Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:26:35 (4794)


[17:26]
     Auður Sveinsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir slæmt ef ráðherra túlkar það þannig að ég hafi fundið þessu frv. allt til foráttu. Ég held að það sé líka smávegis mistúlkun því að ég sagði að það væru þarna athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri, og ég held að ég hafi gert það. Hins vegar talar hæstv. ráðherra um að Náttúruverndarráð verði vettvangur fyrir frjáls félagasamtök. Í því sambandi vil ég bara benda á að þessi vettvangur fyrir frjáls félagasamtök er til í samtökum landgræðslu- og náttúruverndarfélaga sem heitir Landvernd. Og annað líka að hann talar um að Náttúruverndarráð sé samþykkt þessu frv. en ég tel rétt að það komi fram að það hefur lýst yfir stuðningi við þetta en þó með breytingum. Það sagði ráðherrann sjálfur í ræðu sinni í upphafi þessa máls. Þannig að við megum ekki gleyma því að það gerði athugasemdir við þetta frv. Það var með breytingar alveg eins og þeir sem töluðu í dag hafa verið að koma á framfæri og ég held að það megi ekki gleyma því.