Verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:21:17 (4850)


[17:21]
     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 307 um að færa verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins til sveitarfélaga. Flm. eru Svanhildur Árnadóttir, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Árni Johnsen.
    Fyrsti flm. þessarar þáltill., hv. 5. þm. Norðurl. e., situr ekki lengur á þingi, var hér sem varamaður og mæli ég því fyrir þessari þáltill., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á með hvaða hætti megi færa verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins til sveitarfélaga.``
    Í greinargerð segir: ,,Í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, segir svo í kaflanum um sveitarstjórnarmál:
    ,,Sveitarfélögin verða efld og aðstaða þeirra til að veita íbúum sínum félagslega þjónustu bætt.`` Enn fremur segir: ,,Áfram verður unnið að tilfærslu verkefna og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga.``
    Tilfærsla verkefna frá Húsnæðisstofnun til sveitarfélaga er í samræmi við þessi markmið ríkisstjórnarinnar. Margt bendir til að slík tilfærsla njóti vaxandi fylgis í þjóðfélaginu og eru hér á eftir tilgreind dæmi þar um. Þingsályktunartillaga þessi er flutt í því skyni að fá fram vandaðar og ígrundaðar tillögur um breytta skipan mála varðandi hlutverk ríkis og sveitarfélaga á vettvangi húsnæðismála og um nauðsynlega tilfærslu tekjustofna í því sambandi.
    Núverandi kerfi hefur legið undir vaxandi gagnrýni, ekki síst af hálfu sveitarstjórna vegna mikils miðstýringarvalds Húsnæðisstofnunar, einkum á sviði félagslegra húsnæðismála. Ákvarðanir, sem varða hagsmuni og málefni einstakra sveitarfélaga, hvarvetna á landinu, og einstaklinga og fjölskyldna sem þar búa, eru teknar af sjö manna stjórn og embættismönnum einnar stofnunar í Reykjavík. Afgreiðsla mála þarf í ríkum mæli að fara fram í Húsnæðisstofnun þótt málefnið varði hin ýmsu byggðarlög og íbúa þeirra. Eðlilegt verður að telja að efasemdir komi fram um að stofnunin og stjórn hennar hafi forsendur til að meta aðstæður í hverju byggðarlagi.
    Gagnrýni af þessu tagi kemur greinilega fram í skýrslu nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 25. febrúar 1992 og falið var að meta reynsluna af framkvæmd laga nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir, og koma með tillögur til úrbóta ef nauðsyn krefði. Í skýrslu nefndarinnar, sem skilað var 19. maí 1993, er greint frá því að nefndin hafi haldið fundi með 27 húsnæðisnefndum víða um land og er í skýrslunni að finna greinargóða samantekt á viðhorfum sveitarstjórnarmanna og allmargar tillögur og ábendingar um umbætur sem m.a. eru byggðar á þessum viðtölum.
    Nefndin dregur saman meginniðurstöður sínar, svohljóðandi: ,,Greina má tillögur nefndarinnar í þrjá meginflokka:
    Í fyrsta lagi þá stjórnsýslulegu breytingu að sveitarfélög axli enn meiri ábyrgð, taki að sér fleiri verkefni en nú er. Húsnæðisstofnun dragi að sama skapi úr vinnu við einstök mál en beiti sér fremur að eftirliti, upplýsingum og fræðslu.
    Í öðru lagi að tekið verði upp sveigjanlegra fyrirkomulag, ekki síst með minni sveitarfélög í huga.
    Að lokum, tillögur og ábendingar um fjölmörg einstök atriði sem sum þarfnast lagabreytingar við en önnur einungis nýjar venjur við framkvæmd mála.``
    Sveitarfélaganefnd, skipuð 26. febr. 1992, segir í áfangaskýrslu sinni, Aukið hlutverk sveitarfélaga, dags. 22. okt. 1992, á bls. 68:
    ,,Stækkun sveitarfélaga skapar forsendur fyrir verulegri hagræðingu í félagslega húsnæðiskerfinu og eykur möguleika á því að vægi sveitarfélaga aukist til muna og að dregið verði úr eftirlitshlutverki Húsnæðisstofnunar. Hér má nefna eftirlit með úthlutun félagslegra íbúða (tekju- og eignarmörk), greiðslumark og kostnaðareftirlit. Stækkun sveitarfélaga gerir þeim kleift að verða í ríkara mæli sjálfum sér nóg um sérþekkingu í málaflokkum í stað þess að þurfa að leita til Húsnæðisstofnunar. Auk þess verður mögulegt að færa ýmis verkefni frá Húsnæðisstofnun til sveitarfélaganna. Ráðgjöf og uppgjör vegna byggingarkostnaðar eru dæmi um slíkt. Einnig kemur til álita að upphæð lána til sveitarfélaganna verði miðuð við fastar fjárhæðir frekar en fjölda íbúða. Aukið sjálfstæði um ráðstöfun lánanna gæti leitt til betri nýtingar fjármagns og jafnvel kaupa á fleiri íbúðum.``
    Eftir að niðurstöður kosninga um sameiningu sveitarfélaga 20. nóv. sl. lágu fyrir er ekki ljóst hver framvinda mála verður varðandi stækkun sveitarfélaga. Því er ekki unnt að binda flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga því skilyrði að svo komnu máli, enda má ætla að í einstökum málaflokkum sé unnt að koma á virku samstarfi sveitarfélaga eins og þegar hefur verið gert á mörgum sviðum víða um land.
    Húsnæðismál, ekki síst félagsíbúðamál, eru viðamikill málaflokkur og gæti reynst litlum sveitarfélögum ofviða að takast á við hann að öllu leyti án utanaðkomandi aðstoðar. Eins og málum er nú háttað geta sveitarfélögin leitað til Húsnæðisstofnunar og hafa reyndar í fá önnur hús að venda þegar þörf er

á ráðgjöf og aðstoð. Þetta hefur reynst vera svifasein þjónusta eins og fram kemur í umsögnum húsnæðisnefndanna sem um getur hér að framan. Vandamál lítilla sveitarfélaga á þessu sviði ætti að vera unnt að leysa með samvinnu við fleiri sveitarfélög og stærri.
    Nefnd sú, sem hér er lagt til að verði skipuð, þarf að kanna og leggja fram tillögur um með hvaða hætti verkefni verði færð frá Húsnæðisstofnun til sveitarfélaga, hver verkefnin yrðu, hvernig þau yrðu fjármögnuð, hvar vald og ábyrgð eigi að liggja, hvernig rétt sé að skipa samstarfi sveitarfélaga þar sem þess gerist þörf og hvert hlutverk Húsnæðisstofnunar eigi að vera að þessum breytingum gerðum. Afar mikilvægt er að nefndin verði þannig skipuð að sjónarmið lítilla og stórra sveitarfélaga nái að koma fram í starfi hennar og niðurstöðum.``
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki gera í lengra máli grein fyrir þessari till. til þál. Ég vænti þess að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til síðari umr. og félmn.