Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:31:42 (4679)


[23:31]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók í fljótheitum saman fjölda bráðabirgðalaga sem stjórnir hefðu sett og það kom á daginn að sú stjórn sem studdist við þingflokk sem hv. þm. var formaður fyrir skar sig úr í setningu bráðabirgðalaganna. Sú stjórn var líka með veikastan þingmeirihluta en hún skar sig úr. Og samkvæmt því símakerfi sem hv. þm. er að stæra sig af, þá hefur jafnan verið hringt í hann og hann sjálfur staðið í hringingunum og staðið fyrir því að aldrei í annan tíma hafi verið settur annars eins fjöldi af bráðabirgðalögum og þarna, jú reyndar fyrir áratugum þar á undan. Þetta er ríkisstjórn sem hv. þm. var lykilmaðurinn í að styðja, lykilmaðurinn í að koma á og gekk ærið langt í þeim efnum eins og frægt er. Eftir framgöngu hv. þm. þegar hann var að mæla fyrir málinu, eftir dóm Hæstaréttar, eftir að ríkisstjórn sem hann er grundvallarstuðningsmaður að gengur lengst allra í setningu bráðabirgðalaga á undanförnum árum, hvernig getur hann sest í dómarasæti fyrir framan alþjóð í þingsalnum? Það er von að hæstv. sjútvrh. hafi gefið þessari framgöngu þá einkunn sem hann gaf.