Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 23:50:25 (4688)


[23:50]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra er að tala um það sem hann langar til. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, og það get ég vel tekið undir, hvað hann langar til að festa í sessi hér. Hann langar til að festa í sessi þetta kerfi sem hefur verið við lýði undanfarin ár og hann langar til að gera ákveðnar breytingar á því. Honum hefur bara ekki tekist það. Stefnumörkunin hefur ekki komist til enda hjá honum. Hann hefur ekki haft stuðning við hana. Sjálfstfl. hefur ekki stutt hann í málinu. Hvers vegna voru þessi frumvörp ekki tekin til umræðu á síðasta þingi?

    Hæstv. ráðherra er að reyna að breiða yfir vanmátt sinn og þó hann segi hér að hann sé búinn að tryggja stuðning við þetta kerfi þá er hann ekki búinn að því. Hann hefur ekki haft stuðning við þær breytingar sem hann hefur viljað gera á þessu kerfi fram að þessu og það eru ekki miklar líkur á því að honum takist að klóra sig út úr þessu í vetur. En auðvitað vitum við það að hann langar til að gera það. Hann hefur svo sem þá stefnu sjálfur og hefur lýst henni oft en honum hefur ekki tekist að vinna henni það fylgi sem þarf til þess að fá staðfestingu Alþingis á stefnu hans og ég vona sannarlega að það komi ekki til þess að honum takist það.