Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 14:59:45 (4769)


[14:59]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að komið er fram frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Það er öllum ljóst að gildandi lög eru ekki í takt við breytta tíma og breyttar aðstæður í þjóðfélaginu og því þarf að breyta þeim lögum. Hér eru komnar tillögur að breytingum. Það er í sjálfu sér erfitt að gera sér grein fyrir því hvort hér er einmitt um rétta leið að ræða, þá einu réttu, en ég efast ekki um að hv. umhvrn. mun fara vel ofan í þetta mál og leggja til á því breyingar ef henni sýnist svo. Það eru nokkuð skiptar skoðanir um náttúruvernd í landinu og hvernig eigi að taka á þeim málum. Ég skal viðurkenna það að ég óttast það svolítið að með því að fara þá leið sem hér er lögð til sé verið að koma upp tvöföldu kerfi í stjórn náttúruverndarmála eða jafnvel þreföldu. Landvarsla ríkisins fái að verulegu leyti hlutverk núverandi Náttúruverndarráðs en Náttúruverndarráð verði áfram við sama heygarðshornið. Það er yfirleitt með neikvæðan tón í umræðunni um náttúruvernd og síðan verði umhvrn. með yfirstjórn náttúruverndarmála.
    Auk þess má nefna að Náttúrufræðistofnun er orðin mjög mikilvæg stofnun í þessu þjóðfélagi með nýjum lögum og ég bind miklar vonir við þau nýju lög sem um hana gilda. Þetta gerir það að verkum að ég óttast svolítið að þarna komi ýmsir hlutir til með að skarast á milli þessara stofnana og þessara aðila og það geti leitt af sér erfiðleika. Ég sat í þeirri nefnd sem hæstv. umhvrh. nefndi og kemur fram í greinargerð að hann leysti upp eða leysti frá störfum og ég hef svo sem ekkert um það að segja frekar. Ég gerði það að umræðuefni áður í þinginu hvernig að því var staðið. En ég græt það svo sem ekkert sérstaklega

að sú nefnd var leyst frá störfum því hún hafði haldið marga fundi og niðurstaða var svo sem ekki alveg í farvatninu. En ég vil bara ítreka það að Alþfl. bar fulla ábyrgð á því nefndarstarfi með því að fyrrv. hæstv. umhvrh. skipaði formann og svo skipaði hann náttúrlega nefndina en ekki meira um það.
    Ísland er einstakt land hvað snertir náttúrufegurð og hreinleika. Að við Íslendingar berum gæfu til þess að vernda okkar umhverfi er ein helsta forsenda þess að þjóðin njóti hagsældar þegar við horfum fram í tímann. Við sjáum að flestallir framtíðarmöguleikar okkar tengjast hreinleika landsins og fiskimiðanna umhverfis það. Þetta er nokkuð sérstakt fyrir okkur og það er því mjög mikilvægt að vel takist til við það að vernda umhverfið og náttúru okkar og að vel takist til um náttúruvernd.
    En hvernig er best að standa að málum? Það hefur verið því miður tilhneiging í þjóðfélaginu til að skipta þjóðinni í hópa. Annars vegar vini náttúrunnar og hins vegar óvini náttúrunnar. Og þeir sem hafa álitið sig hafa einkarétt á að vera vinir náttúrunnar eru ýmsir sérfræðingar á sviði náttúruverndar en þeir hafa síðan haft tilhneiging til að líta á þá sem nytja landið sem óvini náttúrunnar. Við sem tilheyrum bændastétt höfum verið óánægð með þessa svarthvítu umræðu. Við viljum nytja landið án þess að það beri af því skaða. Þetta hefur upp á síðkastið verið kallað sjálfbær þróun. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að bændur eru ekki alsaklausir af því að hafa komið illa fram við landið. Skammtímasjónarmið hafa stundum ráðið ríkjum og það er enginn vafi á því að landið var víða ofbeitt þegar sauðfé var flest í landinu í kringum 1980 ef ég man rétt. Það er hins vegar margt að breytast í bændastétt eins og víðar. Og flestir bændur, ég fullyrði það, gera sér grein fyrir mikilvægi sjálfbærrar þróunar. En það geta hins vegar komið upp deilur um það hvað má bjóða landinu án þess að það beri skaða af.
    Ýmsar þjóðir hafa gert sér grein fyrir því að náttúruvernd verður ekki virk með valdboði ofan frá. Það þarf að virkja fólkið sjálft. Ekki síst þá sem nytja landið. Ég rakst í fyrra á ágætis grein um það hvernig staðið er að þessum málum í Ástralíu. Þar er viðtal við Andrew Kampel, ráðunaut og bónda í Ástralíu, sem segir frá stefnubreytingu í viðhorfi til meðferðar á landi og dýrum og yfirskriftin er, með leyfi forseta: Landnotandi ber ábyrgð á ástandi landsins.
    Mig langar að lesa örlítið hér í formála að þessu viðtali, með leyfi forseta, og það hljóðar svo:
    ,,Sá sem hefur á hendi umönnun lands ber sjálfur ábyrgð á því að það og lífríki þess hrörni ekki og sé sjálfbært. Þetta er kjarninn af því sem ástralski ráðunauturinn Andrew Kampel, sem jafnframt er bóndi, hefur verið að leggja áherslu á í fyrirlestrum, námstefnum og fundum hér á landi. Hann notaði mikið enska orðið ,,landcare`` eða landvernd. En hann segir að í heimalandi hans, Ástralíu, hafi orðið mikil umskipti á viðhorfum til þess hvernig skuli að landvernd staðið. Á undanförnum árum hafi bændurnir sjálfir tekið þar forustu, fjórðungur þeirra í eigin landgræðslufélögum. Viðhorfið nú sé að stefnan og framtakið skuli ekki koma að ofan frá opinberum aðilum og sérfræðingum heldur frá þeim sem yrkja landið sjálfir en með ráðgjöf og aðstoð þaðan.``
    Ég skal viðurkenna að ég sakna þess svolítið í því frv. sem hér er til umræðu að ekki skuli hafa verið tekið þannig á málum að meira vald sé fært út í umdæmin. T.d. með því að efla frekar náttúruverndarnefndir. Nú kom það fram hér í ræðu hæstv. ráðherra að hann telur sig vera að efla þær með þessu frv. og það er rétt að þeim er fækkað og kannski er það nægilega eða kannski gerir það það að verkum að þær verði sterkari og geti virkilega tekist á við verkefni. En sannleikurinn er sá að þær náttúruverndarnefndir sem að nafninu til hafa verið skipaðar að undanförnu hafa varla starfað. Það er undantekningar ef þær hafa starfað eitthvað að ráði. Og ég segi það hér aftur að mér finnst að það sé alveg grundvallaratriði að það takist að efla þær og ég hefði reyndar viljað ganga lengra og gefa þeim frekari völd. Það getur vel verið að það verði þróunin. Það var ein hugmynd sem kom fram í þeirri nefnd sem áður hefur verið vitnað til og átti að semja frv. um náttúruvernd. Þar kom fram sú hugmynd að landinu yrði skipt í umdæmi og náttúruverndarnefndir störfuðu síðan í hverju umdæmi. Má eiginlega segja að Náttúruverndarráði væri breytt þannig að því væri skipt upp. Og ég skal viðurkenna að mér fannst að þessa hugmynd hefði þurft að þróa frekar og reyna að kafa algerlega ofan í það hvort þetta hefði ekki getað verið aðferð sem hefði getað hentað okkur Íslendingum.
    Í nýrri 5. gr. minnst á héraðsfundi um náttúruvernd. Ég man ekki betur en að þeir séu einmitt í lögum, að ákvæði um héraðsfundi sé einmitt í lögum í dag án þess að þeir hafi verið haldnir svo nokkru nemi. Það gerir það að verkum að maður spyr hvort eitthvað breytist þó að það komi fram nýtt frv. sem kveður á um það sama sem ekki hefur komist til framkvæmda. Ég er ekki á móti því að haldnir séu héraðsfundir um náttúruvernd, svo sannarlega ekki, en það er bara að koma því þá í framkvæmd og ég veit ekki hvort hæstv. umhvrh. hefur einhverjar sérstakar aðferðir til þess að svo geti orðið.
    Í verðandi 5. gr. frv. um Landvörsluna, með leyfi forseta:
    ,,Landvarslan getur með samningum falið öðrum aðilum umsjón náttúruminja og friðlýstra svæða, að þjóðgörðum undanskildum, t.d. sveitarfélögum, ferðafélögum, áhugasamtökum um náttúruvernd og einstaklingum.``
    Ég tel að þarna sé um algert nýmæli að ræða og lýsi ánægju með þetta ákvæði. Ég vonast til að það geti leitt gott af sér og ég set þetta ákvæði í samband við það að Náttúruverndarráði er síðan heimilt eins og því hefur reyndar verið að skipa eftirlitsmenn úti í umdæmunum þannig að ég óttast það ekkert að þarna yrði stigið skref vegna þess að það er þá alla vega haft með því eftirlit.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta við 1. umr. Ég ætla hvorki að lýsa stuðningi eða andstöðu við frv. á þessu stigi málsins. Mér finnst gott að það er komið fram og það er nauðsynlegt að taka á þessum málum í tengslum við nýtt fyrirkomulag síðan við fengum umhvrn. sem ég lýsi ánægju með að varð að niðurstöðu en ég veit að hv. umhvrn. mun fara gaumgæfilega ofan í þessi mál. Umhvn. mun finna með því að kalla fyrir nefndina aðila hvort þessi leið sé hin rétta eða jafnvel einhver önnur.