Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:36:21 (4665)


[22:36]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég var farinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að falla frá orðinu í þessari umræðu en nú er farið að brýna okkur framsóknarmenn úr fleiri en einni átt að við stöndum fyrir máli okkar.
    Ég get gert síðustu orð hv. síðasta ræðumanns að mínum orðum þegar hann sagði að það vandamál sem við stæðum frammi fyrir hér væri þjóðfélagslegt vandamál. Það er alveg hárrétt. Íslenskt þjóðfélag hefur ekki staðið frammi fyrir stærra vandamáli um áratuga skeið en því aflaleysi sem verið hefur á síðustu árum. Kjarninn í þessu er einmitt það vandamál að það er ekki eins mikill fiskur í sjónum og við hefðum viljað til að draga á land. ( KHG: Þrátt fyrir tíu ára kvótakerfi.) Þrátt fyrir tíu ára kvótakerfi, segir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Það er alveg rétt þrátt fyrir það og maður svona veltir fyrir sér hvernig ástandið væri ef við hefðum þó ekki haft þá stýringu. Ef við hefðum verið hér með sóknarmark eða ef við hefðum látið undan þrýstingi eins og flestallar aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf hafa gert með þeim afleiðingum að þar hefur þorskstofninn alls staðar hrunið. Hann er þó skástur hér hjá okkur. ( KHG: Sérstaklega á Barentshafi.) Sérstaklega á Barentshafi, segir hv. þm. Þorskstofninn hrundi þar en hefur verið byggður upp.
    En ég hefði áhuga á að varpa til þeirra hv. þm. sem gagnrýna Framsfl. og kalla hann hér til ábyrgðar, og nú hefði ég haft áhuga á að hv. síðasti ræðumaður hlýddi á mál mitt, nokkrum spurningum sem ég hef ekki fengið svar við þótt ég hafi velt því fyrir mér hvort við gætum breytt til og tekið upp önnur kerfi. Það er kannski fyrsta spurning: Væru fleiri aðilar í útgerð á Íslandi í dag en nú er ef hér væri ekki aflamarkskerfi? Eða með öðrum orðum: Hefur aflamarkskerfið í sjálfu sér orðið þess valdandi að það séu færri og stærri aðilar sem stunda útgerð í dag en annars væri? Ég hef oft velt þessu fyrir mér og spurt sjálfan mig þeirrar spurningar: Er ekki hægt að snúa dæminu við og segja að í vissum tilfellum hafi það að aðili hafi lögbundinn aðgang að auðlindinni verið hans trygging fyrir því að geta haldið áfram sinni atvinnustarfsemi? Getur ekki verið að aflamarkskerfið hafi í vissum tilfellum verið hemill á þá sem eru stærstir og hefðu annars ekki þurft að spyrja kóng né prest um annað en hvaða bolmagn þeir hefðu til þess að afla sér stærri og öflugri tækja til að sækja afla í sjó? Ég held að það sé hollt að horfa á þetta út frá þessu atriði líka.
    Ég hlýt einnig að spyrja: Væru kjör sjómanna í dag betri ef við værum með sóknarmarkskerfi sem ætti einnig að stýra með aflagjaldi? Ég hef ekki séð það, það hefur enginn sýnt mér fram á það. Í það minnsta örugglega ekki ef það ætti að vera eingöngu að vera sóknarmarkskerfi sem ætti að stýra aðgangnum? Þá er ég nokkuð viss um það að kjör sjómanna væru ansi mikið lakari en þau eru í dag. Og er hægt að beita sóknarstýringu þannig að ekki sé takmarkaður aðgangurinn að öðru leyti? Og það geti farið ótakmarkaður fjöldi skipa á sjó? Þá komum við að einu grundvallaratriði og ef menn viðurkenna það ekki þá eru menn að berja höfðinu við steininn. Um leið og aðgangur er tamarkaður að auðlind þá tekur rétturinn að aðganginum að auðlindinni verð. Það er ekki hægt að komast hjá því. Það skiptir engu máli hvort þar er um að ræða eins og í sjávarútveginum að við erum með takmarkaða auðlind eða hvort það er til að mynda eins og í landbúnaðinum þar sem er verið að slást við það að hafa takmarkaðan markað.
    Þá er næsta spurning. Virðulegur forseti, af því að ég hef áhuga á að hv. þm. geti fylgst með þá doka ég við á meðan hann ræðir við formann sinn og fær línuna.
    Þá er það næsta spurning: Væri það tryggt ef ekki væri aflamark að engin byggðarlög töpuðu sinni lífsbjörg eins og getur gerst í aflamarkskerfinu? Gerðist það ekki áður en aflamarkskerfið kom til sögunnar? Staðreyndin er sú að það gerðist alveg eins áður en farið var að stýra fiskveiðunum. Og þar getum við farið frá þorpi til þorps, frá bæ til bæjar sem hafa orðið fyrir þeirri reynslu að missa atvinnutækifæri sín í burtu. Missa þau tæki sem menn höfðu til að draga aflann úr sjó. Það var ekkert auðveldara þá að koma sér á stað aftur en það er nú. Það eru svo margar spurningar í þessu sem verður að svara. Það er ekki nóg bara að gagnrýna það sem við höfum, við eigum að vera gagnýnin á það sem við höfum og við eigum stöðugt að leita nýrra leiða en meðan menn hafa ekki bent á það með óyggjandi hætti hvað við getum haft betra þá hlýt ég að líta svo á að aflamarkið verði um einhverja framtíð en vonandi tekst okkur að betrumbæta það. Ég hlýt einnig að spyrja þá aðila sem svona tala: Eru þeir þeirrar skoðunar að viðskiptin tonn á móti tonni séu að öllu leyti slæm? ( Gripið fram í: Ekki segir Stefán Guðmundsson.) Nei, ég hneigist til að segja það líka. Ég er alveg viss um það og veit að fjölmargir útgerðarmenn hafa getað haldið í sín skip, haldið áfram sinni útgerð vegna þess að þessi möguleiki var fyrir hendi. Þannig að það eru svo ótal mörg atriði í þessu sem við verðum að fá svör við.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði annars í þessum örfáu orðum mínum að ræða um bráðabirgðalögin og þá starfshætti sem hafa verið teknir upp hvað þetta snertir. ( StG: Það er nógur tími.) Það er nógur tími segir hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það er alveg rétt við höfum nógan tíma. ( Gripið fram í: Það er spurning hvernig við nýtum hann.) Við höfum enga ráðherra lengur hér í salnum. Ég verð, virðulegur forseti, að segja það að það þjónar engum tilgangi að ræða þann þátt málsins á meðan hér er enginn ráðherra til svara, ( GunnS: Málið er nú í meðferð þingsins.) því þeirra er ábyrgðin. Ábyrgðin á því að setja bráðabirgðalög er ekki þingsins. Hún var ríkisstjórnarinnar og það hefur meira að segja komið hér fram að ríkisstjórnin hafði ekki einu sinni fyrir því a.m.k. ekki annar stjórnarflokkurinn að ræða við sína þingmenn um það.
    Virðulegur forseti. Ég doka aðeins við. Ég hafði álitið að hér væru bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. En það kann vel að vera að þeir séu farnir úr húsinu.
    ( Forseti (StB) : Forseti vill taka fram að hann hefur gert ráðstafanir til þess að fá ráðherra í þingsalinn og væntir þess að hv. þm. geti haldið áfram ræðu sinni.)
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði að fara hér örfáum orðum um það sem ég vil kalla þann ósið að setja bráðabirgðalög. Og það var eiginlega afar sérstakt að heyra hæstv. forsrh., sem frekar en venjulega hefur ekki fyrir því að sitja hér í þingsölum þó hann sé kannski einhvers staðar í húsinu. Það var afar sérstakt að heyra hæstv. forsrh. telja saman hvað hefði verið sett mikið af bráðabirgðalögum, annars vegar í tíð þessarar ríkisstjórnar og á fyrri árum. Og hann seildist allt aftur til ársins 1972 til samanburðar. En þá ber nú fyrst að nefna að svo vill til að þetta kjörtímabil er að nokkru leyti sérstætt, í það

minnsta fyrri hlutinn, því þá sat Alþingi ekki bara að nafninu til heldur var það starfandi nánast allt árið. Það hefði nú þurft meira en lítið sérstakar aðstæður þá til að koma því við að setja báðabirgðalög. Ég verð að segja það fyrir mína parta að það urðu mér afar mikil vonbrigði þegar bráðabirgðalögin voru sett núna eftir áramótin. Því ég trúði því að menn meintu eitthvað með því sem hefur verið unnið síðustu ár við breytingar á þingsköpum Alþingis og þá á ég ekki eingöngu við þá breytingu sem varð 1991 þar sem það var vilji Alþingis að þrengja réttinn til bráðabirgðalaganna. Ég á ekki síður við þá breytingu sem varð í haust sem leið með því að stjórnarandstaðan tók formennsku í nokkrum nefndum þingsins og það var yfirlýst stefna þeirra sem að því stóðu að þetta ætti að verða til þess að auka virðingu og vegsemd Alþingis.
    Ég hygg að eftirmælin eftir þennan vetur verði þau að hinn almenni þingmaður og ekki síst stjórnarandstaðan hafi staðist þetta próf með ágætum. En sá aðili sem féll hafi verið ríkisstjórnin. Þar hefur engin breyting verið á starfsháttum og sést best á þeirri óskammfeilni sem ég vil kalla að setja þau bráðabirgðalög sem gert var í vetur.
    Menn hafa deilt hér um það hvort hæstv. ríkisstjórn hafi haft lagalegan rétt til þessa gjörnings. Ég ætla ekki að deila um það en málið snýst um góða stjórnarhætti. Og það held ég að hæstv. sjútvrh. viti. Hann veit mætavel að málið snerist ekki um lagalegan rétt til að setja bráðabirgðalög, málið snýst um hvort það er um að ræða góða stjórnarhætti. Og í ljósi þess að hæstv. sjútvrh. hlýtur að vera ljóst að um það snerist umræðan þá hefur hver hans ræða hér í dag verið svona til að nudda salti í sárin hjá hæstv. forsrh. Eftir að hæstv. sjútvrh. hóf þessa ræðu og taldi ástæðu til að geta þess í þingsölum að það hefði ekki verið haft samband við nema tvo þingmenn Sjálfstfl. Enda forðaðist hæstv. sjútvrh. að ræða þennan þátt málsins, hvað væru góðir stjórnarhættir. Þess vegna vil ég nú leyfa mér að bera þá spurningu beint fram til hæstv. sjútvrh. hvort hann telji það góða stjórnarhætti og samrýmast þeim hefðum sem menn hafa viljað starfa eftir að bera setningu bráðabirgðalaga í svo mikilvægu máli sem hér er um að ræða ekki undir þingmenn stjórnarliðsins. Þarna er ekkert verið að setja bráðabirgðalög á verðlagningu á innmat eða eitthvert bókagjald eins og hæstv. forsrh. nefndi í ræðu sinni fyrr í kvöld að hefði verið gert einhvern tímann í kringum 1970. Það voru allt aðrir stjórnarhættir við lýði þá. Það hefur verið um árabil yfirlýst markmið að hverfa frá þeim. Þess vegna hlýtur að mínu mati að vera liður í því ef það er svo að bráðabirgðalög séu ekki sett nema brýnasta nauðsyn krefji og það sé almennur vilji Alþingis að gera það ekki þá hlýtur það að vera enn brýnni ástæða í dag en það kannski var 1971 eins og hæstv. forsrh. teygði sig lengst. Hins vegar hafa þingmenn eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. lýst því yfir að allan þann tíma sem hann var og hefur verið formaður þingflokks framsóknarmanna þá hafi verið leitað til allra þingmanna ef mögulegt var þegar bráðabirgðalögin voru sett.
    En ég hlýt að varpa þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann telji það góða stjórnarhætti að setja bráðabirgðalög í svo mikilvægu og viðkvæmu máli eins og hér um ræðir án þess að gera tilraun til þess að hafa samband við alla þingmenn stjórnarliðsins.