Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:28:02 (4795)


[17:28]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef það færi nú svo að formanni Landverndar yrði að ósk sinni og samtök hennar fengju líka þennan stuðning sem ætlast er til með frv. að Náttúruverndarráð fengi er þá Landvernd orðið háð ríkinu? Er þá allt í einu Landvernd hætt að vera skipulögð samtök þeirra sem sinna frjálsu starfi innan þessa geira og allt í einu komin undir hælinn á ríkisvaldinu? Menn verða nefnilega að hugsa þetta mál rökrétt. Hv. þm. hefur haldið því fram hér að vegna ýmiss konar stuðnings sem ríkið veitir Náttúruverndarráði samkvæmt þessu frv. þá séu þarna komin tengsl hæðis á milli. Það sama mun þá gilda um Landvernd en mér fannst hv. þm. vera að segja það í rauninni að ef þetta ætti að verða að veruleika þá ætti Landvernd líka að fá.
    Hv. þm. hefur líka hér í . . .  (Gripið fram í.) Ég hef kannski misskilið það eða túlkað það of sterkt, ég fellst á það --- en hv. þm. hefur hér líka í dag að mér hefur fundist fundið að því að í frv. er verulega dregið úr núverandi hlutverki Náttúruverndarráðs, mér hefur fundist það, ég skildi mál þingmannsins svo. Ég nefni þetta hér vegna þess að nú hefur hv. þm. flutt hér till. til þál. og þar er lagt til að Alþingi álykti að fela menntmrh. í samvinnu við landbrh. að leita leiða til að efla náttúrufræðifræðslu í tengslum við íslenskan landbúnað. ( ASv: Í grunnskólum.) En Náttúruverndarráði er nú ekki aldeilis gert hátt undir höfði hér. Eða umhvrn. sem hv. þm. hefur þó mært hér í dag og óskað alls góðs. Ekki birtist sá góði vilji hér. ( ASv: Lestu tillöguna.)