Skipun nefndar til að kanna útlánatöp

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 15:38:45 (4835)


[15:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft nokkuð stóru máli og vekur kannski athygli að ekki fleiri þingmenn skuli vera viðstaddir og sjá ástæðu til þess að taka þátt í umræðu um það. Ég mun ekki fara hér ofan í einstakar greinar frv. en ræða miklu frekar almennt um stöðuna á íslenskum peningamarkaði og við hvaða aðstæður við búum þar.
    Hv. 1. flm. ræddi það hvort við kynnum að vera á leið inn í sömu bankakreppuna eins og hefur gengið yfir á hinum Norðurlöndunum. Nú hlýt ég að vona að svo sé ekki, að við tökum ekki dýfuna eins djúpt og þar var gert þó að vissulega séu ýmis einkenni hér svipaðs eðlis. Einmitt þessi þáttur í stjórn efnahagsmála, þ.e. peningakerfið og hvernig það vinnur með eða móti atvinnulífinu eftir atvikum, hefur að mínu mati orðið út undan í þeim breytingum sem hér hafa orðið á síðustu árum. Frá því 1989, og nú geri ég engan greinarmun á ríkisstjórnum, höfum við verið að ná ákveðnum tökum á vissum þáttum í efnahagslífinu, á verðlagsþróuninni en peningakerfið hefur orðið út undan með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir núna.
    Ég er þeirrar skoðunar að ein höfuðástæðan fyrir því hvernig ástatt er hjá okkur í dag sé sú að allt of hátt hlutfall af fjármagni í rekstri hér á landi sé lánsfé. Hlutföllin á því fjármagni sem fyrirtækin þurfa til að geta byggt sig upp og rekið sig eru einfaldlega snarvitlaus. Eigið fé er allt of lítið og í öðru lagi er skiptingin á lánsfénu þannig að maður sér í efnahagsreikningum nokkuð stórra fyrirtækja að meiri hluti lánsfjárins eru skammtímalán sem menn verða að velta á undan sér í það minnsta einu sinni á hverju ári með tilheyrandi kostnaði sem þýðir að hér á landi borga fyrirtæki miklu hærri vexti en í okkar nágrannalöndum einfaldlega út af því hvernig lánamarkaðurinn hér er samsettur.
    Þetta er þeim mun alvarlegra í okkar atvinnulífi þar sem við þurfum að takast á við markaðssveiflur eins og atvinnulíf alls staðar í iðnaðarlöndunum í kringum okkur sem okkur er með réttu eða röngu svo tamt að bera okkur saman við, en til viðbótar tekur efnahagslíf okkar náttúrulegar sveiflur beint inn á sig. Þar á ég við sveiflurnar í sjávarútveginum sem eru tengdar ástandinu í hafinu og fiskigengd. Við þær aðstæður þyrfti miklu hærra hlutfall af fjármagni fyrirtækja að vera í formi eigin fjár, hlutafjár eða annars eigin fjár sem gæti tekið á sig þessar sveiflur og menn beðið með ávöxtun þess þar til betur áraði.
    Við þessar aðstæður hafa menn verið að glíma á síðustu árum og út frá því eflaust oft á tíðum tekið ákvarðanir í stjórn peningastofnana sem orka vissulega tvímælis.
    Hv. flm. nefndi, ef ég tók rétt eftir, að 40 milljarðar væru tapað fé sem búið væri að leggja til hliðar í afskriftir og væri áætlað að þyrfti að leggja til hliðar í afskriftir á næstunni. Það er alveg rétt. Þessir 40 milljarðar eru til bókfærðir en þá varpa ég fram spurningu: Voru þessir fjármunir einhvern tíma til? Ég held ekki. Þessir 40 milljarðar eru að stórum hluta til komnir á þann hátt að gerð hefur verið krafa um ávöxtun fjármagns sem alls ekki er raunhæf. Það var engin verðmætasköpun á þessum árum í þjóðfélaginu til að standa undir þessum 40 milljörðum og við erum einfaldlega að fá það í höfuðið núna. Það er svo

aftur annað mál að lántakendur sem hafa staðið í skilum hafa verið rukkaðir fyrir þessa milljarða, þó svo, eins og ég sagði áðan, að engin verðmætasköpun hafi staðið á bak við þá. Það er ekkert mikið þó að eitthvað fari úr skorðum við þessar aðstæður.
    Í nágrannalöndum okkar virðast menn almennt vera að komast að þeirri niðurstöðu að raunávöxtun fjármagns geti aldrei orðið meiri en sem nemur vexti þjóðartekna. Ef menn ætla að fara að taka meira, þá eru menn einfaldlega að ganga á höfuðstólinn í atvinnulífinu og það hefnir sín fyrr eða síðar og það er einmitt að gerast hjá okkur núna. Með óhóflegri vaxtatöku síðustu árin höfum við verið að ganga á höfuðstól atvinnulífsins og það er það sem við stöndum frammi fyrir núna. Það er sá vandi sem öðru fremur hrjáir íslenskt atvinnulíf í dag.
    Það er svo annað mál, og það er angi af því sem hefur komið illa við bankastofnanir í nágrannalöndum okkar, að hér hefur trúin á steinsteypuna oft og tíðum verið nánast ótrúleg og forsvarsmenn bankastofnana og fjármálastofnana hafa talið að það væri allt í lagi bara ef hægt væri að setja steinsteypu að veði. Þetta er að mínu mati mikill misskilningur því að steinsteypa í sjálfu sér skilar engum arði nema innan þeirra steyptu veggja sé framleiðsla eða atvinnustarfsemi sem skili arði og geti fleygt okkur fram á við.
    Það er svo sérkapítuli í þessu öllu saman sá Vestfjarðaþáttur sem nú er í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það litla sem í það minnsta við stjórnarandstæðingar höfum séð af þeim aðgerðum þá er þar um að ræða aðgerðir sem eru sértækari en allt sem sértækt er nema, eins og einhver sagði, að í ákveðnum landshlutum séu menn bara svona miklu almennari en annars staðar og þetta séu þá almennar aðgerðir eftir allt saman. En að öllu gríni slepptu, þá eigum við eftir að sjá framan í þær aðgerðir og væntanlega er það ástæðan fyrir því að hæstv. fjmrh. sér sér ekki fært að fylgjast með umræðunni að hann sé semja um það lagafrv. með hæstv. utanrrh. Verður afar fróðlegt að sjá þann gjörning þegar hann kemur fyrir augu okkar alþingismanna í þingsalinn. Mér býður í grun að það verði ansi lítið úr stóru orðunum um sértækar aðgerðir fyrri ríkisstjórna sem aldrei eigi að grípa til aftur þegar við sjáum þær tillögur á okkar borðum. Mér sýnist að þarna séu menn að ganga inn í þá sjálfsblekkingu í sjávarútvegi að með því að taka hundruð milljóna, eða ef þetta er útfært á allt landið milljarða, og setja inn í verst stöddu fyrirtækin og þá geti þar eftir allir unað glaðir við sitt og það verði allt saman í lagi og menn horfi fram hjá grundvallarþáttum eins og þeim að það sem við er að etja er fyrst og fremst samdráttur í veiðiheimildum, samdráttur í þorskafla sem við getum dregið á land. Og að við horfumst í öðru lagi, eins og ég sagði hér áðan, við þá milljarða sem búið er að setja í afskriftasjóði en aldrei var nein innstæða fyrir og við öfluðum aldrei, því miður.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa hér fleiri orð í þessu máli, en ég get út af fyrir sig tekið undir að það er ástæða til að könnun sem þessi fari í gang. En ég hef leitt að því nokkur rök að afar margir þættir standa þarna á bak við og hafa leitt af sér þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Hins vegar finnst mér verst að það sem er að gerast núna og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til núna, sem virðast eiga að vera mjög sértækar, segja mér að menn hafa engan lærdóm dregið af göngu síðustu ára ef menn trúa því í dag að vanda atvinnulífsins sé hægt að leysa með víkjandi lánum. Það vantar ekki meira lánsfé inn í íslenskt atvinnulíf í dag. Það vantar leiðir til þess að gera atvinnulífinu bærilegt að standa undir því lánsfé sem það hefur í dag og vísa mönnum leiðina út úr þeim ógöngum.