Skipun nefndar til að kanna útlánatöp

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 15:16:14 (4834)


[15:16]
     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 272 um skipun nefndar til að kanna útlánatöp innlánsstofnana, fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og Byggðastofnunar.
    Ég hefði kosið að annað hvort fjmrh. eða viðskrh. væru viðstaddir umræðuna og vil að það komi fram að mér finnst það ekki goðgá að ráðherrar sitji stundum á ráðherrabekknum og hlusti á þingmenn mæla fyrir sínum málum. Ég tel að það væri fyllsta ástæða til.
    ( Forseti (VS) : Forseti vill taka fram að hún hefur sent boð til hæstv. fjmrh. um að hann verði viðstaddur umræðuna.)
    Ég þakka forseta fyrir það. Ég ætla hins vegar að hefja mína framsögu fyrir þessu máli þó fjmrh. sé ekki kominn. Ástæðan er einfaldlega sú að þetta mál hefur verið a.m.k. þrisvar ef ekki fjórum sinnum á dagskrá þingsins og staðið út af á fimmtudegi þegar þingfundum hefur verið lokið og ég vil ekki bíða

öllu lengur með mál sem er búið að liggja svo lengi í þinginu.
    Frv. fjallar sem sagt um það að við leggjum til að það verði skipuð nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana, fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og Byggðastofnunar.
    Aðdraganda þessa máls má rekja til sl. vors þegar Alþingi samþykkti lög sem heimiluðu ríkisstjórninni að veita Landsbankanum tiltekinn stuðning til að bæta eiginfjárstöðu bankans. Í þeirri umræðu vaknaði m.a. sú spurning hver væri ábyrgð bankastjórnenda á þeirri stöðu sem þá var uppi í bankakerfinu. Lýstum við kvennalistakonur því þá sem okkar skoðun að full ástæða væri til að fara ofan í þau mál og kanna orsakirnar fyrir útlánatöpum bankanna. Með öðrum orðum að skoða útlán bankans á umliðnum árum. Vísuðum við m.a. til þess að sambærilegar kannanir hefðu verið gerðar á öðrum Norðurlöndum. Þá vísaði hæstv. forsrh. þessari hugmynd á bug m.a. á þeim forsendum að bankakreppan hér á landi væri allt annars eðlis en á hinum Norðurlöndunum.
    Reyndar eru þessi rök forsrh. ekki nema að litlu leyti rétt enda eru mörg einkenni kreppunnar hér sameiginleg og í raun alþjóðleg, eins og rakið er í grein eftir Ragnar Hafliðason í 1. tölublaði Fjármálatíðinda 1993. Það er t.d. sameiginlegt einkenni að höft á lánamörkuðum hafa smátt og smátt verið afnumin, þó aðallega á níunda áratugnum. Í kjölfarið sigldi mikið framboð á lánsfé og aukin skuldsetning bæði heimila og fyrirtækja. Frá því að auknu frjálsræði var komið á á íslenskum lánamarkaði um miðjan síðasta áratug hafa heildarútlán lánakerfisins aukist jafnt og þétt og á árinu 1993 námu þau 190% af vergri landsframleiðslu en námu 120% árið 1984. Á síðustu tíu árum hafa skuldir atvinnuveganna aukist um 40% að raungildi og skuldir heimilanna tæplega fjórfaldast. Þessi skuldsetning gerðist þrátt fyrir þá staðreynd að aukið frelsi banka og sparisjóða til að ákveða útlánsvexti árið 1984 leiddi þá þegar til verulegrar hækkunar vaxta. Enn frekari hækkun varð svo þegar vextir voru gefnir frjálsir árið 1987. Það ár hækkuðu vextir verðtryggðra bankalána úr 6% í upphafi árs í 9,5% undir lok ársins og hafa í grófum dráttum haldist þar síðan.
    Útlánaaukningin átti m.a. rætur að rekja til kaupa og bygginga á fasteignum, sérstaklega atvinnuhúsnæði, en með niðursveiflunni í efnahagslífinu hefur fasteignaverð á atvinnuhúsnæði lækkað verulega og sums staðar er það verðlítið eða verðlaust. Bæði í Svíþjóð og Finnlandi hefur þetta átt stóran þátt í tapi bankanna og mér segir svo hugur um að þær séu ekki ófáar fasteignirnar sem bankarnir hér á landi sitja uppi með og geti ekki gert sér neinn pening úr.
    Í Noregi telja menn að hluta af skýringunni sé að leita í skorti á virku bankaeftirliti. Hefur norska bankaeftirlitið verið gagnrýnt fyrir að vara ekki fyrr við þeirri þróun sem var undanfari bankakreppunnar. Finnst mér fyllsta ástæða til að athuga hvort svipað er upp á teningnum hér á landi, þ.e. hvort bankaeftirlit Seðlabankans hefði átt að nema og vara fyrr við hættumerkjum og veikleikum í útlánaframkvæmd innlánsstofnana.
    Fram til ársins 1990 virðast útlánatöp íslenskra innlánsstofnana hafa verið heldur lítil borið saman við önnur lönd. Síðan hefur sigið verulega á ógæfuhliðina hér á landi og mikil útlánatöp og rekstrarerfiðleikar hafa verið hjá innlánsstofnunum og fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna. Á síðustu fimm árum hafa innlánsstofnanir lagt samtals 18,9 milljarða kr. á afskriftareikning og fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna 16,3 milljarða kr. Hámarki náði þetta árið 1991 og 1992 en hvort árið um sig lögðu innlánsstofnanir og fjárfestingarlánasjóðir samtals um 9,5 milljarða kr. inn á afskriftareikning. Þá lagði Byggðastofnun og Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina (nú atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar) 5,5 milljarða kr. inn á afskriftareikning útlána á árunum 1988--92 en tölur fyrir árið 1993 liggja ekki fyrir. Hæst var framlagið árið 1991 en hjá Byggðastofnun nam það 1 milljarði 930 millj. kr. það ár og hjá atvinnutryggingardeild 1 milljarði 775 millj. kr. Var framlagið m.a. aukið samkvæmt ábendingu Ríkisendurskoðunar sem komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu í ágúst 1991 að framlög í afskriftasjóðina hefðu fram til þess tíma ekki verið nógu há og væntanleg útlánatöp vanmetin.
    Þegar allt þetta er saman tekið, þ.e. framlög innlánsstofnana, fjárfestingarlánasjóða og Byggðastofnunar á afskriftareikning á sl. fimm árum, er um að ræða rúmlega 40 milljarða kr. á síðustu fimm árum sem að stærstum hluta er tapað fé. Skrifað og sagt, 40 milljarðar kr. Í því sambandi má geta þess að þetta eru rúmlega 600 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu eða um 150 þús. kr. á ári og munar um minna.
    Kostnaðinn af þessum útlánatöpum greiðir fólkið í landinu nú þegar í formi vaxtamunar á inn- og útlánum sem hefur átt sinn þátt í því að halda uppi háum raunvöxtum. Þarf varla að tíunda hér hvaða áhrif heljargreipar hárra vaxta hafa almennt haft á stöðu fyrirtækja og heimila í landinu og þar með þjóðarbúsins í heild sinni.
    Kostnaður vegna tapaðra útlána hefur jafnframt verið greiddur með beinum fjárframlögum úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna --- ríkissjóði. Þannig samþykkti Alþingi síðasta vor lög sem heimiluðu ríkisstjórninni að veita Landsbankanum stuðning, allt að 4,25 milljörðum kr., til að tryggja eiginfjárstöðu bankans. Ríkissjóður lagði bankanum til 2 milljarða kr. sem eigið fé, Seðlabankinn veitti 1,25 milljarða kr. víkjandi lán og Tryggingasjóði viðskiptabanka er heimilt að veita allt að 1 milljarðs kr. lán. Þá hefur tryggingasjóðum banka og sparisjóða verið veitt ríkisábyrgð fyrir 3 milljarða kr. láni og heimilað að veita bönkum og sparisjóðum víkjandi lán í því skyni að styrkja eiginfjárstöðu þeirra. Þá er skemmst að minnast þess að árið 1991 létti ríkissjóður af Byggðastofnun skuldum að fjárhæð 1,2 milljörðum kr. samkvæmt heimild í lánsfjárlögum 1991.
    Þá má geta þess að það er sameiginlegt öllum fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna, ef frá er talinn Verslunarlánasjóður og erlendar skuldir Fiskveiðasjóðs, að ríkissjóður ábyrgist sjálfkrafa skuldbindingar þeirra. Það gildir því sama um þá og viðskiptabankana --- fari allt á versta veg verður reikningurinn lagður fram á Alþingi til greiðslu úr ríkissjóði.
    Án efa eru ýmsar samverkandi ástæður fyrir miklum útlánatöpum og auðvitað liggur stór hluti vandans í þeirri slæmu stöðu í efnahags- og atvinnumálum sem hér hefur ríkt á undanförnum árum. Það má reyndar geta þess hér að á Norðurlöndunum segja menn að það séu þrjár meginástæður fyrir því hvernig farið hefur í bankamálunum og fyrir bankakreppunni. Svo ég sletti ensku þá segja þeir að það sé ,,bad luck, bad policy and bad banking``. Það er spurning hvort það sama eigi við hér á landi að það séu þessar þrjár samverkandi ástæður, þ.e. óheppni, slæm stjórnmálastefna og slæmur rekstur banka.
    Um þetta efni hafa verið skrifaðar fjölmargar greinar í blöð og tímarit og bent á ýmsa orsakavalda. Þá skilaði nefnd sem skipuð var af ríkisstjórninni til að gera úttekt á svokölluðum fortíðarvanda, áfangaskýrslu um fjárhagsvanda Byggðastofnunar, Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina og Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar. Að mati flutningsmanna þessa frv. eru þessi skrif og skýrslugerð þó ekki fullnægjandi. Til þess eru vítin að varast þau og þess vegna nauðsynlegt að skoða þessi mál ofan í kjölinn, ekki síst þegar haft er í huga hvað útlánatöpin hafa verið mikil og íþyngjandi fyrir þjóðarbúið. Er tæplega hægt að láta hjá líða að rannsaka hvort þessi útlánatöp megi að einhverju leyti rekja til þess að um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða milli lánveitenda annars vegar og helstu skuldunauta þeirra hins vegar. Má í því sambandi geta þess að sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar bæði í Svíþjóð og Noregi í kjölfar bankakreppunnar þar.
    Í Svíþjóð hafa bæði uppsagnir og málaferli gegn stjórnendum bankanna siglt í kjölfarið. Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 30. des. sl. var t.d. sagt frá því að átta fyrrverandi stjórnendum sænska Götabanken hefði verið stefnt fyrir rétt fyrir afglöp í starfi. Er krafist jafnvirðis tæpra 3 milljarða íslenskra kr. í skaðabætur fyrir töpuð útlán sem þeir eru taldir bera ábyrgð á. Í sömu frétt var sagt frá því að fimm stjórnendur Nordbanken hafi fallist á að greiða sænska ríkinu samtals um 140 millj. íslenskra kr. í skaðabætur fyrir afglöp í starfi. Viðurkenna þeir að bera ábyrgð á milljarða kr. tapi Nordbanken með ábyrgðarlausri lánapólitík og slöku eftirliti með skuldunautum.
    Í umræðum um útlánatöp hér á landi hafa einstakir ráðherrar, þingmenn og reyndar skýrsluhöfundar látið að því liggja að innlánsstofnanir, fjárfestingarlánasjóðir og Byggðastofnun hafi sýnt gáleysi í útlánum og í mörgum tilfellum veitt lán vegna þrýstings frá stjórnvöldum. Slíkar ásakanir eru mjög alvarlegar en um leið algerlega óábyrgar ef rétt stjórnvöld láta þær sem vind um eyru þjóta. Flutningsmenn frv. vilja ekki una því og leggja því til að þessi þáttur málsins verði skoðaður sérstaklega.
    Þrjú nýleg dæmi eru um slíkar ásakanir. Í fyrsta lagi kom fram nokkuð afdráttarlaus gagnrýni á pólitísk afskipti stjórnvalda í skýrslu nefndar um fortíðarvanda ríkissjóðs sem út kom í desember 1991. Þar segir, m.a. um Framkvæmdasjóð Íslands, sem þá var enn starfandi:
    ,,Nefndin telur að afskipti stjórnvalda af útlánum sjóðsins hafi leitt til þess að afkoma hans varð verri en ella hefði orðið. Stjórnvöld geta ekki vikist undan ábyrgð af afskiptum sínum og þrýstingi á stjórn sjóðsins.``
    Um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og Hlutafjársjóð Byggðastofnunar segir:
    ,,Talið er að hagræðingarhlutverk sjóðanna hafi verið vanrækt af stjórnendum þeirra. Engar hagræðingarkröfur, svo sem um sameiningu og samvinnu fyrirtækja í sjávarútvegi, voru settar sem skilyrði fyrir aðstoð sjóðanna. Ef svo hefði verið gert er það álit nefndarmanna að stórlega hefði mátt draga úr þeirri áhættu sem fylgdi aðgerðum sjóðanna og þar með þeim fjárhagsvanda sem þeir standa frammi fyrir.``
    Við 1. umr. um fjárlög í vetur gagnrýndi fjmrh. stjórnendur Byggðastofnunar fyrir frjálsleg útlán og sagði þá, með leyfi forseta:
    ,,Mér finnst í fullri alvöru, og ég er ekki að gagnrýna einn eða neinn í því sambandi, að stjórnendur Byggðastofnunar, þar á meðal stjórnarmenn kjörnir af Alþingi, skuldi hinu háa Alþingi nokkrar skýringar á gerðum sínum.``
    Þetta sagði fjmrh. Og hann hélt áfram:
    ,,Ég hygg að almenningur taki eftir því þegar þarf að afskrifa kannski hjá einu fyrirtæki hálfan milljarð. Ég er hræddur um að það hefði eitthvað sungið í ýmsum ef ríkisstjórnin hefði átt í hlut.``
    ( JSG: Þetta var fyrir aðgerðir á Vestfjörðum.) Þetta var fyrir aðgerðir á Vestfjörðum, það er rétt. Það kann að kveða við annan tón hjá hæstv. fjmrh. núna en við getum ekki spurt hann þar sem hann er ekki staddur hér. En hann segir áfram:
    ,,Ég ætla því ekki að gagnrýna neinn en menn verða að átta sig á að það er búið að moka miklum fjármunum inn í Byggðastofnun. Og mér finnst nú að þeir sem þar hafi stjórnað hafi verið býsna duglegir við að moka þeim síðan út og því miður hafa heimtur í mörgum tilvikum ekki verið góðar.``
    Þetta sagði hæstv. fjmrh. í umræðum um fjárlög í vetur.
    Hv. 1. þm. Vestf. og stjórnarformaður Byggðastofnunar brást ókvæða við þessu og sagði í viðtali við fréttastofu sjónvarps að þarna væri um ,, . . .  getsakir og rugl að ræða í fjmrh.`` Þá sagði hann að fjmrh. væri  ,, . . .  nær að líta sér eitthvað nær í fjmrn. sjálfu``, eins og formaðurinn sagði. ,,En Ábyrgðarsjóður

fiskeldis væri líklega dýrasta lánastofnun sem til væri í veröldinni. Þar væri fjármagnskostnaður á milli 27 og 30%.`` Þarna gengu sem sagt ásakanirnar á víxl.
    Í þriðja lagi er svo skemmst að minnast hnútukasts á milli hæstv. viðskrh. og sjútvrh. í fjölmiðlum í vetur í framhaldi af gagnrýni sjútvrh. á bankana á aðalfundi Sambands fiskvinnslustöðva. Sagði sjútvrh. að lélegur rekstur þeirra, ónóg hagræðing og gáleysisleg útlán hefðu leitt til mikilla útlánatapa og hárra raunvaxta.
    Þetta eitt er út af fyrir sig alvarleg ásökun á stjórnendur bankanna og full ástæða til að taka hana alvarlega þegar í hlut á ráðherra í ríkisstjórninni.
    Hæstv. viðskrh., sem er ráðherra bankamála, brást við þessu með eftirfarandi hætti í Morgunblaðinu þann 27. sept. sl. Með leyfi forseta vitna ég í Morgunblaðið:
    ,,Sighvatur Björgvinsson viðskiptaráðherra sagði við Morgunblaðið að það mætti til sanns vegar færa að bankar þyrftu að hagræða meira í rekstri, hefðu verið of djarfir í lánveitingum og skapað sér erfiðleika af þeim sökum. En hinn ágæti sjávarútvegsráðherra gleymir því að meiri hlutinn af þessum lánum hefur farið til fyrirtækja í sjávarútvegi, í mörgum tilvikum fyrir beinan eða óbeinan þrýsting frá stjórnvöldum, m.a. honum sjálfum.`` Þar er hann að vitna beint í persónu sjútvrh. að það hefði verið beinn og óbeinn þrýstingur frá honum að veita lán sem síðan hefðu tapast. Þarna gengu sem sagt ásakanirnar líka á víxl á milli þessara tveggja ráðherra. Með þessum hætti hafa stjórnmálamenn vísað ábyrgðinni hver á annan á undanförnum missirum og látið þar við sitja. Enginn hefur í raun axlað hana og ekkert hefur verið gert til að komast til botns í því hvar og hjá hverjum ábyrgðin liggur.
    Eins og fyrr sagði vilja flm. ekki una þessu lengur og leggja því til að sett verði á fót fimm manna nefnd til að kanna útlánatöp helstu innlánsstofnana, fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og Byggðastofnunar á undanförnum árum. Nefndin kanni bæði viðskiptalega og pólitíska þætti málsins, þar á meðal hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða. Í frv. er það lagt í hendur nefndarinnar að ákveða hversu langt árabil hún skoðar og hún metur þar af leiðandi sjálf lengd þess tímabils sem mestu skiptir í þessu sambandi.
    Gert er ráð fyrir að nefndin hraði störfum og skili skýrslu um málið til viðskrh. sem gerir Alþingi grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar.
    Um ástæður þess að hér er valin sú leið að flytja frv. til laga um skipun slíkrar rannsóknarnefndar er það að segja að flutningsmenn töldu mjög mikilvægt að nefndin ætti sér stoð í lögum. Þær tillögur sem hingað til hafa verið fluttar á Alþingi um skipan rannsóknarnefnda hafa flestar stuðst við 39. gr. stjórnarskrárinnar, en þar er að finna heimild til Alþingis til að skipa þingnefndir til að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða. Flutningsmenn tillögunnar vildu ekki fara þá leið, enda mætti þá segja að þingmenn væru farnir að rannsaka sjálfa sig. Í því sambandi má benda á að bankaráðin hljóti að koma til sérstakrar skoðunar auk þess sem lagt er til í 3. gr. frv. að nefndin kanni sérstaklega hvort stjórnvöld eða aðrir aðilar hafi í einhverjum tilvikum beitt óeðlilegum pólitískum þrýstingi eða hagsmunatengslum til að greiða fyrir lánveitingum.
    Það var því ákveðið að fara sömu leið í þessu máli og gert var í svokölluðu Hafskipsmáli, en þá voru samþykkt lög á Alþingi um skipun nefndar til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. Þeirri vinnu lauk með skýrslu til viðskrh. í nóvember 1986 en niðurstöður hennar voru í stuttu máli þær að lánafyrirgreiðslan við Hafskip hafi hvorki verið í eðlilegu samræmi við starfsemi í þágu fyrirtækisins né eiginfjárstöðu þess og tryggingu fyrir skuldum hafi verið mjög ábótavant. Þá var lánafyrirgreiðslan heldur ekki talin í eðlilegu samræmi við eiginfjárstöðu Útvegsbankans. Var miklum aðgæsluskorti af hálfu Útvegsbankans m.a. kennt um hversu viðskiptin fóru öll úr skorðum.
    Þó að fyrirmyndin að nefndarskipaninni sé sótt í Hafskipsmálið er ekki þar með verið að leggja tap Útvegsbankans á sínum tíma og útlánatöpin núna að jöfnu. Þá var um eitt afmarkað mál að ræða, gjaldþrot eins tiltekins fyrirtækis, en nú er um víðtækt ástand að ræða og gjaldþrot fjölmargra fyrirtækja. Eftir stendur að ýmislegt bendir til að forráðamenn innlánsstofnana og fjárfestingarlánasjóða hafi ekki sýnt þá aðgát í meðferð fjármuna sem þeim ber og sem eigendur fjármunanna, almenningur í landinu, á kröfu á.
    Um einstakar greinar frv. er það að segja að í 1. gr. er lagt til að viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands tilnefni einn mann, en Ríkisendurskoðun og Hæstiréttur Íslands tvo menn hvor í nefndina. Annar fulltrúi Hæstaréttar verði jafnframt formaður nefndarinnar. Með helstu innlánsstofnunum er átt við alla viðskiptabankana og stærstu sparisjóðina, svo sem Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Sparisjóð Hafnarfjarðar, Kópavogs, Keflavíkur og Sparisjóð Mýrasýslu. Rannsókn nær með öðrum orðum ekki bara til ríkisbankanna heldur líka til hlutafélagabanka og sparisjóða.
    Nú kann vel að vera að einhverjum þyki óeðlilegt að ríkið sé að hlutast til um rekstur einkafyrirtækja, svo sem hlutafélagabanka, en þá er þess að gæta að lög um viðskiptabanka og bankaeftirlit horfa eins við viðskiptamönnum allra banka. Þá vil ég benda á grein Ragnars Hafliðasonar í Fjármálatíðindum sem ég gat um áðan, en þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Almennt er viðurkennt að opinber stjórnvöld séu ábyrg fyrir því að fjármálakerfið starfi á eðlilegan hátt. Seðlabanki hvers lands er ábyrgur fyrir því að styðja við banka sem lenda í lausafjárerfiðleikum og er þannig ,,lánveitandi til þrautavara`` (lender of last resort). Þegar um eiginfjárvandamál er að ræða er talið að ríkisvaldið sé ábyrgt fyrir því að mikilvægustu hlutar fjármálakerfisins starfi eðlilega þar sem

gjaldþrot t.d. stórs banka gæti haft keðjuverkun í för með sér, bæði innan efnahagskerfis landsins og gagnvart erlendum viðsemjendum. Þess vegna er ekki undarlegt að ríkisstjórnir þeirra þriggja landa sem hér um ræðir`` --- þar er hann að vísa í Noreg, Svíþjóð og Finnland --- ,,hafi gripið til víðtækra ráðstafana til að verja fjármálakerfið hruni í þeirri bankakreppu sem þar hefur riðið yfir.``
    Í 1. gr. frv. eru jafnframt sett skilyrði um hæfi sem nefndarmenn þurfa að fullnægja til að geta tekið sæti í nefndinni og mega þeir ekki vera verulega fjárhagslega tengdir þeim félögum, sjóðum og stofnunum sem lögin ná til. Það er svo viðskrh. að meta hvenær menn eru verulega fjárhagslega tengdir þeim aðilum sem lögin ná til. Þarna er verið að tala um verulega en auðvitað er ekki hægt að setja absalút kröfu um að þeir séu ekki fjárhagslega tengdir þessum stofnunum vegna þess að við vitum að flestir eiga ávísanahefti eða bankabækur og eru með þeim hætti fjárhagslega tengdir bönkunum en það eru svo óverulegir hagsmunir sem í því felast að það kemur ekki að sök.
    Í 2. gr. er hlutverk nefndarinnar afmarkað. Það er að kanna hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða í viðskiptum þeirra lánveitenda sem lögin taka til við helstu skuldunauta sem ekki hafa getað staðið í skilum með lán sín. Þá verði, eins og fyrr var sagt, jafnframt skoðað hvort töpuð útlán megi í einhverjum tilvikum rekja til þess að beitt hafi verið óeðlilegum pólitískum þrýstingi eða hagsmunatengslum til að greiða fyrir útlánum. Í hlutverki nefndarinnar felst að henni beri jafnframt að leggja mat á þau atriði sem undir verksvið hennar falla.
    Í 3. gr. eru heimildir nefndarinnar afmarkaðar og jafnframt kveðið á um að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skuli veita nefndinni aðstoð við upplýsingaöflun eftir því sem þörf er á. Þagnarskylda nefndarmanna tekur til þeirra upplýsinga sem þeir komast yfir við störf sín og ekki eru settar inn í skýrsluna --- sem yrði þá skilað til ráðherra --- en gildir eðli máls samkvæmt ekki gagnvart þeirri skýrslu sem nefndin skilar til viðskrh.
    Aðrar greinar frv. þarfnast ekki skýringar.
    Að lokum, virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og til skoðunar í hv. allshn.