Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:13:05 (4823)


[14:13]
     Páll Pétursson (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Fyrst út af orðalagi hæstv. samgrh. þá verð ég að minna hann á að nú er ekki lengur heimilt að kveðja sér hljóðs um þingsköp en hæstv. samgrh. var einu sinni duglegur við það og datt í gamalt far. Ég tel að það sé algjörlega útilokað og gegn anda þingskapanna að afgreiða brtt. ef nefndarmenn óska eftir því að fá að skoða hana í nefnd. Það er hér lögð fram brtt., tekin á dagskrá með afbrigðum, brtt. frá ráðherra við stjfrv. eftir að nefnd hefur fjallað um það og nefndin á auðvitað heimtingu á því að fá að fjalla um þessa brtt. eins og aðrar brtt. og frv. sjálft. Fyrir því eru náttúrlega mörg fordæmi að mál hafi verið tekið til umfjöllunar í nefnd milli 2. og 3. umr. og það er auðvitað útilokað að formaður hv. samgn., hv. 2. þm. Norðurl. v., ég trúi því ekki að hann haldi til streitu þeirri afstöðu sinni að neita að kalla nefndina saman til þess að fjalla um þessa tillögu. Þessi tillaga lætur svo sem ekki mikið yfir sér en hún opnar fyrir víðtæka heimild til þess að það sé hægt að nota Hafnabótasjóð í sameiningarmútur sveitarfélaga. Þetta er langt seilst og ég tel það álitamál hvort þetta eigi að vera hlutverk Hafnabótasjóðs alveg eins og sameiningaráráttan kemur fram í hinum sértæku aðgerðum sem ríkisstjórnin fyrirhugar við Vestfirði. Þar á að setja sum byggðarlög hjá að mér skilst (Forseti hringir.) ef þau ekki vilja sameinast öðrum. Ég tel sem sagt að það sé útilokað, frú forseti, annað en að verða við þeim óskum sem hér hafa komið fram að nefndin fái tækifæri til þess að fjalla um þetta mál hvort sem það er gert í dag eða á morgun eða hvenær sem er og útilokað að ljúka þessari umræðu á þessu stigi.