Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:04:02 (4803)


[18:04]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Fyrri hluti ágætrar ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar mætti e.t.v. draga saman í orðtækið fjórðungi bregður til fósturs. Að öðru leyti, virðulegi forseti, vil ég segja það að ræða hv. þm. kom mér nokkuð á óvart vegna þess að hann hefur getið sér gott orð fyrir sérfræðiþekkingu á ýmsum málum eins og utanríkismálum en ræðan sýnir að hann hefur líka djúpan skilning á umhverfismálum og hvernig náttúruverndarmál hafa þróast á síðustu árum. Ég tel að það sé þessu máli afskaplega mikilsvert að formaður Albþ., eins af stjórnarandstöðuflokkunum, skuli með þessum hætti lýsa yfir vilja sínum til þess að styðja meginmál frv., ekki síður en sá ágæti stuðningur sem kom fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar. En að öðru leyti vil ég segja um ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar: Mæl þú manna heilastur.