Verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:29:12 (4851)


[17:29]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er mælt fyrir gerir ráð fyrir því að dreifa þjónustu Húsnæðisstofnunar og færa hana nær fólkinu og er það markmið í sjálfu sér gott og gilt. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu enda fer hún til viðkomandi nefndar og ég hef þar tækifæri til þess að fjalla um hana á þeim vettvangi. Hins vegar vil ég minna á það af því það kemur ekki fram í greinargerðinni að í gangi er verkefni á vegum félmrn. um svokölluð tilraunasveitarfélög. Ég vil að það komi fram í þessari umræðu að það verkefni hefur tekið allmiklum breytingum. Það er vilji félmrn. að fjölga þeim sveitarfélögum verulega sem koma til greina sem tilraunasveitarfélög og svokölluð verkefnisstjórn ráðuneytisins hefur kynnt fyrir félmn. hugmyndir þar að lútandi. Einn af þeim þáttum sem þar hefur komið til greina um verkefni tilraunasveitarfélaga eru einmitt húsnæðismálin svo að maður spyr sig hvort þessi mál séu ekki komin dálítið á víð og dreif með skipun sérstakrar nefndar til að fjalla um þessi mál. Síðan er fjallað um þessi mál á vettvangi tilraunasveitarfélaga og síðan er sitjandi enn svokölluð sveitarfélaganefnd á vegum félmrn. sem m.a. hefur og á að fjalla um verkefnatilfærslu. Ég vildi aðeins minna á þetta áður en þessi tillaga, sem að efni til er góðra gjalda verð og markmiðið er gott og gilt, fer til nefndar að dreifa nú ekki þessum athugunum út um allt stjórnkerfið þannig að enginn viti af öðrum, að þessir þættir verði samræmdir aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli.