Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 15:42:32 (4777)


[15:42]
     Karen Erla Erlingsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að breytingar á lögum um náttúruvernd líti nú dagsins ljós. Það er löngu orðið tímabært að þau séu endurskoðuð. Það hefði raunar þurft að gera fyrir löngu því með tilkomu sérstaks umhvrn. tel ég vera nauðsynlegt að skilgreina betur verkskiptingu milli umhvrn. annars vegar og Náttúruverndarráðs hins vegar og vona ég að það takist með þessum breyttu lögum.
    Í 10. gr. eru þeir aðilar taldir upp sem sæti skulu eiga á náttúruverndarþingi og sakna ég þess að sjá ekki fulltrúa frá ferðamálasamtökum landshlutanna þar. Eitt af veigameiri verkefnum sem ferðamálasamtökin vinna að eru umhverfismál og ekki síst fyrirbyggjandi aðgerðir í umhverfismálum. Því fyndist mér mikilvægt að ferðamálasamtökin ættu fulltrúa á náttúruverndarþingi.
    Ég ætla að leyfa mér að bera aðeins niður í 2. gr. varðandi gjaldtöku í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum, en þjóðgarðar og friðlýst svæði eru jafnframt vinsælustu ferðamannastaðir landsins. Ég á sæti í Ferðamálaráði Íslands og þar hefur slík gjaldtaka oftsinnis verið rædd. Henni hefur alfarið verið hafnað nema sem gjaldtaka fyrir þá þjónustu sem veitt er á viðkomandi stöðum eins og reyndar kemur fram hér að skuli vera raunin á. Ég vil því íteka það að gjaldtaka þarf að vera vel skilgreind.
    Ég vil aðeins benda á að ferðaþjónustan hefur almennt hafnað gjaldtöku í formi aðgangseyris að slíkum stöðum og bent er á í því sambandi að nóg álög séu þegar fyrir á greininni þó svo sú gjaldtaka bætist ekki við. Mér líst hins vegar mjög vel á þá tillögu að gjaldtaka skuli samræmd yfir landið. Það er ófært

annað að mínu mati en hún sé samræmd ef það samræmist þá samkeppnislögum og hún sé notuð eða það sem kemur inn sé notað til uppbyggingar og úrbóta á viðkomandi svæðum eins og umhvrh. benti á.
    Í 3. gr. er fjallað um aðgang almennings að náttúru landsins og umgengni. Þar er lagt til að Landvarsla ríkisins geri tillögu um gerð ökuslóða á öræfum landsins og merkingu þeirra. Það sama skuli gilda um akstur á snjó og jöklum. Mér er spurn hvernig hæstv. umhvrh. hugsi sér að framfylgja þessu. Þar vil ég taka Vatnajökul sem dæmi en hann er orðinn eitt vinsælasta útivistarsvæði landsins og stundum er þar umfangsmikil ferðaþjónusta, t.d. á vegum Jöklaferða hf. sem bjóða upp á ferðamöguleika þar þvers og kruss um jökul.
    Ég átta mig ekki á því hvernig skuli staðið að þessu, hvort það er sem sagt nauðsynlegt að takmarka umferð um jökla og á snjó og hvernig eftirliti skuli háttað á þeim stöðum eins og t.d. á Vatnajökli.
    Hv. 9. þm. Reykv., Auður Sveinsdóttir, talaði um viðhorf Ferðamálaráðs til umhverfismála í ákveðnu samhengi því að það er tillaga um að þeir eigi fulltrúa í ákveðinni nefnd sem er líka tilgreind. Ég sit í Ferðamálaráði og mér finnst hún hafa talað tiltölulega neikvætt um Ferðamálaráð í þessu sambandi og mig langar bara að fá aðeins nánari skýringu á því við hvað hv. þm. átti þar.