Tollalög

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 10:53:17 (4735)


[10:53]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég legg hér fram frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Auk mín eru flm. þeir Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Sólveig Pétursdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Matthías Bjarnason, Einar K. Guðfinnsson, Tómas Ingi Olrich, Svanhildur Árnadóttir og Egill Jónsson.
    Í frv. þessu segir svo í 1. gr. að 1. mgr. 79. gr. laganna orðist svo:
    ,,Fjármálaráðherra er heimilt að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur, þar á meðal áfengi og tóbak, í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli, Keflavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli, Sauðárkróksflugvelli og Egilsstaðaflugvelli í tengslum við farþegaflutning milli landa. Heimild þessi gildir einnig um sams konar rekstur í Reykjavíkurhöfn, Ísafjarðarhöfn, Akureyrarhöfn og Seyðisfjarðarhöfn. Birgðir slíkra verslana má geyma í tollfrjálsum birgðageymslum sem eingöngu eru ætlaðar til þeirra nota.``
    Í 2. gr. gerum við ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.
    Í greinargerðinni segir m.a.:
    ,,Í 1. mgr. 79. gr. tollalaga er að finna heimild til þess að reka eða leyfa rekstur verslana með tollfrjálsar vörur í stærstu flugstöðvum landsins. Brýnt er vegna mikillar fjölgunar erlendra ferða-, fiski- og farmanna sem hafa viðkomu með skipum í ýmsum höfnum hér á landi að víkka út heimildina svo að hún nái einnig til helstu hafna landsins. Á síðasta sumri fjölgaði mjög mikið þeim skemmtiferðaskipum sem lögðu leið sína til landsins. Flest þessara skipa hafa skamma viðdvöl í höfn og því er nauðsynlegt að bæði farþegar og áhafnir þeirra hafi möguleika á að versla í tollfrjálsri verslun sem býður upp á fjölbreytt vöruúrval og er í tengslum við hafnarbakka. Enn fremur hefur aukist gífurlega sá fjöldi erlendra fiskiskipa sem leita til hafnar vegna ýmiss konar þjónustu. Það er enginn vafi á að áhafnir þeirra munu nýta sér þann möguleika sem tollfrjáls verslun býður upp á. Þannig munu slíkar tollfrjálsar verslanir auka tekjumöguleika þjóðarinnar og skapa ný atvinnutækifæri þar sem selja mætti, jafnframt erlendum varningi, hvers konar íslenskar vörur sem þá yrðu undanþegnar virðisaukaskatti. Tollfrjálsar verslanir eru víða erlendis í tengslum við hafnir og er varningur, sem keyptur er þar, ekki borinn um borð af kaupanda heldur sér viðkomandi verslun um að flytja varninginn um borð í skipið. Sá háttur mundi einnig verða hafður á hérlendis og rekstrarleyfishafi gerður ábyrgur fyrir því að rétt sé að málum staðið í hvívetna.``
    Eins og hér kemur fram í greinargerð hefur erlendum skemmtiferðaskipum fjölgað mjög hin síðari ár og á síðasta ári voru nærri 16 þúsund manns sem komu sjóleiðina sem farþegar hingað til lands eða nákvæmlega 15.966 farþegar. Þá má áætla að í áhöfnum þeirra skemmtiferðaskipa sem komu til landsins hafi verið um það bil 10 þúsund manns þannig að um er að ræða um 26 þúsund manns, erlenda aðila sem komu með skemmtiferðaskipum til landsins á sl. ári.
    Það má segja það þetta frv. sem hér liggur fyrir skipti verulegu máli einkum og sér í lagi fyrir Seyðisfjörð og enn fremur fyrir Reykjavík vegna þess að á árinu 1992 voru skemmtiferðaskipin 27, en 1993 voru þau 40. Og enn mun einhver fjölgun vera þó að hún sé ekki eins mikil og var á milli þessara tveggja ára sem ég gat hér um áðan.
    Nú er það svo að um langan tíma hefur þetta verið rætt hér á landi, en einhverra hluta vegna, hvort sem það er tregðulögmál hjá hinu háa ráðuneyti, fjmrn., þá er það með ólíkindum að menn skuli haga sér svo sem raun ber vitni í þessu viðamikla máli vegna þess að hér er ekkert smámál á ferðinni. Sú tregða sem hér hefur ríkt varðandi þetta mál er nokkuð sérstök þegar til þess er litið að þegar íslenskir farmenn og fiskimenn koma í erlendar hafnir þá hefur þetta viðgengist í tugi ára. Íslenskir sjómenn hafa átt mjög greiðan aðgang að tollfrjálsum verslunum erlendis og mönnum þykir sá háttur sjálfsagður og eðlilegur og skiptir verulegu máli þar ytra hvað varðar verslun og viðskipti.
    Það má benda t.d. á það að ýmsan varning eru íslenskir fiskimenn og farmenn að kaupa erlendis, tollfrjálsan, sem með sama hætti gæti sú verslun farið fram hér á landi. Ef horft er á þau tollfrjálsu viðskipti sem flugfarþegum standa til boða þá gerist það með þeim hætti að fólk fer í verslanir sem hafa leyfi

til að reka tollfrjálsa verslun. Það er skrifað upp á kvittanir fyrir þessa farþega sem sýna hversu afsláttur ætti að verða mikill vegna tollfrjálsu verslunarinnar og síðan fá þeir tiltekna upphæð endurgreidda þegar þeir koma upp á Keflavíkurflugvöll. En farþegar sem koma með skemmtiferðaskipum geta ekki verslað með sama hætti hér eins og flugfarþegar og það er óviðunandi og það er fráleitt kerfi að við skulum ekki reyna að nýta okkur frekar verslunarhætti og viðskipti þessara erlendu farþega sem ég gat hér um áðan og hafa tíðkast áratugum saman í erlendum hafnarborgum.
    Þegar menn velta vöngum yfir því hvers konar varningur ætti að fást í þessari tollfrjálsu verslun, eru menn þá eingöngu að tala um brennivín og tóbak? Nei, það er ekki meiningin og ekki óeðlilegt að frekar verði færðar út kvíarnar hvað það varðar eins og t.d. með landbúnaðarafurðir, svo mikið sem þær hafa verið í umræðunni undanfarna daga. Þá mætti hugsa sér enn fremur ýmiss konar fatnað og minjagripi sem væru framleiddir hér á landi og mundu þá vissulega verða veruleg lyftistöng fyrir þann iðnað.
    Eins og ég sagði áðan þá gerist það með þeim hætti þegar íslenskir farmenn og fiskimenn koma í hafnir erlendis að þá fara þeir í þessar tollfrjálsu verslanir versla þar og síðan er frá þeim hlutum gengið og það er seljandinn sem síðan sér um að koma vörunni um borð undir eftirliti tollgæslunnar. Þar er þessi varningur innsiglaður í sérstakri geymslu þar til skipið hefur farið út úr viðkomandi landhelgi, þá er innsiglið rofið og mönnum eru afhentir þeir hlutir sem þeir hafa keypt. Og undantekningarlaust eru þetta ábyrg viðskipti sem ekki bregðast þannig að menn eru fullvissir þess að þeir hlutir sem þeir versla í tollfrjálsri verslun í landi komast til skila um borð.
    Eins og ég sagði áðan er ég sannfæður um það að verslun mundi verulega aukast ef þessi háttur yrði upp tekinn. Ef við lítum t.d. á þau stóru farþegaskip sem hingað hafa verið að koma til Reykjavíkur og Akureyrar, þá er það oftar en ekki að í áhöfn þessara skipa er slíkur fjöldi að það jaðrar við að jafnmargir séu í áhöfn og farþegarnir eru. Þess vegna er þarna hópur sem vissulega er full ástæða til að gefa fullan gaum að og ég er sannfærður um að verslun og viðskipti mundu aukast verulega.
    Menn hafa velt vöngum yfir því hvort það gæti verið að smásöluverslun væri í einhverri hættu ef tekin yrði upp tollsfrjáls verslun. Ég hef rætt hér við kaupmenn í Reykjavík t.d. og þeir óttast það ekki. Það sé mikill varningur að sjálfsögðu sem er til boða í verslunum hér vítt og breitt um borgina eins og annars staðar sem ekki verður á boðstólum í hinni tollfrjálsu verslun þó að þar verði auðvitað stór hluti af jafnvel landbúnaðarframleiðsluvöru og öðru þvílíku sem erlendir ferðamenn sækja kannski öðru frekar í, þá mundi þessi tollfrjálsa verslun ekki verða smásöluversluninni til neinna vandræða. Það er alveg ljóst að með þessari breytingu á tollalögunum mundi verslun aukast og síðast en ekki síst mundu skapast mörg atvinnutækifæri hvað þetta varðar.
    Það er sagt að það mætti ætla að tekjur af farþegum skemmtiferðaskipa á sl. ári hafi numið á bilinu 300--400 millj., svo að við sjáum að hér eru engar smáupphæðir um að ræða og ætla mætti að með komu tollfrjálsrar verslunar mundi þessi upphæð a.m.k. tvöfaldast. Það má gera enn betur á sviði atvinnulífs okkar Íslendinga. Það má gera betur á sviði verslunar og viðskipta og að því stefnir þetta frv. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til þess að benda þingheimi sérstaklega á þá möguleika sem skapast með þessu frv. og ég treysti því að þingheimur muni vinna fljótt og vel að þessari breytingu á tollalögum svo koma megi þessu þarfa máli í framkvæmd nú áður en háannatímabil í þjónustuvið erlenda ferðamenn hefst. Ég minni á það aftur að þetta er ekkert smámál fyrir byggðarlag eins og Seyðisfjörð hvar Norræna kemur vikulega með geysilegan fjölda farþega og þar er mikill straumur sem liggur í gegn af farþegum og auk þess sem ég bendi hér á Reykjavík. Það er aukning á skemmtiferðaskipum til Akureyrar og það er að byrja og hefur þó nokkuð orðið enn fremur á Ísafirði. Þess vegna, virðulegi forseti, er lagt til að þessum fjóru höfnum verði gert kleift að vera hér með tollfrjálsa verslun. Það mætti kannski spyrja: Af hverju ekki fleiri hafnir? Ég tel að það sé rétt að fara varlega af stað í málinu og þá horfandi til þeirrar tregðu sem á þessum verslunarhætti hefur ríkt. Það jaðrar við það að ágætir embættismenn í fjmrn. líti svo á að við séum að finna upp hjólið í þessu sambandi. En eins og ég gat um í upphafi máls míns, þá er hvergi höfn erlendis sem komið er í þar sem menn eiga ekki greiðan aðgang að tollfrjálsri verslun með þessum hætti. Og þaðan koma sölumenn og bjóða upp á t.d. landbúnaðarframleiðslu og fleira sem framleitt er í viðkomandi landi með þessum hætti eins og ég gat um áðan. Það eru tollfrjáls viðskipti sem þar fara fram og íslenskir farmenn og fiskimenn og að sjálfsögðu þeir farþegar sem koma í þessar hafnir notfæra sér þessa þjónustu í ríkum mæli. Því er full ástæða til eins og ég gat um hér áðan að flýta þessu máli. Þetta er brýnt mál og ég vænti þess, virðulegi forseti, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu.
    Því legg ég þetta mál fram hér og vænti þess eins og ég sagði áðan að það fái skjóta afgreiðslu og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.