Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 16:49:36 (4845)


[16:49]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. til hafnalaga er til 3. umr. og vil ég, virðulegi forseti, fagna því að frv. skuli vera komið til lokaafgreiðslu í þinginu. Og ég verð nú að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég vænti þess að það verði hægt að ljúka þessari umræðu hér því að svo rækilega hefur þetta mál verið skoðað í hv. þingnefnd og farið yfir öll atriði þess.
    Vegna orða sem hv. 4. þm. Norðurl. v. lét falla um að það hefðu verið gerðar margar breytingar á því frv. sem hér var lagt fram af hæstv. samgrh. þá vil ég geta þess að í engu er um að ræða verulegar efnisbreytingar. Í mjög mörgum tilvikum var um að ræða mismunandi smekk manna á orðalagi sem í rauninni var breyting á orðalagi núgildandi hafnalaga þannig að um verulegar efnisbreytingar á upphaflegu frv. var ekki að ræða.
    Ég vil við þessa umræðu fara nokkrum orðum um þær brtt. sem liggja fyrir við 3. umr. málsins og þá fyrst vil ég nefna þær brtt. sem meiri hluti samgn. flytur en þær eru á þskj. 395. Í fyrsta lagi var gerð sú breyting á 8. gr. frv. að þar var fellt út það ákvæði sem var í upphaflegu frv. þar sem var gert ráð fyrir að eigendur hafna gætu verið hlutafélög. Nú vil ég segja það að það var af minni hálfu aldrei sérstakt sáluhjálparatriði að þarna þyrfti endilega að vera þessi möguleiki. Hins vegar taldi ég og tel enn að það væri æskilegur kostur að hlutafélag gæti verið eigandi hafnar og það er í rauninni svo í dag. En vegna þess að fram kom í umræðum í nefndinni og reyndar hér við 2. umr. efasemdir um skattalega meðferð þá var ekki talin ástæða til að halda þessu til streitu og þess vegna er í þessum brtt. gert ráð fyrir því að eigendur hafna samkvæmt þessu frv. séu sveitarfélög.
    Í 2. lið var gerð breyting á 10. gr. þar sem fjallað er um setningu reglugerðar fyrir hafnirnar og ég vil taka það sérstaklega fram að þarna er gerð breyting á orðalagi til þess að uppfylla skilyrði vegna stofnunar hafnasamlaga svo að það væri ekki ástæða til þess að setja nema eina reglugerð fyrir hafnasamlögin þó að fleiri en ein höfn væri innan hvers samlags þannig að þar er verið að bregðast við þeim breytingum sem verða ef stofnuð verða hafnasamlög.
    Á þskj. 677 eru brtt. frá meiri hluta samgöngunefndar og það er um að ræða brtt. við 11. gr. frv. sem fjalla um það að ferjur og flóabátar sem njóta styrks samkvæmt vegalögum séu undanþegin vörugjöldum. Nú er að þannig að samkvæmt núgildandi lögum var gert ráð fyrir því að vörugjöld væru greidd af öllum flutningi sem færi um hafnir landsins. Hins vegar kom í ljós þegar verið var að fjalla um frv. í nefndinni að vörugjöld höfðu tæplega verið innheimt af flutningi ferju- og flóabáta og vegna þess að 25% álagið var sett á þá voru viðbrögð tiltekinna hafna þau að hefja innheimtu á vörugjaldinu sem hefði leitt til þess að ferjur og flóabátar sem njóta styrks úr Vegasjóði hefðu þurft að greiða vörugjöld og þá 25% álagið til viðbótar sem ferjurnar og flóabátarnir höfðu ekki gert áður. Af þessum ástæðum þótti nauðsynlegt að taka þennan þátt frv. sérstaklega til skoðunar og hafa það alveg á hreinu að það væru ekki greidd og yrðu ekki greidd vörugjöld af ferjum og flóabátum en hins vegar settur inn sérstakur liður, 8. liður í 11. gr., þar sem gert er ráð fyrir að sett séu með gjaldskrá sérstök ákvæði um hafnargjöld af ferjum og flóabátum. Ég tel að þetta sé eðlileg og mjög ásættanleg niðurstaða og vænti þess að svo verði og þetta

ákvæði nái hér fram að ganga.
    Í brtt. á þskj. 677 er eitt afar mikilvægt ákvæði þar sem er breyting á 24. gr. frv. Þar kemur inn 7. liður sem segir:
    ,,Tollaðstaða fyrir farþegaferjur er halda uppi reglulegum áætlunarsiglingum til landsins.``
    Þarna er um það að ræða að úr ríkissjóði sé heimilt að veita styrk til þess að byggja upp tollaðstöðu og það er ástæða til þess að undirstrika þetta sérstaklega þegar hv. 4. þm. Austurl. gengur í salinn vegna þess að þetta varðar sérstaka höfn á Austfjörðum en árum saman hefur verið reynt að fá fram styrk til þess að byggja upp tollafgreiðslu á Seyðisfirði. Það hefur ekki tekist og sá aðili sem hefur stundað áætlunarsiglingar til og frá landinu, skipulegar áætlunarsiglingar, orðið af eigin rammleik að byggja upp aðstöðu fyrir tollafgreiðslu þannig að lögleg íslensk yfirvöld gætu athafnað sig þegar straumur erlendra og innlendra ferðamanna fer um höfnina.
    Hv. samgn. taldi ástæðu til þess eftir að hafa gengið úr skugga um að ekki yrði úr bætt með öðrum hætti að taka þetta mál sérstaklega upp og ég vil vekja sérstaka athygli á því að fyrst við afgreiðslu hafnalaganna er tekið á þessu máli og vænti ég þess að þar með verði því lokið á viðunandi hátt fyrir þá aðila sem hafa af miklum dugnaði og elju stundað þennan atvinnurekstur sem hefur stóreflt ferðamannaþjónustu í landinu.
    Virðulegi forseti. Minni hluti samgn. hefur flutt brtt. við þetta frv. en ég tel ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um þær. Í fyrsta lagi er brtt. á þskj. 676 þar sem gerð er tillaga um breytingu á skipun hafnaráðs og tel ég ástæðu til þess vegna þess að ég var í þeirri nefnd sem samdi frv. að skýra það örlítið. Það sem vakir fyrir höfundum frv. þar er að þegar verða ráðherraskipti ( Gripið fram í: Hvenær verða þau?) þá geti viðkomandi ráðherra endurskipað að hluta í hafnarráði, þ.e. tvo af þeim þrem fulltrúum sem ráðherra skipar án tilnefningar en meginhugsunin var sú að í fyrsta lagi væri það ekki á valdi ráðherra hverju sinni hverjir sætu þarna fyrir hönd Hafnasambands sveitarfélaga þannig að það væri ekki eftir pólitískum geðþótta ráðherra hver sæti sem fulltrúi Hafnasambands sveitarfélaga í hafnaráði. Í öðru lagi töldum við að það væri eðlilegt að það væri skipað til fjögurra ára án þess að nýr ráðherra gerði þar á breytingu.
    Að hinu leytinu var talið eðlilegt að einn fulltrúi skipaður án tilnefningar af samgrh. væri skipaður til fjögurra ára og sæti sem fastur punktur í þessari tilveru og væri e.t.v. starfsmaður ráðuneytisins þannig að það væri tiltekinn stöðugleiki í hafnaráði og ég tel að það sé afar mikilvægt.
    Síðan er brtt. frá minni hluta samgn. sem fjallar um 8. gr. og hv. 4. þm. Norðurl. v. gerði að sérstöku umtalsefni og hefur reyndar gert það æðioft við þessa umræðu og sakna ég þess að hann skuli nú ekki vera hér í salnum og hlýða á mál mitt en það varðar það að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. Hvað er hér á ferðinni? Jú, í dag er það þannig að samkvæmt núgildandi lögum geta hafnir ekki verið eigendur að atvinnufyrirtækjum eða atvinnustarfsemi þannig að raun hefur verið um að ræða lögbrot á grundvelli núgildandi hafnalaga að hafnir eignuðust t.d. hlut í fiskmörkuðum. En það hefur verið afar mikilvæg þátttaka hjá höfnunum og hafnirnar hafa viljað með því undirstrika það hversu mikilvægt það er að sjávarútvegurinn hafi þróast með þeim hætti að fiskur færi á fiskmarkaði. Hins vegar er það og við teljum enga ástæðu til þess, meiri hluti samgn. og höfundar frv., að hefta hafnarstjórnirnar þannig að við viljum opna þann möguleika að það sé heimilt að hafnirnar séu eigendur í atvinnufyrirtækjum án þess að telja upp hvaða fyrirtæki það megi vera. Og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég treysti hafnarstjórnum og eigendum hafnanna alveg fyllilega til þess að velja þarna og hafna. Ég tel ekki líklegt að einstaka hafnarstjórnir velji þann kost að gerast hluthafar í einu af fjölmörgum samkeppnisfyrirtækjum, t.d. skipafélögum eða olíufélögum eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. nefndi hér alveg sérstaklega. En aðalatriðið er það að hafnarstjórnirnar hafi þennan möguleika án þess að það sé niður njörvað hvaða fyrirtæki njóti þess að hafnirnar megi gerast eigendur að þeim.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta atriði í brtt. minni hluta samgn. en ég tel enga ástæðu til þess að tína upp hvaða fyrirtæki megi koma þarna til greina.
    Síðan er í 3. lið brtt. minni hlutans gerð tillaga um breytingu á 11. gr. sem ég get ekki fallist á en þar er um það að ræða að þeir aðilar sem eiga hafnarmannvirki innan hafnarsvæða á því verði breyting frá núgildandi lögum og gjaldskrá, þeir séu undanþegnir hafnagjöldum. Það er þannig að víða hafa verið settar upp bryggjur. Þær bryggjur hafa síðan verið notaðar t.d. af Síldarverksmiðjum ríkisins eða þvílíkum aðilum en þær njóta að öllu öðru leyti þjónustu hafnarsvæðisins og ég vil bara vekja athygli hv. þm. meiri hluta samgn. á því að hafnarsvæðin eru meira en einstakar bryggjur. Það er innsigling, það þarf víða að dýpka vegna innsiglinga. Það þarf skjól sem er myndað með hafnarmannvirkjum og síðan er á landi byggð upp alls konar aðstaða, samgönguleiðir og annað því um líkt og sú þjónusta sem er veitt frá þessum einkabryggjum er veitt m.a. í skjóli þessarar mannvirkjagerðar að öðru leyti. Þess vegna hefur það verið niðurstaða að þeir sem eiga slíkar bryggjur verði að sætta sig við það að hafnirnar innheimti hafnargjöld eins og af umferð sem fer um aðra hluta hafnarsvæðisins. Þess vegna get ég alls ekki fallist á brtt. minni hlutans að þessu leyti.
    Í þessari umræðu hefur verið nokkuð deilt á það að 25% álag væri lagt á vörugjöldin og það er deilt um það á milli hafna og m.a. hafa verið mjög skiptar skoðanir innan Hafnasambandsins á þessu. Þess vegna vil ég, virðulegur forseti, vitna hér til texta, með leyfi forseta, sem mér hefur borist í hendur þar sem

er umfjöllun ágæts virts lögfræðings um þetta atriði þar sem hann gefur vandvirkum hafnarstjórnarmanni úti á landi umsögn um þetta ákvæði. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt minni athugun hefur þetta sérstaka álag á vörugjald tvíþættan tilgang. Annars vegar er augljóst að það mun verða til þess að aðstaða hafna er jöfnuð og mun sem slík verða til að bæta aðstöðu minni og meðalstórra hafna, sérstaklega á landsbyggðinni sem eru sérstaklega tekjulágar og hafa litla möguleika til að gefa afslætti. Hins vegar mun álagið verða tekjustofn ríkisins, sbr. lög nr. 1/1992, um sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ljóst má vera að tillagan um álagið er til hagsbóta fyrir flestar hafnir landsins.``
    Þarna kemst þessi ágæti lögmaður að sömu niðurstöðu og þeir sem hafa stutt þetta 25% álag á vörugjaldið. Það er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir litlu fiskihafnirnar allt í kringum landið sem njóta framlaga úr Hafnabótasjóði og munu njóta þess enn frekar eftir að þetta frv. til laga hefur náð fram að ganga. Og ég sakna þess nú satt að segja, virðulegi forseti, alveg sérstaklega að hv. 4. þm. Norðurl. v. skuli ekki hafa hlýtt á þennan texta vegna þess að sá hafnarstjórnarmaður sem á í hlut er úr hans kjördæmi.
    Í brtt. minni hluta samgöngunefndarinnar er síðan í 5. lið brtt. við 26. gr. Ég verð að segja alveg eins og er og ekki síst með tilliti til þess að þar er m.a. hv. 3. þm. Vesturl., þar er gerð tillaga um að breyta frv. á þann veg að lækka framlög til upptökumannvirkja skipa. Hv. 3. þm. Vesturl. gerir tillögu á þskj. 676 um að lækkað verði hlutfall í framlögum vegna upptökumannvirkja skipa og það verður satt að segja fróðlegt fyrir hv. þm. að skýra það fyrir kjósendum t.d. á Akranesi og mun ekki standa á mér að upplýsa þá um það. Þetta er út af fyrir sig afar athyglisvert, ekki síst vegna þeirrar stöðu sem skipasmíðaiðnaðurinn í landinu er í, þá skuli þingmenn gera tillögu um að ríkið minnki framlagið til upptökumannvirkja skipa frá því sem frv. það sem hér er til umfjöllunar gerir ráð fyrir. Frv. gerir ráð fyrir 60% hlutdeild en brtt. minni hlutans er um að þetta falli niður í 40% og verði eins og það er í núgildandi lögum sem við töldum ekki ástæðu til að væri þannig vegna þess að skipasmíðaiðnaðurinn þarf svo sannarlega á stuðningi og styrk að halda.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég tel að hér sé til afgreiðslu mjög mikilvægt frv. og ég fagna þeirri tillögu sem samgn. sameinaðist um að flytja hér í lokin þar sem gert er ráð fyrir því að Hafnabótasjóður geti veitt sérstaka styrki þegar um er að ræða stofnun hafnasamlaga eða sameiningu sveitarfélaga. Ég tel að þessi breyting sé mikilvæg og nauðsynleg og ég styð hana að sjálfsögðu.
    Ég ítreka það síðan bara, virðulegur forseti, að ég fagna því að þetta frv. skuli vera til lokaafgreiðslu og ég tel að það muni styrkja hafnirnar í landinu þegar til lengri tíma er litið alveg á sama hátt og það styrkir þær nú þegar og ég hef fært rök fyrir því og þá sérstaklega minni hafnir og þá einkum og sér í lagi hafnir í sjávarbyggðunum.