Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 22:54:05 (4667)


[22:54]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Að mínu mati varð fátt um svör og ég hlýt að spyrja í beinu framhaldi af þessu og því sem hv. þm. náði ekki að svara. Hann sagði að menn mundu reyna að takmarka fjölda skipa í sóknarmarkskerfi sem hann vildi taka upp. Hvernig á að reyna það? Og ég benti á það í ræðu minni að öll slík leyfisveiting eða takmörkun gerir það að verkum að aðgangurinn að auðlindinni eða aðgangurinn að markaði eins og ég þekki nú mætavel úr landbúnaði tekur verð. Menn hafa ekki fundið neina leið til að komast hjá því. Ég sat einu sinni tugi funda til að skoða hvernig væri hægt að koma því fyrir í landbúnaðinum að vera með kerfi sem takmarkaði aðgang, hvernig væri hægt að finna leið sem kæmi í veg fyrir það að þessi takmörkun tæki eitthvert verð. Það var alveg sama hvernig við veltum hlutunum upp, sú leið fannst aldrei. Og ég hygg að það sé nákvæmlega það sama í sjávarútveginum. Um leið og farið er að takmarka fjöldann með leyfisveitingum í hverju formi sem það er þá taka þau leyfi verð. Og þau réttindi ganga á milli aðila hvernig sem reynt verður að koma í veg fyrir það. Vonandi eiga menn ekki við það að það eigi að takmarka frelsi í viðskiptum, takmarka frelsi þannig að félög geti ekki gengið kaupum og sölum o.s.frv. Það mundi a.m.k. ekki samræmast þeirri nýju ímynd Alþb. sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er að reyna að koma á, hvað þá útflutningsleiðinni. Þannig að það er svo margt í þessu sem menn hafa ekki svarað og í mörgum atriðum sem menn hreinlega neita að horfast í augu við staðreyndir.