Verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:34:54 (4853)


[17:34]
     Flm. (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær undirtektir sem hafa orðið við þessa tillögu og ég er viss um það að hv. 5. þm. Norðurl. e., 1. flm. tillögunnar, frú Svanhildur Árnadóttir, hefði orðið ánægð með að heyra þær undirtektir þó að mér fyndist að vísu nokkur undirtónn í þeim um það að mönnum þætti víða verið unnið að þessum málum.

    Tilgangur flm. er hins vegar sá að herða á því að eitthvað sé gert. Það er ekki nóg að hafa góð orð uppi og góðan vilja ef ekkert gerist.
    Varðandi það sem hv. 4. þm. Vesturl. nefndi að það lægju fyrir tillögur, þá veit ég ekki til þess að það liggi fyrir nokkur tillaga um það að flytja verkefni Húsnæðisstofnunar eða kanna það sérstaklega að verkefni Húsnæðisstofnunar verði flutt nema þá e.t.v. í þeim hugmyndum sem komu fram hjá hv. 2. þm. Austurl. um að það gerðist á vegum verkefnisstjórnar um tilraunasveitarfélög og vil ég þá segja nokkur orð um það.
    Hér í þinginu hefur ekki verið gerð nein grein fyrir því með hvaða hætti verkefni eigi að flytjast til hinna svokölluðu tilraunasveitarfélaga. Það er allt saman hulið mikilli þoku enn, fyrir mér a.m.k. Það á vonandi eftir að skýrast, en ég mundi fagna því alveg sérstaklega ef það yrði nú ofan á að svokölluð tilraunasveitarfélög fengju þau verkefni sem Húsnæðisstofnun hefur á sinni könnu að hluta. Ég tel að hinn eðlilegi gangur væri sá, ef verkefnum Húsnæðisstofnunar yrði skipt upp, að þá væri það annars vegar með því að fela sveitarstjórnunum að sinna þjónustuhlutverkinu á hverjum stað og sveitarfélögin gætu þá leitað eftir því til margs konar aðila, ráðgjafa og annarra sem tækju að sér þá þætti fyrir sveitarfélögin eftir aðstæðum á hverjum stað. Og hins vegar væri það svo eðlilegt að lánastofnanirnar tækju að sér hinn fjármálalega þátt þessara verkefna sem Húsnæðisstofnun hefur með að gera, þá í umboði og í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög eða samtök sveitarfélaga á svæðunum. Ég tel t.d. að það sé ekki eðlilegt að sýslumannsembættum yrði falin eins konar fjármálaleg umsýsla eða bankaleg umsýsla, eins og hv. 4. þm. Vesturl. nefndi, ég tel að það sé ekki eðlilegt. En það má hins vegar líta til þess hvort eitthvað af þessu gæti farið inn á þær skrifstofur.
    Hv. 2. þm. Austurl. velti því fyrir er hvort það væri óþarfi að skipa nefnd sem sú tillaga sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir. Ég held að það sé full þörf á því að skoða þetta. Þó að verkefnisstjórnin um tilraunasveitarfélögin sé með þetta á sinni könnu þá þurfi að taka þessi húsnæðismál, þjónustuþátt Húsnæðisstofnunar til gagngerrar endurskoðunar. Ég vænti þess að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar geti orðið mikilvægt innlegg í þá vinnu sem því miður er ekki í gangi, svo ég viti til, í neinni alvöru nema þá einhverjar lauslegar hugmyndir sem kunna að vera á sveimi í tengslum við tilraunasveitarfélögin.
    Það er svo aftur annað mál og sérstakt sem væntanlega á eftir að ræða heilmikið hér í þinginu hvernig staðið verður að þessum svokölluðu tilraunasveitarfélögum og tilflutningi verkefna til þeirra. Mér heyrist úr öllum áttum vera hrópað á tilraunasveitarfélög og menn hafa miklar væntingar um þau. Ég vona að menn verði ekki fyrir vonbrigðum þegar þær tillögur koma fram.