Stöðvun verkfalls fiskimanna

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 14:30:23 (4717)


[14:30]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi erum við kvennalistakonur alfarið á móti því að setja bráðabirgðalög á verkföll og yfirleitt að beita þessu ákvæði þar sem við teljum ekki neina þörf á því þar sem þingstörf hafa breyst mjög mikið. Í öðru lagi kveður 1. gr. í þessum lögum á um tilgang laganna og það mál er óleyst eins og hér hefur komið fram áður. Þar er kveðið á um að leysa skuli þetta mál og tímafrestur til þess er liðinn. Það er því algjör markleysa að samþykkja lögin eins og þau líta út núna. Við kvennalistakonur munum þar af leiðandi greiða atkvæði gegn þessum öllum greinum og lögunum í heild. Ég segi nei.