Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:32:34 (4663)


[22:32]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki þægilegt að ræða um stjórnun fiskveiða í andsvörum. En ég vil þó segja það og ég trúi því að hv. þm. Jóhanni Ársælssyni sé alveg ljóst hver meginvandinn er í íslenskum sjávarútvegi í dag. Það er ekki kvótakerfið hvað svo sem menn vilja tyggja það oft upp í ræðustól hér á Alþingi. Það sem fyrst og fremst er að er það hversu við megum sárlega draga lítið úr sjó. Það er meginástæðan hversu sárlega við megum draga lítið úr sjó og svo hitt hversu rekstrarafkoma greinarinnar er slæm. Þetta eru meginástæðurnar. Og við þurfum að taka okkur góðan tíma til að ræða það.
    Ég vil hins vegar líka segja vegna þess að hæstv. sjútvrh. vék að hv. 2. þm. Suðurl. í máli sínu: Er það ekki alveg ljóst, hæstv. ráðherra, hvert var tilefni verkfalls sjómanna? Það var ekkert um hærra fiskverð. Það var ekki um sérkjarasamninga. Þetta voru mál sem komu síðar upp á borðið. Tilefni verkfalls sjómanna var meint þátttaka þeirra í kvótakaupum. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hamrar á því sí og æ að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum. Þessi hv. þm. hefur samþykkt það að sjútvrh. legði fram frv. um stjórnun fiskveiða þar sem það er bundið í lögum, ( Sjútvrh.: Við hvern er þingmaðurinn í andsvari?) þar sem það er bundið í lögum að frystihúsin fái afla, sem hver á að fiska? Frystihúsin? Að frystihúsin sæki þennan fisk? Ætli þau þurfi ekki að fá einhvern til að sækja hann fyrir sig? Skilur hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson ekki um hvað málið snýst

eða hvað?