Kennaraháskóli Íslands

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 14:45:04 (4720)


[14:45]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er kannski ekki ástæða til að hafa mjög langt mál um þetta frv. Það er alla vega einfalt við fyrstu sýn en þó eru í því nokkur atriði sem vert er að velta fyrir sér. Það er vissulega ástæða til þess að ræða nokkuð um kennaramenntun í landinu, stöðu hennar og framtíð og hvernig beri að skipuleggja menntun kennara hér á næstu árum.
    Það er fyrst til að taka í þessu frv. að hér er verið að samræma það sem gildir um Kennaraháskólann við það sem þegar hefur komist á varðandi Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og snýr að kjöri rektors og skipan námsgreina, stöðuveitingum og slíku. Við fyrstu sýn hef ég ekki mikið við þetta að athuga. Það kann annað að koma í ljós við rannsókn málsins, en það verður auðvitað að taka tillit til þess að hér er það skólinn sjálfur sem fer fram á þessar breytingar, væntanlega að fenginni reynslu. Það er sérstaklega þetta atriði um stöðuveitingar sem vert er að gefa gaum og minnast þess að það hafa oft orðið deilur í kringum þau efni. Það getur auðvitað verið erfitt að meta umsækjendur sem leggja próf sín og vísindaverk fyrir dómnefndir og ekki síst hvernig skipað er í dómnefndir og hvaða viðhorf er þar ríkjandi og

þá er nú ekki síst að nefna það sem snýr að konum og það hve gæta þarf þess að konur beri ekki skarðan hlut frá borði þegar stöðuveitingar eiga í hlut. Allt þetta þurfum við að athuga ítarlega í menntmn. þegar þar að kemur.
    Ég hef ekki kannað sérstaklega það sem t.d. kemur fram í 3. gr., hvað felst í því að ákveða í reglugerð skipan kennaranámsins og skiptingu í svið og skipan æfingakennslu og hvernig framkvæmdin á því er hugsuð. Ég gæti beint þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. að hann skýri nánar 3. gr., hvað felst í þessu og hver á hlutur ráðuneytisins að vera og hver hlutur skólans sjálfs.
    Ég staldraði við það í þessu frv. að fulltrúar stúdenta skuli ekki lengur hafa atkvæðisrétt þegar stöðuveitingar eiga í hlut. Þetta er vissulega mál sem vert er að velta fyrir sér hvers hlutverk það er að velja í stöður, og hvort fulltrúar nemenda hafa í sjálfu sér eitthvað síðri aðstöðu eða minni skoðanir á því heldur en kennarar og fulltrúar í skólaráði hvernig rétt sé að fara að þeim málum. Ég set spurningarmerki við þetta, þó að óathuguðu máli. Mér er bara ekki kunnugt um hvernig það er í Háskóla Íslands, hvort fulltrúarnir í háskólaráði hafa ekki atkvæðisrétt varðandi stöðuveitingar. Ef ég man rétt þá fara þeir með ákveðinn hluta af atkvæðum í rektorskjöri. Það er því ekki sjálfgefið að þetta nýmæli sem hæstv. menntmrh. gat um hér áðan sé eðlilegt.
    Þá kemur að því atriði sem snýr að því að fresta lengingu kennaranámsins. Eins og hér kemur fram eru núgildandi lög um Kennaraháskóla Íslands frá árinu 1988 og í 13. gr. frv. segir að námið skuli skipulagt sem fjögurra ára kennaranám.
    Nú hefur það verið mjög til siðs í umræðu um skólamál á undanförnum árum og ekki síst hjá þeim ríkisstjórnarflokki sem fer með menntamálin að leggja áherslu á styttingu náms, að stytta námsbrautir og gera námið allt hraðvirkara en nú er, en mig langar til að benda á það, og það þarf að athuga að kennaranám er mjög sérstakt nám þegar við erum að miða við háskólanám vegna þess að í því felst starfsþjálfun. Það gildir að vísu um einstakar greinar sem nú eru komnar á háskólastig, við getum tekið sem dæmi hjúkrunarfræði og sjúkraþjálfun, þar er einnig um starfsþjálfun að ræða. En slíkt nám er auðvitað ekki sambærilegt við háskólanám sem eingöngu er bóklegt. Þetta er öðruvísi nám. Þess vegna vil ég vara við því að menn einblíni á það að kennaranám verði áfram þriggja ára nám. Ég vil bæta því við að það er verið að gera sívaxandi kröfur til kennara hvort sem við erum að tala um grunnskóla- eða framhaldsskólakennara. Kröfurnar eru sívaxandi. Það hafa komið fram nýjar námsgreinar, nýjar áherslur. Kennarar þurfa stöðugt að vera að endurmennta sig og eru ákaflega iðnir við það, en það er líka sú hlið sem snýr að heimilunum og þjóðfélaginu sem kennarar verða að taka á sig í síauknum mæli. Ég bendi t.d. á þá umræðu sem orðið hefur um einelti sem börn verða fyrir, ofbeldi í kringum skóla og nú síðast það að við þurfum að taka okkur til og mennta okkar kennarastétt til þess að sinna útlendum börnum, börnum sem flytja til landsins og eru ekki mælt á íslenska tungu. Þannig fara kröfurnar til kennara sífellt vaxandi. Og þá er spurningin: Er hægt að koma öllu þessu námi fyrir með viðunandi hætti í þriggja ára háskólanámi?
    Á sínum tíma var Kennaraskólanum breytt í Kennaraháskóla og ég get svo sem ekki lagt mat á það hvort sú breyting var til bóta. Þó held ég að það hljóti að vera að það felist bót í því að fólk fari eldra og þroskaðra út í kennslu og sé í rauninni að bæta ofan á sitt nám. Ég held að þeir kennarar sem útskrifast núna hafi að flestu leyti meira nám að baki heldur en gömlu barnaskólakennararnir þó að það sé auðvitað alltaf erfitt að meta slíkt. Þannig hefur Kennaraháskóli Íslands verið í mikilli þróun á undanförnum árum. Hann hefur tekið upp sérstakt kerfi í sinni námstilhögun, kerfi sem er öðruvísi en það sem tíðkast t.d. í Háskóla Íslands og um það er allt gott að segja. Það er einmitt til góðs að skólar fari sínar eigin leiðir og prófi sig áfram í sínum kennsluháttum.
    Þrátt fyrir það vakna auðvitað spurningar varðandi það hvort rétt sé að skipta námi niður með þeim hætti sem við gerum. Við erum með Háskóla Íslands, við erum með Kennaraháskólann, við erum með Háskólann á Akureyri, við erum með Tækniskólann sem líka kennir á háskólastigi, og eflaust gleymi ég einhverjum skóla, já, Bændaskólinn á Hvanneyri kennir líka á háskólastigi, Samvinnuskólinn í Bifröst. Þegar við erum að horfa á okkar skólakerfi, þá hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við séum að dreifa kröftunum um of. Ég veit að það eiga sér stað viðræður milli Kennaraháskólans og Háskóla Íslands um nánari samvinnu, m.a. hvað varðar kennaramenntun þannig að þegar við nálgumst þetta mál þá eru ýmsar spurningar sem vakna.
    Samkvæmt 7. gr. þessa frv. er verið að fara fram á það að því verði frestað til ársins 1998 að þetta fjögurra ára nám komist á og hæstv. menntmrh. rökstyður það þannig að hann hafi skipað nefnd sem sé að skoða þetta mál. Mér finnst í rauninni að með því sé hann að gefa sér það að þriggja ára nám verði niðurstaðan og ég hlýt af því tilefni að spyrja hæstv. menntmrh.: Hvað líður störfum þessarar nefndar? Hún hefur verið að störfum nú um eins árs skeið. Hvenær er ætlast til þess að hún skili af sér?
    Það hefur líka verið í gangi eins og við vitum stór nefnd sem fjallað hefur bæði um grunnskólann og framhaldsskólann. Hún er nú búin að skila hluta af sínu verki. Ég held nefnilega að það sé algjörlega nauðsynlegt að við horfum á þetta allt í samhengi. Kennaramenntunin skiptir ekki litlu máli þegar við hugum að skipan grunnskólans og því hvað á að kenna í honum þannig að það þarf að horfa á þetta allt í samhengi. Ég ætla svo sannarlega að vona að það sé ekki meiningin hjá hæstv. menntmrh. að fara að keyra í gegnum Alþingi bút og bút af þessum lögum án þess að við höfum einhverja yfirsýn yfir hvað fram undan er. Ég gæti svo sem notað tækifærið núna og spurt hæstv. menntmrh. hvernig hann hugsar sér meðferð framhaldsskólafrv. vegna þess að það tengist auðvitað grunnskólafrv. og grunnskólafrv. tengist Kennaraháskólanum þannig að þarna hangir Einbjörn í Tvíbirni o.s.frv. Það er margt sem við þurfum að athuga í okkar skólakerfi en ég held að það sé einmitt mjög hættulegt að taka á einhverjum smábútum.
    Hvað varðar þetta frv. þá ítreka ég að það þarfnast nánari skoðunar í nefnd og ég set spurningarmerki við ýmislegt sem hér kemur fram. Við þurfum einfaldlega að fá röksemdirnar fyrir breytingum eins og t.d. það sem snýr að fulltrúum námsmanna þegar stöðuveitingar eiga í hlut og eins set ég mjög stórt spurningarmerki við það að fresta gildistöku 13. gr. núgildandi laga vegna þess að ég tel fulla þörf á því að lengja kennaranám hér á landi, ekki síst í ljósi þeirra miklu breytinga sem við höfum verið að ganga í gegnum á síðustu árum og þeirra vaxandi krafna sem gerðar eru til kennara í landinu.