Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 13:50:13 (4764)


[13:50]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú komið á daginn sem raunar sveif yfir vötnunum bæði í 1. og 2. umr. þessa máls að það er alvarlegra heldur en hv. stjórnarsinnar vildu vera láta að skilja 1. gr. þessa frv. eftir í lausu lofti og ætla sér að afgreiða málið án þess að það sé kominn nokkur botn í það mál.
    Það var ljóst þegar við 1. umr. málsins að hugmyndirnar sem áttu að vera til þess að uppfylla skilyrði 1. gr. áttu ekki upp á pallborðið hvorki hjá öllum stjórnarsinnum né heldur hjá mörgum aðilum þessa máls. Þar af leiðandi stöndum við nú frammi fyrir því að það hefur ekkert verið gert til þess að breyta eða gera þessa grein gilda og nýtilega og það er hreinlega út í hött að fara að samþykkja þetta mál með þessu formi og ekki heldur fyrir þá sem þó hafa með mismikilli ánægju ljáð því stuðning sinn, en eins og fram

hefur komið hér í þessu máli og í atkvæðagreiðslunni í gær hafa ekki allir stjórnarþingmenn treyst sér til að gera það. Þetta út af fyrir sig er bara eitt af mörgum dæmum.
    Ég hef þegar tíundað mjög rækilega afstöðu okkar kvennalistakvenna en því miður eigum við ekki þá aðild að sjútvn. að hafa tök á því að skila nefndaráliti. Ég hef hins vegar haldið því til haga að við höfum í fyrsta lagi mjög mikið við það að athuga að það séu sett bráðabirgðalög og við höfum sjálfar flutt frumvörp um það að þessa heimild eigi að fella niður. Það hefur margsýnt sig að stjórnvöld hafa misnotað þessa heimild mjög freklega og þetta er eitt af þeim dæmum sem eru hvað alvarlegust og styðja þá skoðun okkar. Í fyrsta lagi er þetta óþarft. Það er hægt að kalla saman þing, það er hægt að taka á málunum á þinglegum vettvangi og það á að sjálfsögðu að gera það. Í öðru lagi hef ég haldið til haga andstöðu okkar kvennalistakvenna við það að setja lög á kjarasamninga eða vinnudeilur og þar með talin verkföll. Þetta er annað atriðið sem ég held að sé ekki síður mjög mikilvægt. Þar er ekki alltaf um bráðabirgðalög að ræða, en það verður kannski tvöfalt brot þegar um bráðabirgðalög er að ræða.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að fara nánar út í röksemdirnar fyrir þessu. Mér finnst þær það augljósar að mér finnst dálítið dapurlegt að hlusta hér á umræðu um það hver hafi beitt bráðabirgðalagaheimildinni verst og hvenær og hvers vegna. Þetta karp segir bara að í flestum tilfellum hefur einhver við það að athuga að bráðabirgðalög séu yfir höfuð sett og ég tala nú ekki um lög á kjaradeilur. En það fer bara eftir því hvorum megin menn standa, hvaða afstöðu þeir taka hverju sinni. Á meðan býr þjóðin við lagalegt óöryggi og einnig aðilar vinnumarkaðarins, ekki síst þau frjálsu stéttarfélög sem eiga mikið undir því að vinnudeilur fari sinn eðlilega gang. Þetta er sérstaklega mjög lýsandi í því verkfalli sem þetta frv. tekur til þar sem það ætti að vera komið mjög vel í ljós í hvílíkan hnút þetta mál hefur farið einmitt vegna setningar þessarar sérstöku bráðabirgðalaga þar sem gefin voru einhver óljós fyrirheit sem áttu að vera til þess að ljá þessu einhvern málefnalegan blæ. Síðan er auðvitað ljóst að það er ekkert sem gerist með þessum vinnubrögðum og það þýðir ekkert að vera að reyna að hlaupa upp í fangið á sjútvn. þó faðmur hennar sé sjálfsagt breiður og ætla henni að leysa öll málin sem eru búin að vera í hnút alls staðar annars staðar.
    Ég tel að aðilar þessarar vinnudeilu hefðu náð miklu meiri árangri ef það hefði ekki blasað við að það væri hægt að setja á verkfallið lög og menn hafi í rauninni ekki haft tækifæri til þess að ræða þetta mál á eðlilegum grunni. Ég er því ekkert undrandi á því að samtök sjómanna hafi gefið út yfirlýsingu í gær þar sem þeir líta svo á að það sé engin ástæða til þess að vera að fjalla yfir höfuð um fiskveiðistefnuna nema fyrir liggi raunhæfar tillögur frá ríkisstjórninni eða sjútvn. til lausnar á málefnum sjómanna, eins og stendur hér, en þar erum við sérstaklega að tala um kvótabraskið sem þessi deila upphaflega snerist um og hefur allan tímann verið hið óleysta mál. Mér er alveg gersamlega óskiljanlegt hvers vegna ekki var hægt að hnýta við lögin yfirlýsingunni sem hér hefur margoft verið vísað til og leysa málið með þeirri sameiginlegu niðurstöðu. Ég held að ef menn hefðu ekki horft til þessa möguleika að setja bráðabirgðalög, þá hefði þessi botn verið kominn í málið. Nú eru stjórnvöld búin að grípa inn í þessa deilu og það er von að samtök sjómanna vísi ábyrgðinni á stjórnvöld, en þannig hefði málið að sjálfsögðu aldrei átt að fara. Það er líka skiljanlegt að fyrst það hefur ekki sést að það væri neinn raunverulegur vilji að taka á kvótabraskinu nema með einhverjum óljósum tillögum um kvótaþing, sem hafa ekki einu sinni stuðning stjórnarsinna, þá sé málið í rauninni komið í enn illleysanlegri hnút en það var áður.
    Ríkisstjórnin, þ.e. stuðningsmenn hennar utan þeirra tveggja sem ekki hafa treyst sér til að styðja þetta frv., ber mikla ábyrgð á því í hvaða hnút þessi deila er komin og því miður get ég ekki séð að það sé nein lausn að fara að samþykkja þessi lög með 1. gr. svoleiðis flakandi opna að það má í rauninni spyrja sig: Hver er ábyrgð þeirra sem standa að slíkri lagasetningu? Þarna er sett fram ákveðin starfsaðferð sem menn settu sér að fara eftir, en það er alveg ljóst að það hefur ekki bara með einum hætti heldur með tvennum hætti verið brotið. Í fyrsta lagi hillir ekkert undir neina nauðsynlega löggjöf til þess að hafa áhrif á skiptakjör og í öðru lagi er þessi skilgreining um hvað eru óeðlileg áhrif á skiptakjör í hæsta máta óeðlileg að mínu mati og gera þetta að mun erfiðara máli heldur en ella væri. Það má þó segja að eitt í þessari 1. gr. hafi gengið eftir. Nefndin sem átti að skila tillögum sínum fyrir 1. febr. 1994 gerði það og það mjög tímanlega. En þessar tillögur hafa verið meira og minna að engu hafðar og það er spurning hvort ekki hefði strax þegar það var ljóst í kringum 20. eða upp úr 20. jan. átt að halda áfram að vinna málið. Í stað þess stöndum við frammi fyrir því að það er nákvæmlega ekki neitt að gerast. Við höfum fengið þær upplýsingar frá fulltrúum sjómannasamtakanna og útgerðarmanna að vissulega hefðu verið ákveðin atriði sem hefði verið hægt að vinna út frá og vinna áfram með og vinna lengur með ef tækifæri hefði gefist til. Og frá öllum aðilum hefur þessi bráðabirgðalagasetning verið fordæmd. Ég skal ekki fara að ráða í blæbrigðamun milli þeirra sem tjáðu sig um þetta en alla vega má segja að í orði kveðnu hafi ekki nokkur þeirra fulltrúa sem komu á fund nefndarinnar réttlætt þessa lagasetningu.
    Ég held að það væri ábyrgasta afstaðan að vísa til þess að þeir aðilar sem sannanlega standa að þessari vinnudeilu og sannanlega eiga að útkljá hana komi aftur að þessu máli og ég skil vel að þeir telji sig ekki eiga mikið erindi í að ræða almennt um fiskveiðistefnuna á meðan svona viðamikið og mikið prinsippatriði stendur út af borðinu. Það er sérkennilegt að við skulum enn ekki hafa tekið af skarið með það að menn séu reiðubúnir að fordæma þá lögleysu að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum og ég held að það sé komið að vendipunkti í þessu máli þar sem reyna ætti að knýja þessa aðila til að ná saman um

það mál. Þá væri þessi deila úr sögunni. Og ég er viss um að ef deiluaðilar stæðu frammi fyrir þeirri ögrun að þurfa að vinda sér í það að leysa þetta mál þá gætu þeir það mjög vel.
    Stjórnvöld hafa ekkert gert nema eyðileggja fyrir þessu máli og tefja fyrir því að niðurstaða fengist í því og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þeim og ég tel það fullkomið ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að grípa inn í þessa deilu þegar það var gert vegna þess að reynslan hefur sýnt að það hefur ekki orðið til góðs.