Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 16:37:55 (4843)


[16:37]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur gert hér ágæta grein fyrir nál. minni hlutans þannig að ég get sparað mér það að fara yfir það í einstökum þáttum en það eru þó ákveðin atriði sem mig langar aðeins til að drepa á. Ég hef að vísu gert það áður en núna við lokaafgreiðslu málsins langar mig til þess enn og aftur að reyna að vita hvort ég gæti fengið frekari og gleggri upplýsingar hvað varðar málið.
    Ég fagna því auðvitað að breyting var gerð á þeirri brtt. sem hér var lögð fram um hafnalög á þskj. 693 þar sem stóð m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Sjóðnum er heimilt að veita sérstaka styrki til að greiða fyrir stofnun hafnasamlaga eða sameiningu sveitarfélaga umfram það sem segir í 3. tölul.``
    Þarna var sem sagt verið að gefa Hafnabótasjóði heimild til þess að veita framlag til þess að sameina sveitahreppa þar sem engar hafnir voru til. Hvers konar ásókn er þetta í sameiningarmálunum? Er þarna ekki seilst einum of langt? Þess vegna fagna ég því auðvitað að það náðist samkomulag um miklu skýrara og afmarkaðra orðalag í þessum efnum og við styðjum það eins og það er nú orðið á þskj. 695. En þetta sýnir okkur hvernig allt þetta mál hefur þróast. Það er ljóst og ég held ég fari nokkurn veginn rétt með það að breytingartillögurnar sem búið er að gera við þetta mál munu líklega losa 30. Þannig að það var vissulega verk að vinna.
    En núna við lok afgreiðslu langar mig til að gera enn eina tilraun til þess að spyrja hæstv. samgrh., sem ég vona að sé hér og heyri mál mitt, hvort hann geti engan veginn fallist á það að hér sé vægast sagt óljóst að orði kveðið þar sem segir í brtt. á þskj. 677 frá meiri hluta samgn., þar sem talað er um þetta 25% álag á vörugjald:
    ,,Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu, þar á meðal hversu oft það getur lagst á sömu vörusendingu . . .  `` Ráðherra á sem sagt að ákveða það hversu oft gjaldið á að leggjast á ákveðnar vörusendingar. Ráðherra á að ákveða það hvort þetta vörugjald á að leggjast einu sinni á vöruna sem fer vestur á firði eða fjórum sinnum. (Gripið fram í.) Er það vitavonlaust verk að fá --- ég heyri það að hv. formaður samgn. segir úr sæti sínu að þetta sé rangt með farið, en hér stendur: ,,Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu og skil á gjaldinu, þar á meðal hversu oft það getur lagst á sömu vörusendingu.`` ( PJ: Það er hámark.) Hvað er hámark? Ég var að segja það og sagði ekkert rangt, hv. þm., ég sagði að það væri fært í vald ráðherrans að ákveða það hvort vörugjaldið ætti að leggjast einu sinni á vöruna sem færi til Vestfjarða eða fjórum sinnum. ( PJ: Gæti lagst fjórum sinnum.) Gæti lagst fjórum sinnum. Það er ekkert ofsagt í því.
    ( Forseti (GHelg) : Ég bið hv. þm. að vera ekki með samtöl í þingsalnum.)
    Að minnsta kosti ætti forseti að vita að það ætti ekki að gerast, hv. 6. varaforseti þingsins. En hann er fúsari til að ræða þetta mál hér úr sæti sínu heldur en við okkur úti í samgn. þingsins.
    En finnst hæstv. samgrh. þetta eðlileg málsmeðferð? Að við skulum færa honum það vald að ákveða hvort 25% álag á vörugjald skuli lagt einu sinni á vöruna sem flutt er út á land eða fjórum eða fimm sinnum? Því getur ekki hæstv. samgrh. fallist á þá einföldu ósk ef einhver meining er í þessu og einhver sanngirni og réttlæti að það sé tekið skýrt fram að óheimilt sé að leggja þetta vörugjald, 25% álagið, oftar en einu sinni á hverja vörusendingu. (Gripið fram í.) Auðvitað væri það best, hv. þm., að það væri aldrei lagt á en mér dettur ekki í hug að ætlast til þess að ríkisstjórninni detti það í hug, svo skattaglöð er þessi ríkisstjórn. En hvernig má það vera að hæstv. samgrh., þingmaður úr dreifbýliskjördæmi, skuli ekki geta fallist á að það sé kveðið skýrt á um það að óheimilt sé að leggja þetta 25% álag á nema einu sinni á hverja vörusendingu þannig að við sitjum við sama borð og aðrir hvað þessa skattheimtu varðar. Og því geri ég það einu sinni enn í umræðu um þetta mál að ég bið hæstv. ráðherra að koma hér upp og segja okkur hvernig hann ætlar að fara með þetta vald sitt sem honum er hér fært. ( JGS: Ráðherrann er kominn upp á Lágheiði.) ( Gripið fram í: Þá frestum við þessu máli.) Já, ég held að það væri þá ástæða til að fresta þessu máli ef hæstv. ráðherra er ekki hér við til þess að svara fyrirspurn.
    Það er annað sem mig langar einnig til þess að víkja að og vil eiga líka orðastað við hæstv. ráðherra um þar sem segir í 8. gr.:
    ,,Eigendur hafna samkvæmt lögum þessum eru sveitarfélög . . .  `` --- Síðan kemur: ,,Hafnir geta verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra.``
    Mér finnst þetta klúðursleg lagasetning frá Alþingi. Hvað erum við hér að tala um? Hvernig ætla menn að skýra þetta heima hjá sér og hvar sem menn eru spurðir? Um hvað er verið að tala? Um hvaða fyrirtæki? Hvaða fyrirtæki eru með starfsemi sem tengist starfsemi hafnanna? Ég þykist vita að menn séu að tala um m.a. fiskmarkaði, hafnirnar eigi að geta verið hluthafar í fiskmörkuðum. Ég skil að til þess muni menn ætlast. En þá spyr ég: Hvað með ferjur? Hvað með ferjuskip? Tengjast ekki ferjuskipin starfsemi hafnanna? ( StB: Hvað leggur hv. þm. til?) Ég held að höfundurinn sem grípur hérna fram í, höfundur frv. sem hefur verið lagt fram . . .
    ( Forseti (GHelg) : Ekki samtöl í salnum.)
     . . .  og unnið er af gæðingum ríkisstjórnarinnar --- og ekki veit ég hvað þeir höfðu marga mánuði

til þess að vinna þetta --- og þegar hafa verið gerðar á yfir 30 brtt., ætti að koma hér upp í ræðustólinn og nota tíma sinn þar til þess að ræða þetta mál frekar en úr sæti sínu. Til þess hefur hann allan rétt.
    En ég spyr: Tengist þetta einnig möguleikum til þess að eignast hlut t.d. í frystitogurunum? Vinnslunni í landi? Ég spyr um olíufélögin þar sem athafnasvæði olíufélaganna er á hafnarsvæðunum. Og ég spyr enn og aftur: Hvað er hér verið að tala um? Hvaða fyrirtæki eru það, sem ráðherrann er hér að tala um og höfuðsmiður þessa frv., sem tengjast starfsemi viðkomandi hafnar?
    Þegar ég sé hér hv. 1. þm. Vestf. þá spyr ég hann: Getur hann virkilega sætt sig við það að ráðherra samgöngumála hafi heimild til þess að ákveða hvort 25% álag á vörugjald skuli lagt einu sinni á vöruna sem hingað kemur til Reykjavíkur en fimm sinnum til Vestfjarða? Ég trúi því ekki að hv. 1. þm. Vestf. geti sætt sig við slíkt og þess vegna held ég að þetta mál væri betur komið aðeins lengur í meðferð þingnefndar til þess að við getum bætt um betur því eins og ég segi hafa þegar verið gerðar á frv. yfir 30 brtt. og ég held að enn sé stórlega hægt að laga þetta mál.
    En ég harma það, virðulegi forseti, ef hæstv. samgrh. fer burtu úr þingsalnum þegar þetta mál er tekið á dagskrá og getur alls ekki orðið við því að svara þeim fyrirspurnum sem ég hef borið fram og einnig hv. þm. Jóhann Ársælsson, talsmaður minni hluta nefndarinnar. Ég sé því enga ástæðu til annars en að hinkra við þangað til ráðherrann getur komið hér og svarað þeim spurningum sem við berum réttilega fram. Ég vil því biðja virðulegan forseta að sjá svo til að við fáum að eiga orðastað við ráðherran áður en þetta mál fer lengra.