. Afnotagjald og undirstrikar það enn einu sinni að Framsfl. einn og sér berst gegn auðlindaskatti, allir aðrir flokkar hér á Alþingi hafa lagt til að skattleggja greinina á einhvern hátt fyrir aðgang að fiskimiðunum, allir flokkar nema Framsfl.