Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:13:06 (4847)


[17:13]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig get ég tekið undir það að ekki er ástæða til að fjölga skipasmíðastöðvum og ég tel að það séu engar líkur á því eins og allt er í pottinn búið á þeim vettvangi að það gerist. Hins vegar er það alveg ljóst að þær skipasmíðastöðvar sem eru til í landinu nú þegar þurfa endurbyggingar við og þær þurfa að fylgja kröfum tímans og þess vegna tel ég eðlilegt að það sé veittur styrkur úr ríkissjóði til skipasmíðastöðva að því leyti sem varðar upptökumannvirkin sem eru í eigu hafnarsjóðanna. Ég held að það sé mikilvægt innlegg fyrir þá hafnarsjóði sem standa að uppbyggingu skipasmíðaiðnaðarins með byggingu upptökumannvirkja að þeir fái styrk úr ríkissjóði. Ég tel að það sé þess vegna fullkomlega eðlilegt að það sé veittur styrkur sem nemur 60% af þessum kostnaði og það muni skila sér í sterkari fyrirtækjum sem stunda skipasmíðaiðnað vegna þess að hafnarsjóðirnir geta þá einbeitt sér að því að skapa skilyrðin þar sem þau eru til staðar í dag og muni með þeim hætti geta staðið betur við bakið á þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í viðkomandi höfnum.
    En varðandi það atriði sem hv. þm. nefndi síðast um skipun formanns í hafnaráð þá fer ég ekkert leynt með þá skoðun að ég tel nauðsynlegt að það sé nokkur stöðugleiki og góð tengsl milli samgrn. og hafnaráðsins og sé eðlilegt að formaður hafnaráðs sé starfsmaður þess ráðuneytis.