Kaup á björgunarþyrlu

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:38:53 (4694)


[13:38]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég held að það hafi ekki farið á milli mála í svari forsrh. að hvorki þingið eða þjóðin veit hvar hann stendur í þessu nýja deilumáli. Hann svaraði ekki spurningunni. Hann svaraði því ekki hvernig hann stæði gagnvart þessari nýju deilu sem rædd var í hádegisfréttum í dag, deilunni á milli hæstv. dómsmrh. og hæstv. utanrrh. um þetta mál þar sem hæstv. dómsmrh. gerir kröfu um að málið verði afgreitt en hæstv. utanrrh. vill teygja það inn á nýjar slóðir og tefja það um sinn.
    Nú er það ljóst, hæstv. forseti Alþingis, að vilji þingsins er skýr og allar heimildir til kaupa á björgunarþyrlu liggja fyrir. Hvers eiga íslenskir sjómenn að gjalda og fjölskyldur þeirra? Er ekki tímabært að gamalt loforð verði efnt? Meðan menn eru að ræða um Hvalfjarðargöng upp á 5 milljarða, meðan menn eru að ræða um að endurbyggja gamalt fjós uppi í Mosfellsbæ fyrir 2--3 milljarða, þá fæst ekki skýrt úr því skorið hvernig ríkisstjórnin ætlar að fara með vilja Alþingis í þessum efnum.