Kostnaður atvinnulausra vegna heilbrigðisþjónustu

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:49:58 (4703)


[13:49]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að þessi mál eru til skoðunar. Ástæður þess að það er ekki kannski eins einfalt og ætla mætti við fyrstu sýn að gera þessar breytingar eru þær að sem betur fer geta aðstæður þessa hóps breyst, með öðrum orðum getur viðkomandi fengið vinnu á mjög skömmum tíma. Það er öðruvísi fyrirkomulagið gagnvart örorku- og ellilífeyrisþegum. Þar er varanleikinn til staðar. Þar er það ástand sem verið er að taka á til framtíðar í langflestum og nánast öllum tilfellum, en því er ekki til að dreifa í tilvikum atvinnulausra. Menn hafa staldrað til að mynda við tímabilið eftir 6 mánaða atvinnuleysi og það er þá sú viðmiðun sem menn eru að skoða. Menn eru með öðrum orðum að reyna að nálgast þetta vandamál og finna á því lausnir til þess að geta haldið í praxís, haldið í útfærslu þeirra.