Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 11:59:29 (4748)


[11:59]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. var að gagnrýna alþýðubandalagsmenn fyrir það að þeir vikju sér undan þegar þeir fengju tækifæri til að fjalla um málið í sjútvn., þvert ofan í það sem þeir hefðu áður sagt um að þeir ætluðust til þess að þar yrði fjallað um málið. Ég held að málið liggi nú einfaldlega ekki svona. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Er einhver alvara í því frá hendi hæstv. ríkisstjórnar að sjútvn. þingsins geti fjallað um þau grundvallaratriði sem liggja til grundvallar deilunni milli sjómanna og útgerðarmanna og sé ekki með fyrirmæli á sér um það með hvaða hætti eigi að leysa þessi mál?
    Hæstv. ráðherra er orðið það ljóst að hugmynd ríkisstjórnarinnar er ekki brúkleg. Hann er að vandræðast með þetta mál fram og til baka. Og þó hann hafi sagt hér áðan að það hafi farið eftir þeim farvegi sem ríkisstjórnin ætlaðist til þá er það rangt eins og bréf hæstv. ráðherra ber auðvitað með sér og ég mun fara yfir þau hér á eftir enn einu sinni til að rifja þetta upp fyrir mönnum. Málið liggur einfaldlega þannig að ríkisstjórnin er búin að gefast upp á þeirri leið sem hún valdi sjálf og er að reyna að fá sjútvn. þingsins til að taka að sér að fara leið sem hæstv. ráðherra var að marka hér í sinni ræðu áðan, þ.e. að sjútvn. eigi að leggja það til að málið verði leyst með þeim hætti sem ekki náðist samkomulag um milli aðila undir lok deilunnar.