Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á ári fjölskyldunnar

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:43:56 (4698)


[13:43]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Nú fór þingmaðurinn reyndar aftur í upphafið að sinni fyrri spurningu. Auðvitað er það svo að á öllum sviðum þjóðlífsins er unnið að málum sem snerta fjölskylduna, bæði á vegum ríkis, sveitarfélaga og reyndar hjá einstaklingunum sjálfum. Fjölmargir þættir sem eru vaxandi viðfangsefni hjá sveitarfélögum, til að mynda íþróttastarfsemi, hafa mikið að segja fyrir fjölskylduna. Uppbygging heilsugæsluþjónustu um landið allt hefur haft mikið að segja. Allir þessir þættir eru mikilvægir.
    Varðandi atvinnumálin þá vitum við það líka að atvinnuástandið hjá okkur hefur verið erfitt vegna þess að við höfum lent í utanaðkomandi erfiðleikum. Á hinn bóginn hefur okkur tekist að forða því að atvinnuleysisvofan æddi yfir landið með sama hætti og gerst hefur í okkar nágrannalöndum. Það er árangur sem við getum verið þakklát fyrir meðan við stöndum í þessari dýfu sem við erum núna að komast í gegnum.