Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 16:19:46 (4783)


[16:19]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér fannst nauðsynlegt að koma hér upp og fara betur yfir það sem ég sagði áðan vegna þess að mér sýnist að það hafi misskilist og verið nokkuð sterkt túlkað, svo ekki sé meira sagt, af sumum hv. ræðumönnum.
    Hv. 9. þm. Reykv. sagði að ég hefði ráðist á náttúruverndarfólk og með því að segja það finnst mér hún vera að gefa í skyn að það sé bara Náttúruverndarráð sem sé náttúruverndarfólk. Ég skal viðurkenna það að ég sagði hér nokkur orð um Náttúruverndarráð sem mér fannst ekki vera það sterk að þau þyrftu að valda þessari úlfúð en það virðast sumir hafa tekið þau býsna nærri sér. Ég vil ítreka það, og mér finnst það koma fram í máli hv. 15. þm. Reykv., að það á einmitt ekki að skipta þjóðinni upp í náttúruverndarfólk og þá sem nýta landið. Það var það sem ég sagði og var að leggja áherslu á að mætti ekki gera og væri gert of mikið af.
    Hún kom t.d. inn á hvalveiðarnar og þá rifjaðist það upp fyrir mér að ég var einmitt stödd í Noregi þegar Norðmenn ákváðu að hefja hvalveiðar að nýju. Þá var sýnt frá umræðuþætti í Bandaríkjunum og þá sögðu náttúruverndarsinnar --- sem kalla sig náttúruverndarsinna og telja sig eina hafa rétt á því að vera kallaðir náttúruverndarmenn eins og ég met málið --- að það að vera á móti hvalveiðum sé tákn um að vera umhverfissinni.
    Þegar umræðan er komin út á þessa braut þá er hún orðin svo vitlaus og hún gerir svo mikið ógagn að manni ofbýður. Auðvitað verðum við að vinna að því öllum árum að gera alla Íslendinga að náttúruverndarsinnum og það er það sem ég vil. Ég vil einmitt að þeir sem nýta landið og nytja það verði líka náttúruverndarfólk og ég tel þá vera það. En mér finnst að þeir hafi ekki fengið tækifæri til að komast almennilega að vegna þess að sumir hafa litið á þá sem óvini náttúrunnar. Ég vil taka það fram að ég tel ekki að það séu skoðanir þeirra hv. þm. sem hér hafa talað, en það fólk er því miður til sem lítur þannig á mál.
    Ég verð þó aðeins að segja vegna orða hv. 15. þm. Reykv. að mér fannst hún láta hanka sig á því að það að stjórna ofan frá ætti að vera aðalatriðið þegar hún sagði að peninga og völd þyrfti fyrst og fremst til að geta verndað náttúruna eða eitthvað á þá leið. Auðvitað þurfum við peninga. En með því að við þurfum fyrst og fremst völd til að geta verndað náttúruna erum við að tala um valdboð ofan frá sem er einmitt það sem ég tel ekki vera aðalatriðið til að okkur takist það sem er svo mikilvægt, að vernda okkar stórkostlega umhverfi og okkar fagra land.