Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 15:14:53 (4771)


[15:14]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Já, hér kom nú reyndar upp einn af þessum mönnum sem ég skal ekki neita að mér þykir oft og tíðum telja sig hafa einhvern einkarétt á því að hafa skoðun á náttúruverndarmálum. Og það var ekki rétt eftir haft að ég hefði sagt að Náttúruverndarráð hefði neikvæðan tón í garð náttúruverndar. Ég sagði, með leyfi forseta:
    ,,Náttúruverndarráð verður væntanlega áfram við sama heygarðshornið. Það er yfirleitt með neikvæðan tón í umræðunni um náttúruvernd.`` Og ég meina það og það er ekki það sama. Mér finnst og það eru miklu fleiri sem telja það að Náttúruverndarráð hafi ekki staðið sig sérstaklega vel í stykkinu og það hafi verið ákveðinn hroki í framkomu Náttúruverndarráðs í garð almennings í landinu og sá tónn viðhafður að þeir hafi einir vit á því hvað sé náttúruvernd. Hv. þm. vitnar hér til fyrrv. formanns Framsfl. Eysteins Jónssonar eins og hann hefur reyndar gert áður við svipuð tækifæri eins og ég sé að lítilsvirða hans merkilega starf að náttúruvernd í landinu þó ég leyfi mér að segja þetta um Náttúruverndarráð í dag. Það er síður en svo. Ég ber mikla virðingu fyrir hans baráttumálum varðandi náttúruvernd og það er á engan hátt verið að gagnrýna hans störf að náttúruvernd þó að ég leyfi mér að hafa uppi skoðanir á því hvernig Náttúruverndarráð starfar í dag og ég þarf ekki að taka aftur neitt af því sem ég sagði.