Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:02:00 (4671)


[23:02]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var ágætt að fá þetta andsvar frá hæstv. sjútvrh. og hann gefur sig hér upp að hann sé á sama báti og hæstv. forsrh. hvað þetta snertir. En ég er ekkert viss um það að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, svo ég nefni nú bara tvo þingmenn sem í fyrstu umræðu um þetta mál lýstu yfir nánast vandlætingu sinni á þessum vinnubrögðum, séu þeirrar skoðunar að þarna hafi verið um að ræða góða stjórnarhætti. Ræður þeirra hér bentu til þess að þeir hefðu kannski haft sitthvað að segja við sína ráðherra. Og ég er ekkert viss um það ef ráðherra Sjálfstfl. hefðu farið hringinn og rætt við alla þingmenn Sjálfstfl. miðað við viðbrögð þeirra hér í umræðunni og þá get ég nú bætt sessunaut mínum við Árna R. Árnasyni, 5. þm. Reykn., þetta

eru nú bara þeir sem ég man eftir hér af handahófi, ég er ekkert viss um það að ef ráðherrar Sjálfstfl. hefðu hringt í alla sína þingmenn að það hefðu verið gefin út bráðabirgðalög miðað við það hvernig viðbrögð þeirra voru þó hér inni í þingsölum. Allt eru þetta þó þingmenn sem eru ekki þekktir að öðru en að vera dyggir stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar.