Verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:32:20 (4852)


[17:32]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örstutt um þetta mál. Ég leyfi mér að taka undir meginefni þessarar tillögu þó að ég taki reyndar undir málflutning síðasta ræðumanns um að það verði að passa upp á dreifa umræðum ekki of mikið og menn þurfa að gá vel að sér. Það liggja þegar fyrir hugmyndir um verkefnatilflutning út á land frá þessari stofnun og ég veit ekki hversu mikið þarf að skipa af nefndum til viðbótar í því máli.
    Ég vil samt taka undir þá meginhugsun sem þarna er að það megi flytja verkefni frá húsnæðismálastjórn út til sveitarfélaganna. Það er það sem þarna er verið að fjalla um. Mörg þau verkefni sem húsnæðismálastjórn annast nú falla alveg ágætlega að ýmsum verkefnum og að ýmsum málum sem er verið að leysa t.d. hjá sýslumannsembættum úti á landi þannig að það er út af fyrir sig kjörinn vettvangur til að taka á ýmsu sem þarna þarf að fara fram. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að bankar og sparisjóðir og sveitarstjórnir fara núna með og leysa ýmis mál sem tengjast Húsnæðisstofnun og það er auðvitað bara af hinu góða.
    Ég tek undir þetta vegna þess að ég held að það fari betur á að stjórn ýmissa mála sé úti á landi hjá heimamönnum, hjá aðilum sem þekkja glöggt til einstaklinga og málefna sem þurfa á fyrirgreiðslu að halda. Ég held að þetta liggi betur hjá einstökum stofnunum úti á landsbyggðinni heldur en hjá Húsnæðisstofnun á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Ég lýsi yfir ánægju með þessa ályktun en tek samt undir að það ber að forðast að drepa þessu of mikið á dreif.