Stöðvun verkfalls fiskimanna

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 14:02:08 (4765)


[14:02]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég spyr nú eftir okkar hæstv. ráðherrum, forsrh. og sjútvrh., sem voru hér fyrir stundarkorni, en hafa nú gengið úr salnum. Mér væri þægð í því að helst væru þeir hér báðir eða a.m.k. annar hvor þeirra.
    Ég vil byrja á því að láta það í ljósi að ég tel það vera hreinan útúrsnúning hjá hæstv. forsrh. þegar hann heldur því fram að atkvæði okkar stjórnarandstæðinga gegn þessari lagasetningu í gær hafi verið krafa um sjómannverkfall. Það er alger fjarstæða. Nú setti hæstv. ríkisstjórn þessi bráðabirgðalög ekki með atfylgi stjórnarandstöðunnar og hún gat með engu móti skákað í því skjóli að stjórnarandstaðan færi að draga þessi lög hér í gegnum þingið. Eina fyrirheit okkar stjórnarandstæðinga var það að við mundum ekki tefja meðferð málsins á Alþingi, ef það væri kallað saman, þannig að það gæti fengið þinglega meðferð með skjótum hætti. Um það vorum við sammála og þeim skilaboðum var komið til ríkisstjórnarinnar. En það er alger fjarstæða að vera að halda því fram að stjórnarandstaðan sé að krefjast verkfalls þó að við viljum ekki greiða þessu klúðri ríkisstjórnarinnar atkvæði okkar. Ríkisstjórnin valdi þessa leið án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuna og ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu máli og hún hefur haldið illa á því. Það hefur allan tímann legið fyrir að það væri hennar að lögfesta þessi bráðabirgðalög eða láta þau fá þinglega meðferð og það var ekkert upp á okkur að klaga með það.
    Ég lét í ljós þegar við 2. umr. málsins og get endurtekið það að ég tel að ríkisstjórnin hafi þrátt fyrir allt sett þessi bráðabirgðalög með lögformlegum hætti og hún hafi staðið þannig að því að ekki verði fundið að lagaforminu. En það var ákaflega heimskulegt að kalla ekki Alþingi saman. Það var löglegt að gera þetta eins og ríkisstjórnin gerði en það var siðlaust.
    Með þessari umgengni við þennan neyðarrétt sem bráðabirgðalagaákvæðið í 28. gr. stjórnarskrárinnar á að vera, þá hefur ríkisstjórnin komið því til leiðar að a.m.k. mér hefur snúist hugur um þetta efni. Ég var andvígur því að afnema bráðabirgðalagaréttinn. Ég vildi gera hann óþarfan og tel að það hafi verið gert með síðustu stjórnarskrárbreytingu eða þ.e. þeirri breytingu að Alþingi sæti allt árið. Þá á ekki að þurfa að gefa út bráðabirgðalög. En með þessu framferði sem ríkisstjórnin hefur haft, þá er svo komið að ég tel að það verði að loka þessari leið, það sé ekkert úrræði annað en afnema þennan rétt sem er í stjórnarskránni til bráðabirgðalagasetningar.
    Menn hafa deilt um það og deilt á það hvernig staðið var að kynningu málsins í stjórnarflokkunum eða innan Sjálfstfl. Það hefur komið í ljós að þingmenn Sjálfstfl. hafa verið barðir til hlýðni þannig að lögin hafa meiri hluta og eru hér að öðlast gildi sem slík. Það hefur verið farið að mínu mati afar illa með hv. þm. Sjálfstfl., en það er ekki mitt að kvarta fyrir þeirra hönd. Mér er nákvæmlega sama hvers lags valdhroka eða hrottaskap hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. sýna sínum mönnum. Þeir létu þá standa frammi fyrir gerðum hlut og nú hafa þeir látið kúga sig. Það var að vísu einn þeirra, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, sem fékk leyfi til þess að greiða atkvæði gegn lögunum ( Gripið fram í: Voru þeir ekki tveir?) og hæstv. forsrh. segist skilja hann. Hæstv. forsrh. segist skilja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, en hann skilur hins vegar ekki stjórnarandstöðuna. Hann gerir hortuga kröfu til stjórnarandstöðunnar að hún greiði atkvæði með frv. sem hann skilur að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson getur ekki stutt. Það kann að vera að hæstv. forsrh. og þeir bræður, hæstv. sjútvrh. og hann, hafi ætlað að komast hjá því að kúga allan þingflokk sjálfstæðismanna til fylgis við málið aðra heldur en hv. þm. Guðmund Hallvarðsson sem var í fríi. Reyndar sparkaði svo hæstv. forsrh. í hv. þm. Inga Björn Albertsson, en það er nú ekki nema daglegt brauð. Hann skilur ekki hv. þm. Inga Björn Albertsson, sem reyndar er nú annt um kjörfylgi sitt ekkert síður heldur en hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Það getur vel verið að hæstv. forsrh. hafi vonast til þess að hann þyrfti ekki að beygja hv. þingmenn Sjálfstfl. eins og Einar Kristin Guðfinnsson og hv. þm. Guðjón Guðmundsson svo að ég nefni nú nokkra sem hafa verið andvígir þessum lögum og þeirri aðferð sem beitt var við þau. En hann er búinn að því og mér finnst að hann geti ekki verið óánægður við okkur stjórnarandstæðinga þó hann hafi orðið að beita þessu lagi.
    Það er hins vegar deginum ljósara að það hafa verið brotnar hefðir við setningu bráðabirgðalaganna og ég man eftir a.m.k. tvemur forsætisráðherrum úr Sjálfstfl., hæstv. forsrh. Geir Hallgrímssyni og hæstv. forsrh. Þorsteini Pálssyni, sem stóðu að bráðabirgðalagasetningu hvað eftir annað í stjórnarsamstarfi með okkur framsóknarmönnum. Mér er ekki kunnugt um annað en þeir hefðu kurteislegt samband við þingmenn Sjálfstfl. áður en til bráðabirgðalagasetningar kom í hvert einasta skipti. Þeir tilkynntu a.m.k. okkur framsóknarmönnum ekkert annað og könnuðu vilja sinna liðsmanna fyrir fram.
    Það er reyndar mjög undarlegt ósamræmi í málflutningi hæstv. ráðherra. Við höfum verið undanfarna daga að horfa á stjórnarflokkana togast á um búvörulög. Þá var bannorð þegar um búvörulög var að ræða að hafa nokkurn atbeina frá stjórnarandstöðunni. Það lá fyrir að þorri sjálfstæðismanna og stjórnarandstaðan öllsömul var tilbúin til að afgreiða boðleg búvörulög. Það hentaði hins vegar ekki hæstv. utanrrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni og öll íhlutun stjórnarandstöðu í þá lagasetningu var algert bannorð og jafnvel hótað stjórnarslitum ef meirihlutavilji Alþingis fengi að koma í ljós. En Sjálfstfl. lét hæstv. utanrrh. kúga sig enda er hið raunverulega forræði landbúnaðarmála í ríkisstjórninni í höndum hæstv. utanrrh.
    Svo má líka líta á það að í þessum bráðabirgðalögum eins og því frv. er háttað má ekki víkja við orði. Stjórnarandstaðan hefði orðið að kyngja þeim eins og þau lágu fyrir á þingskjalinu.
    Þetta eru kannski ekki stór atriði en það sem mér finnst vera kjarni málsins og alvaran í þessu öllu saman er að kjaradeila sjómanna er óleyst og kjaradeila sjómanna er verri viðfangs en þegar við skildum fyrir jólin. Þríhöfða nefndinni mistókst að höggva á hnútinn og gera tillögur sem sátt gæti orðið um. 1. febr. er liðinn fyrir einum mánuði og það bólar ekkert á neinu lausnarorði. 15. júní er að koma, sem er lokadagur þessara frestunarlaga, og þar af leiðir að 15. júní sitjum við í sömu súpunni og við vorum í 14. jan. Það vill svo til að daginn næst á eftir 15. júní verður Alþingi á fundi. Það kann að vera að hæstv. ríkisstjórn hugsi sér að láta setja lög á sjómenn á hátíðafundi á Þingvöllum á þjóðhátíðardaginn, það væri kannski eftir öðru. Mergurinn málsins er sá að hæstv. ríkisstjórn ræður ekki við lagasetningu um stjórn fiskveiða. Ég hef enga trú á því að það frv. sem fyrir þinginu liggur og komið er til sjútvn. og sjómenn fást ekki til þess að tala um verði afgreitt fyrir vorið. Hæstv. ríkisstjórn ræður ekki heldur við setningu búvörulaga. Það mál er uppnámi því sá bastarður sem hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson kúgaði Sjálfstfl. til að fallast á stenst ekki og það mál er allt í uppnámi enn. Kjaradeila sjómanna er í öngstræti og að öllu þessu athuguðu held ég að það sé lýðum ljóst að hæstv. ríkisstjórn er ófær um að stjórna og ætti bara að segja af sér.