Ræktun íslenska fjárhundsins

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:13:04 (4807)


[18:12]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram till. til þál. um að Alþingi álykti að fela landbrh. að skipa nefnd sem gerir tillögur um aðgerðir til að vernda íslenska fjárhundinn og hreinrækta stofninn. Með þessari þál. fylgir greinargerð og þar segir:
    ,,Íslenski fjárhundurinn er þjóðararfur og þjóðargersemi Íslendinga, hann er lifandi listaverk sem okkur ber að varðveita.
    Nú er í gangi á vegum Hundaræktarfélags Íslands skráning á íslenska hundinum og nær fullmótað er ræktunartakmark. Þar mun mest hafa unnið Guðrún Guðjohnsen og telur hún að nú séu skráðir á fjórða hundrað hundar, reyndar mismunandi að gerð, þar sem starfsemi þessi á ekki langa sögu að baki. Vegna þess hve íslenski hundastofninn er fáliðaður og sundurleitur er nauðsynlegt að hafa sem flesta einstaklinga með í ræktuninni, ekki síst vegna þess að duldir erfðagallar eru til staðar hjá sumum einstaklingum. Hefur það valdið verulegum áhyggjum og vanda við val undaneldisdýra og nauðsynleg grisjun af þeim sökum ávallt verið erfið. Hér við bætist að ekki hefur gengið auðveldlega að ná samkomulagi um þau tegundareinkenni sem hundar þurfa að hafa til að teljast ,,íslenskir`` en þar sem skipulögð ræktun hefur verið fátækleg til þessa er brýn þörf á að hafa slíkan staðal til viðmiðunar ef skipuleg ræktun með nauðsynlegri ættbókarfærslu verður tekin upp fyrir alla ,,íslenska`` hunda.
    Hér er um mikilsvert mál að ræða sem allt of lengi hefur verið látið reka á reiðanum. Íslenski fjárhundurinn er vissulega í útrýmingarhættu og stafar hættan sennilega mest af síauknum innflutningi til landsins af erlendum hundakynjum. Af nýjungagirni taka margir Íslendingar þessa erlendu hunda fram yfir íslenska hundinn og áhuginn á íslenska hundinum dvínar. Reynslan undanfarna áratugi hefur sýnt að það eru tiltölulega fáir sem lagt hafa sig fram um ræktun og uppeldi íslenska hundsins en því miður hefur samstarf þessara aðila ekki ávallt gengið sem skyldi. Fjárskortur hefur einnig háð þessari ræktunarstarfsemi enda þótt flest störf séu unnin í sjálfboðavinnu.
    Útlendingar hafa sýnt íslenska hundinum mun meiri sóma en við sjálf. Íslenski hundurinn er nú kominn í ræktun víða um lönd þar sem hann nýtur mikillar virðingar og síaukinna vinsælda. Bæði Norðmenn og Danir rækta stofninn og þar fjölgar ört í stofninum. Einnig hefur hann vakið mikla athygli á hundasýningum bæði í Evrópu og Ameríku.
    Hreinræktaðir íslenskir hvolpar hafa verið seldir á háu verði úr landi.`` --- Ég vil nefna það hér að þar tala menn um verð fyrir nokkurra vikna hvolp upp á 50--100 þús. kr. og þarna getum við auðvitað náð miklu meiri árangri ef okkur tekst að festa ræktunarstarfið í sessi. --- ,,Eftirspurn er eftir hvolpum í fjölmörgum löndum eins og Bandaríkjunum, Sviss, Þýskalandi, Kanada og annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefur víða orðið að tísku að eiga íslenskan hest og íslenskan hund og klæðast íslenskri lopapeysu. Hugsanlegt er að þessar tvær búgreinar, hundarækt og hrossarækt, kunni að styrkja hvor aðra og ef vel tekst til með markvissu átaki, sem stjórnað væri af okkar besta ræktunarfólki og sérfræðingum, yrði íslenski hundurinn enn betri auglýsing á erlendum vettvangi og skapaði þannig gjaldeyristekjur.
    Fyrir nokkrum árum þegar Hundaræktarfélagið varð 20 ára gáfu hundaræktunarfélögin annars staðar á Norðurlöndunum félaginu peningagjöf sem verja skyldi til að gera myndband um íslenska hundinn. Allt ber þetta að sama brunni. Hugsjónafólkið, sem er að reyna að vernda íslenska hundastofninn frá útrýmingu, fær oftar aðstoð frá áhugafólki erlendis meðan íslenskir aðilar láta sér fátt um finnast. Einnig voru fluttir hingað til lands fyrir fáeinum árum þrír hvolpar frá Danmörku til undaneldis. Það er ekki vansalaust að miðstöð um ræktun íslenska hundsins skuli ekki vera rekin með glæsibrag hér á landi og þegar ræktendur hundsins óska eftir erfðaefni til að bæta stofninn hjá sér sæki þeir það ekki hingað heldur öfugt. Á þessu þarf að verða breyting til batnaðar sem fyrst.``
    Hæstv. forseti. Hér fylgir svo í greinargerð ágrip af sögu íslenska fjárhundsins, sem ég hirði ekki um að lesa upp við flutning málsins, en hún er mjög ítarleg frá upphafi til enda.
    Það er nú svo sérstætt að líklega er íslenski hundurinn einn besti varðhundur í veröldinni, jafnvel talinn númer tvö hvað það varðar. Hann er glöggur og hann er næmur og hann geltir og lætur vita ef eitthvað er í aðsigi, en hann er skaðlaus. Þetta er það sem gerir hann kannski að enn dýrmætari vöru en við höfum gert okkur grein fyrir ef við viljum á annað borð eignast gjaldeyri fyrir hann eftir að við höfum komið hér öflugu ræktunarstarfi í gang.
    Í ár er 50 ára afmæli lýðveldisins og það er kannski ekki lítil ástæða að huga að þeim gersemum sem við eigum. Hundurinn er ein sú gersemi sem af mestri tryggð hefur fylgt forfeðrum okkar í gegnum blíða og stríða sögu þessarar þjóðar. Mér finnst því vel við hæfi að minnast þessa vinar okkar á þessu ári og gefa þeim sem fullir eru áhuga ný tækifæri til þess að efla þetta ræktunarstarf. Ég tel t.d. sjálfsagt að Búnaðarfélag Íslands með sína tölvuþekkingu, með sín búnaðarsambönd út um allt land og starfsemi, með sína ráðunauta, yrði virkjað inn í þetta starf með áhugafólkinu og þannig næðum við að koma þessu ræktunarstarfi í gang. Það þarf að meta hundana og stiga og gera skrá um bestu kynbótadýrin þannig að fólkið nái að nýta sér bestu hundana sem til eru í landinu.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og landbn.