Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 13:47:34 (4815)


[13:47]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :

    Virðulegi forseti. Eins og ég hafði boðið upp á við 2. umr. þessa máls var málið enn tekið til athugunar á milli 2. og 3. umr. og hafði ég skýrt það þegar við 2. umr. hvaða atriði það væru sem ég hygðist fyrir hönd nefndarinnar beita mér fyrir að tekin væru þar til athugunar. Þetta var einkanlega að því er lýtur að vörugjöldum á ferjur. Enn fremur kallaði ég til baka þá brtt. sem lá fyrir við 2. umr. er laut að setningu reglugerðar um framkvæmd laga þessara því að þrátt fyrir það að ég teldi að nefndin sem heild væri sammála um markmið varðandi heimildir hæstv. ráðherra til að setja reglugerð við lögin, þá kom í ljós að ekki var full eining um orðalag og ástæðulaust að halda til streitu einhverju orðalagi þar sem menn eru í raun sammála en ná þá orðalagi sem allir geta staðið að.
    Í samræmi við þetta var málið tekið fyrir á milli umræðna og fyrir liggja á þskj. 677 brtt. frá meiri hluta samgn., þ.e. frá fulltrúum stjórnarflokkanna sem sæti eiga í þeirri nefnd. Þessar tillögur lúta að þeim efnum sem hér hefur verið gerð grein fyrir að tekin höfðu verið fyrir. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að e-liður 1. tölul. í 11. gr. falli brott en sá texti er ,,Gjöld af ferjum`` sem er stafliður undir 1. tölulið. Þess í stað verði þessi liður, Gjöld af ferjum, gerður að sérstöku tölulið og fær þannig meira vægi og er textinn þar: Gjöld af ferjum og flóabátum, eins og segir í brtt. meiri hluta nefndarinnar. Þetta er gert til þess að undir þessum tölulið verði ákveðin með gjaldskrá staðfestri af samgrh. öll þau gjöld sem hafnarsjóðir innheimta af ferjum.
    Á hinn bóginn er b-liður 1. brtt. meiri hluta nefndarinnar þannig að við 2. tölul. bætist: ,,Þó skulu flutningar með ferjum og flóabátum, sem njóta styrks samkvæmt vegalögum, undanþegnir vörugjaldi.`` Með þessum hætti leggur meiri hluti nefndarinnar til að vörugjöld séu ekki innheimt af flutningum með ferjum og þá enn þá síður hið sérstaka vörugjald sem er álag á þennan gjaldstofn. Með því svo aftur á móti að gera það sem áður var stafliður að sérstökum tölulið um gjöld af ferjum sem greiðast til hafnarsjóða fyrir þá þjónustu sem hafnir veita ferjum og ferjusiglingum þá er þeim gjaldskrárlið gert nokkru hærra undir höfði og er á valdi í fyrsta lagi hafnarstjórna að gera tillögur um hversu há þau gjöld skuli vera. Síðan er um það fjallað í hafnaráði eins og aðra liði gjaldskrár og gjaldskráin síðan staðfest af ráðherra eins og tillögur hafnaráðs greina ellegar þá hæstv. ráðherra hver sem er hverju sinni getur auðvitað breytt því ef honum þykir það við þurfa. Með þessu er tekið upp einfaldara fyrirkomulag að því er varðar gjöld af ferjum og ferjusiglingum til hafnanna en áður var gert ráð fyrir í frv. Það hafði komið í ljós þó ekki fyrr en á þessu ári að vörugjöld af flutningum með ferjum voru tekin mjög misjafnlega eftir því hvaða ferja í hlut átti og siglingaleið var farin og slíkt skipulag var ruglingslegt og gat orðið ósanngjarnt. Okkur þótti réttara að fella þetta í fast form sem hér hefur verið skýrt sem er einfalt og ekki margbrotið í vöfum. Þetta lýtur að innheimtu hafnargjalda af ferjusiglingum og tel ég að það sé þá fullskýrt.
    2. brtt. nefndarinnar er við 12. gr. frv. þar sem í 12. gr. frv. um innheimtu og skil á hinu sérstaka vörugjaldi segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu og ákveða hvernig skuli fara með vörslu og daglega afgreiðslu sérstaks vörugjalds samkvæmt lögum þessum.``
    Það hefur verið nokkuð rætt hér við 1. og 2. umr. að vörugjöld og hið sérstaka vörugjald sem er 25% álag á vörugjöldin geti lagst oftar en einu sinni á hverja vöru. Einn hv. nefndarmaður, hv. 4. þm. Norðurl. v., hefur haldið því fram í þessum ræðustól að þessi vörugjöld geti lagst 5--6 sinnum á sömu vöru, þ.e. sérstaka vörugjaldið. Ég tel að það sé ofsagt en við gerum tillögu um að þessari málsgrein sem ég las hér upp verði breytt þannig að hún hljóði eins og segir hér í brtt. nefndarinnar:
    ,,Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu, þar á meðal hversu oft það getur lagst á sömu vörusendingu og ákveða hvernig skuli fara með vörslu og daglega afgreiðslu sérstaks vörugjalds samkvæmt lögum þessum.``
    Með þessu er fært í lög að ráðherra hefur heimild til þess að takmarka hversu oft hið sérstaka vörugjald leggst á sömu vörusendingu og það er hægt að gera það t.d. með því að vörugjald eða hið sérstaka vörugjald skuli ekki innheimtast nema tvisvar sinnum af vöru þegar hún er flutt í framhaldsfrakt, þ.e. á einu farmbréfi á milli áfangastaða þrátt fyrir það að henni kunni að vera einhvern tíma millitíðinni skipað upp. Þetta er hægt en slík atriði eru að mínum dómi og meiri hluta nefndarinnar ekki þess efnis að það sé löggjafaratriði heldur hljóta slík atriði, er lúta að meðferð gjaldheimtu, að verða reglugerðaratriði. En því er þessi brtt. flutt að gera það skýrara í lagatextanum að ráðherra hafi heimild til að ákveða slíka hluti með reglugerð.
    3. brtt. nefndarinnar er við 24. gr. sem er um tilteknar framkvæmdir sem geta notið framlags úr ríkissjóði. Þar er um eins konar heimildargrein að ræða, en gert er ráð fyrir að við þá grein bætist einn töluliður sem verði 7. tölul. og orðist svo með leyfi hæstv. forseta: ,,Tollaðstaða fyrir farþegaferjur er halda uppi reglulegum áætlanasiglingum til landsins.`` Með þessu er tekin upp í lögin heimild til þess að greiða úr ríkissjóði eða greiða af hafnarfé kostnað við að koma upp tollaðstöðu fyrir ferjur sem halda uppi reglubundnum áætlunarsiglingum til landsins. Ein slík farþegaferja siglir til landsins nokkra mánuði á hverju ári, þ.e. til Seyðisfjarðar, og væri þar með hægt samkvæmt lögunum að greiða a.m.k. hluta af þeim kostnaði sem er við það að sú tollafgreiðsla geti verið þar í lagi. Þessi ábending hafði borist til nefndarinnar eftir að hún hafði mótað tillögur sínar fyrir 2. umr. Ábendingin var að okkar dómi réttmæt og við tökum það hér upp í þessari brtt. sem við væntum að verði samþykkt.
    Í fjórða lagi endurskrifuðum við hér brtt. sem áður hafði verið flutt um heimildir ráðherra til að

setja reglugerð og þarf sú brtt. ekki skýringa við.
    Hv. fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, minni hluti nefndarinnar, hefur flutt nokkrar brtt. sem ég get lýst yfir að ég er andvígur og mun greiða atkvæði gegn þeim. Hæstv. samgrh. hefur flutt litla brtt. í dag við frv. sem kom til umræðu og urðu hér orðaskipti um þegar umræðan hófst. Hún er við 33. gr. frv. en í 33. gr. frv. segir í 4. tölul., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sjóðnum`` þ.e. Hafnabótasjóði ,,er heimilt að veita sérstaka styrki til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga umfram það sem segir í 3. tölul.``
    Nú hefur hæstv. ráðherra lagt til að þessum tölul. verði breytt þannig að ekki verði einungis heimilt að veita sérstaka styrki til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga heldur einnig sameiningu sveitarfélaga. Hæstv. ráðherra hefur frá því greint að ósk um þetta efni hafi komið frá hæstv. félmrh. og ég tel ekkert því til fyrirstöðu að taka inn þessa viðbót, heimildargrein varðandi heimildir Hafnabótasjóðs og tel þessa brtt. svo auðskilda og svo einfalda að allir hv. alþm. eiga að geta gert sér grein fyrir því þegar í stað hvort þeir vilja að slík heimild sé inni eða ekki. Ég sé ekki ástæðu til þess að óska eftir að fresta þessari umræðu og ég mun ekki kalla nefndina saman til þess að fjalla um þetta mál. Ég lýsi því hins vegar yfir að ég get stutt þessa litlu brtt. sem hæstv. samgrh. hefur hér flutt og vænti þess að hún verði samþykkt. Hún er svo auðskilin að hv. þm. geta gert sér ljósa grein fyrir því þegar í stað hvort þeir vilja styðja slíka heimild eða eru henni andvígir og greiða að sjálfsögðu atkvæði í samræmi við það.