Stöðvun verkfalls fiskimanna

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 14:21:11 (4711)


[14:21]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Deilan um meinta þátttöku sjómanna í kaupum á aflaheimildum leiddi til verkfalls sjómanna þann 2. jan. sl. Þann 14. jan. setti ríkisstjórnin bráðabirgðalög sem stöðvaði það verkfall sem sjómenn höfðu boðað til. Ég var og er andvígur setningu þessara bráðabirgðalaga og taldi m.a. eðlilegra að ríkisstjórnin staðfesti í lagafrv. þá yfirlýsingu sem samþykkt var af Sjómannasambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands þann 26. apríl 1992 þar sem segir:
    ,,Samningsaðilar eru sammála um að útgerðarmanni sé óheimilt að draga útlagðan kostnað vegna leigu eða kaupa á aflaheimildum frá heildarsöluverðmæti aflans áður en skiptaverð til sjómanna er reiknað.``
    Yfirlýsing þessi hefur engin áhrif á frjáls viðskipti útgerðarmanna sín á milli með aflaheimildir né samninga áhafna einstakra útgerða við fiskkaupendur um fiskverð. Ég tel einnig nauðsynlegt að koma upp svonefndri álitanefnd til úrskurðar í álitamálum er kunna að rísa vegna þessa máls. (Forseti hringir.)
    Ríkisstjórnin hefur ekki tekið raunhæft á þessum vanda, raunverulegum kjarna deilunnar. Ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar hafa valið aðra leið í þessu máli sem við þingmenn Framsfl. erum andvígir og þess vegna greiðum við atkvæði gegn þessum lögum.