Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 12:03:20 (4750)


[12:03]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er nú svo erfitt að tala við hæstv. sjútvrh. um þetta mál. Hann virðist hafa það fyrir sið að reyna að snúa út úr því sem menn segja og svara ekki þeim spurningum sem er beint til hans. Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvort sjútvn. gæti unnið að þessu máli með það fyrir augum að leysa það án þess að vera bundin af einhverjum fyrirframhugmyndum ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherra sjálfs því þetta mál snýst um grundvöll kvótakerfisins og ef menn ætla ekki að taka á því með þeim hætti að það sé hægt að leysa t.d. málefni sjómannanna sem snúa að eignarhaldi eða ígildi eignarhalds á veiðiheimildunum í sjónum þá eru menn að flýja frá vandanum. Og hæstv. ráðherra hefur komið sér undan því að svara hvort sjútvn. þingsins geti fjallað um þetta mál óbundin af hugmyndum ríkisstjórnarinnar sem hafa verið lagðar fram og þeirri ræðu sem hann hélt áðan um að sjútvn. ætti að leysa málið á þeim grundvelli sem ekki náðist samkomulag um í deilunni sjálfri.