Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:06:57 (4805)


[18:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er kannski ekki mikið um þetta að segja. Ég vildi þó aðeins geta þess hér að ég átti á árum áður aðild að því að fjmrn. sendi frá sér ýmsa svona munkalatínutexta eins og er í þessu fskj. frá fjmrn. Það er einfaldlega þannig að það hefur verið, og ég reikna með að sé enn, dagskipun á þeim bæ að ganga yfirleitt frá öllum fyrirvörum um ný frv. að það eigi ekki að breyta neinu um fjárveitingar til viðkomandi málaflokks vegna þess að fjmrn. getur einfaldlega ekki lofað viðbótarfjárveitingum í fylgiskjali með frv. af þessu tagi. ( HG: Það á ekki að lofa, það á að meta ákvæði frv.) Já, já, eins og ég sagði hef ég oft átt aðild að svona textum og ég veit alveg hvað liggur á bak við þá. Þeir eru settir vegna þess að það er skylda að setja þá í frv. og þeir eru allir eins. Hins vegar sé ég ekki að það þjóni neinum jákvæðum tilgangi fyrir eflingu umhvrn. að fara að lyfta eitthvað sérstaklega þessum texta frá fjmrn. Það er miklu skynsamlegra að taka bara ekkert mark á honum vegna þess að þeir eru ekki skrifaðir til þess að taka mark á þeim, þessir textar sem fylgja svona frv. því það er tekin glíma um það við fjárlögin sjálf hvaða peningar eru látnir í einstök verkefni. Ég hef aldrei á minni setu í fjmrn. orðið vitni að því að svona fylgiskjal væri einhvern tímann notað sem málflutningsgagn í því.
    Varðandi það hins vegar hvort það sé misskilningur hjá mér að stjórnsýslulega séð sé verið að efla umhvrn. í þessu frv. þá munum við skoða það mál vel í nefnd undir hinni ágætu forustu hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, formanns nefndarinnar.