Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á ári fjölskyldunnar

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:44:50 (4699)


[13:44]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst öll þau orð sem hæstv. forsrh. hefur sagt bera vott um að hann hafi ekki hugmynd um hvað er að gerast í þessu þjóðfélagi. Það eina sem hann getur gripið til til uppbyggingar unglingunum í landinu er íþróttastarfsemin. Ég er ekki viss um að hæstv. forsrh. viti að það kostar 17 þús. kr. yfir veturinn að vera í knattspyrnufélagi í Reykjavík og ef fólk á nokkur börn, þá er það allmikill peningur einkum þegar fólk hefur niður í 60 þús. kr. á mánuði. Ég held að hæstv. forsrh. ætti að reyna að skoða sig svolítið um í þjóðfélaginu og reyna að gera sér grein fyrir hver kjör fólki hér í landi eru búin. Það er að stefna í algert ófremdarástand og því fyrr sem hv. þm. gera sér grein fyrir því, að ég ekki tali um hæstv. forsrh., þeim mun betra. Ég held að þjóðin hljóti að bíða eftir einhverjum aðgerðum.