Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:21:43 (4676)


[23:21]

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur nú staðfest það að mánuði eftir að dagsetningin sem kveðið er á um í 1. gr. frv. er liðin hefur ríkisstjórn Íslands ekki enn þá gert tillögu í málinu. Það er viðurkennt hér af hæstv. sjútvrh. Það sem ríkisstjórnin hefur gert er að hún hefur sent vinnuplagg frá þremur embættismönnum til umsagnar þingnefndar án þess að ríkisstjórnin taki afstöðu til þess vinnuplaggs. Þar með liggur það alveg skýrt fyrir að ríkisstjórn Íslands hefur ekki gert neina tillögu í þessu máli. Það er auðvitað það sem máli skiptir, vinnuplöggin í stjórnkerfinu eru mörg eins og við sjáum af deilunni í landbn. og í kringum hana þar sem margs konar vinnuplögg hafa verið sýnd, en að lokum kom þó tillaga frá ríkisstjórninni. Í þessu máli hefur engin tillaga komið fram. Þess vegna blasir það alveg við að það er ætlun ríkisstjórnarinnar að láta afgreiða þessi bráðabirgðalög á Alþingi án þess að hafa gert eina einustu tillögu í málinu sem ríkisstjórnin gaf þó fyrirheit um í ummælum ráðherranna eftir að bráðabirgðalögin voru sett að ríkisstjórnin ætlaði sér að gera.