Jarðalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:59:06 (4832)


[14:59]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu, frv. til laga um breytingu á jarðalögum, er eitt af mörgum vandræðamálum sem fylgt hafa í kjölfar aðildar Íslands að svokölluðu Evrópsku efnahagssvæði. Með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði voru sérréttindi íslenskra ríkisborgara í mörgum greinum afnumin. Þetta á við hin ýmsu lög sem veittu íslenskum ríkisborgurum forgang umfram erlenda borgara.
    Vissulega er ekki víst að hætta sé á ferðum í öllum slíkum tilvikum, en þó hafa menn sérstaklega staðnæmst við að hér gæti verið mikil hætta á ferðum þar sem er annars vegar kaup og sala á fasteignum, landi og náttúrugæðum, en einnig viðskipti með orku og aðrar auðlindir, svo og aflaheimildir og framleiðslutæki í sjávarútvegi. Í stað þess að hafa skýran fyrirvara í samningnum hvað varðar viðskipti með fasteignir og land, þá valdi hæstv. ríkisstjórn þá leið að boða lagasetningu sem átti að tryggja það að ekki yrði hætta á ferðum að erlend stórfyrirtæki keyptu upp land í stórum stíl á Íslandi.
    Það hefur hins vegar liðið alllangur tími síðan vilyrði voru gefin um að slík lög yrðu sett án þess að mál hafi mikið skýrst. Óhætt er að segja að þetta vandræðamál hefur mjög flækst fyrir núverandi ríkisstjórn. Eins og öllum er kunnugt var samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði afgreiddur hér á Alþingi á fyrri hluta síðasta árs og hafði reyndar verið talað um það að lagasetning af þessu tagi yrði þá þegar fyrir hendi og afgreidd, þ.e. á árinu 1992. Það kom fram frv. um þetta efni í nóvembermánuði 1992 og héldu menn þá að málið yrði tekið fyrir og afreitt, en á seinasta þingi fór svo að aldrei var mælt fyrir frv., það

aldrei tekið til umræðu á þinginu og þar af leiðandi aldrei sent til nefndar.
    Frv. er svo aftur lagt fram á sl. hausti, þ.e. nánar tiltekið 9. nóv. 1993 og er fyrst nú í marsmánuði mælt fyrir frv. Ég held að það hljóti að vera misskilningur hjá hv. seinasta ræðumanni að frv. hafi tekið einhverjum breytingum frá því sem var þegar það kom fyrst fram í nóvember 1992. Eftir því sem ég sé best, þá er frv. flutt óbreytt. ( Landbrh.: Það er flutt óbreytt.) Ráðherra staðfestir það hér og nú með orðum sínum, enda er það meira að segja svo að í athugasemdum við 1. gr. er tekið til orða eins og EES-samningurinn hafi alls ekki verið samþykktur sem að sjálfsögðu flokkast undir misritun og stafar af því að frv. hefur ekki neitt breyst frá því að það var flutt fyrir einu og hálfu ári síðan.
    Nú er talað um það að málið verði til skoðunar hjá Alþingi og gefið undir fótinn um það að þetta sé það sem lengst sé hægt að ganga, en að sjálfsögðu sé hægt að tálga eitthvað af þeirri girðingu sem hér er verið að setja upp. Vel má vera að svo sé. En hitt held ég að sé flestum ljóst að sú lausn sem menn eru hér að kynna er heldur vandræðaleg. Það er verið að opna leið fyrir erlenda ríkisborgara til að kaupa upp land en það kostar aftur hitt að það er verið að loka leiðum fyrir íslenska ríkisborgara til að kaupa land. Það er verulega verið að þrengja aðstöðu Íslendinga til þess að eignast land og mun það vafalaust hafa sínar afleiðingar. Afleiðingarnar gætu orðið þær að land yrði verðminna og verr nýtt og ég er ekki í neinum vafa um það að sú lausn sem hér er gerð grein fyrir á eftir að vekja mikla óánægju. En þetta stafar af því að ekki var settur skýr fyrirvari hvað varðar landakaup útlendinga heldur valin sú leið að reyna að bjarga málinu í horn með innlendri lagasetningu sem síðan virðist ætla að ganga nokkuð úr böndum og tíminn líður án þess að mál skýrist eða séu tekin föstum tökum.
    Ég hef ekki orðið var við að bændasamtökin hafi tekið skýra afstöðu til þessa máls. Í öllu falli kemur það ekki fram í greinargerð frv. og mér er alveg óljóst hvaða augum bændur líta á þetta mál. Ég hygg að þeir hafi á tilfinningunni að þetta sé vandræðamál. En hvort þeir vilja samþykkja það í þessu formi eða ekki er mér ekki alveg ljóst. Ég ætla því að bíða með að taka afstöðu til þessa máls og þeirrar lausnar sem hér er kynnt þar til ég hef átt þess kost að ræða málið við hagsmunaaðila og sjá umsagnir bændasamtakanna um það. Ég tel hins vegar að það eigi ekki og megi ekki dragast miklu lengur en orðið er að málið sé tekið föstum tökum og menn ræði það til botns hvort menn vilja una lausn af þessu tagi og fagna því að nú loksins er málið tekið fyrir og mælt fyrir því einu og hálfu ári eftir að það var hér fyrst flutt.