Löggjöf um glasafrjóvganir og réttaráhrif tæknifrjóvgunar

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:56:12 (4707)


[13:56]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. heilbr.- og trmrh. Þann 25. okt. sl. spurði Guðrún Helgadóttir dómsmrh. að því hvort ekki hillti undir starfslok nefndar sem er að undirbúa löggjöf um glasafrjóvganir og réttaráhrif tæknifrjóvgunar. Hæstv. ráðherra sagðist mundu beita sér fyrir því að nefndin hraðaði störfum og upplýsti einnig að ári fyrr hefði fulltrúi frá heilbr.- og trmrn. bæst í hóp nefndarmanna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála hvort honum sé kunnugt um hvort þessi nefnd sé að ljúka störfum og hvort frv. sé á leiðinni í þingið. Einnig langar mig til að fá að vita hvort í þessu frv. verði skýrð staða deildarinnar sem þegar hefur hafið glasafrjóvganir við Landspítalann.
    Það hlýtur að vera mjög til óþæginda, bæði fyrir starfsfólk deildarinnar og það fólk sem bíður eftir að komast til að fá þjónustu hennar að það gilda engin ein skýr lög um starfsemi hennar. Nú veit ég að Landspítalinn hefur sett sér starfsreglur til að fara eftir en þær byggjast ekki á lögum því að þau eru ekki til.