Stöðvun verkfalls fiskimanna

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 14:26:12 (4714)


[14:26]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Þegar ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að stöðva verkfall sjómanna með lögum þann 14. jan. sl. var deila sjómanna og útvegsmanna komin í óleysanlegan hnút og ekkert útlit fyrir að deiluaðilar næðu samkomulagi. Þrívegis hafði slitnað upp úr viðræðum og forsvarsmenn deiluaðila lýstu því yfir að tilgangslaust væri að halda viðræðum áfram og engin lausn væri í sjónmáli. Málið var því komið í harðan, óleysanlegan hnút. Langvarandi stöðvun fiskiskipaflotans hefði valdið víðtæku atvinnuleysi og haft lamandi áhrif á allt þjóðlífið. Fiskiskipaflotinn hafði legið aðgerðalaus í hálfan mánuð og hefði augljóslega legið í a.m.k. viku í viðbót ef bíða hefði átt eftir að Alþingi kæmi saman, fjallaði um málið og samþykkti lög til að stöðva verkfallið. Með tilliti til atvinnuástandsins í landinu þoldi það enga bið að koma flotanum til veiða og því tel ég að ríkisstjórnin hafi gert rétt þegar hún stöðvaði verkfallið með bráðabirgðalögum að kvöldi 14. jan. Ég segi já.