Ræktun íslenska fjárhundsins

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 18:26:41 (4809)


[18:26]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans ræðu, sem var ekki síst í restina stórmerkilegar upplýsingar um auðlindir sem við hirðum kannski ekki um. Við erum kannski að láta aðra stela af okkur eignum. Þarna minnist hann á að til sé möguleiki á að undirskrifa samning þar sem við eigum einkarétt á þessari skepnu hvar sem hún er ræktuð í heiminum. Ég vil því þakka hæstv. umhvrh. fyrir þessar upplýsingar og einnig fyrir það sem hann hefur sagt um þessa tillögu. Það kom kannski ekki á óvart því vissulega er það nú svo að dýravernd heyrir undir hæstv. ráðherra og ég velti því vissulega fyrir mér að þetta mál gæti þess vegna átt heima í tveimur nefndum þingsins, ekkert síður umhvn. heldur en landbn. En ég kaus að gera þetta um sinn að landbúnaðarmáli þó ég skilji það enn betur eftir ræðu ráðherrans að þetta er auðvitað miklu meira en landbúnaðarmál þannig að . . .   (Gripið fram í.) Mér snýst ekki hugur, ég held mig við hið fyrra og bið um að málið fari til landbn.
    En ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að gera okkur einmitt grein fyrir því sem hér hefur komið fram að auðlindirnar eru margar sem við eigum og það er hesturinn og hundurinn og auðvitað fleiri dýr sem hljóta að teljast til auðlinda þessarar þjóðar. Og eins og ráðherrann gat um þá er vert að taka í taumana áður en í óefni er komið. Það er kannski með þessi tvö húsdýr, hestinn og hundinn, að það eru engin dýr fremur sem geta með afli sínu og vináttu sameinað þessa þjóð. Þá á ég við það að þéttbýlisbúinn, borgarbúinn, hann ræktar hunda og hann ræktar hesta og hann er sveitamaður við þau störf og öll erum við sveitamenn. Þetta eru því miklar auðlindir og mér finnst einmitt mikilvægt, vegna þeirrar ráðstefnu sem haldin var í Ríó og þar sem þetta kom fram sem ráðherrann minntist á, að við Íslendingar fylgjum eftir rétti okkar í þessum efnum og tryggjum okkur rétt á þessum auðlindum og vinsælu dýrum sem eru að nema land í svo mörgum þjóðlöndum og það verði viðurkennt að þetta sé íslenskur uppruni sem þar er á ferðinni.